Af hverju ættirðu að vinna í sambandi þegar maki þinn gerir það ekki?

Við höfum öll heyrt þetta klassíska „it takes two to tango“ sem segir okkur að samband gangi ekki upp nema báðir aðilar séu heils hugar í sambandinu, leggi sig jafn mikið fram og vilji augljóslega jafn mikið vera þar. Og það er alveg rétt þegar við lítum til lengri tíma og skoðum hvað það er sem við viljum að samband þjóni fyrir okkur þá viljum við flest vera með jafningja og manneskju sem gefur af sér þannig að sambandið í heildina sé að gefa okkur tilbaka. Einhver sem vinnur jöfnum höndum að því að bæta sambandið og lætur sig það jafn mikið varða.

En hvað ef þú sérð vandamál þar sem makinn þinn er sáttur? Hvað ef þú ert búin að biðja um að þið reynið reynið ýmislegt að auka ánægju þína í kynlífinu en við litlar undirtektir? Hvað ef, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, nándin virðist ekki vera að dýpka en makinn sér samt ekki tilefni til að fara í pararáðgjöf? Kannski er mikið að gera hjá honum, kannski finnst honum þú bara vera vandamálið eða kannski er hann að skálda afsökun af því hann er ekki að viðurkenna óttann sinn við að tjá sig fyrir framan ókunnugan fagaðila. Hver sem ástæðan er enda margir í þessari stöðu að finnast þau vera eina manneskjan að leggja inn vinnu í samband og spyrja sig „af hverju ætti ég að vinna í þessu sambandi þegar mér sýnist þú ekki gera neitt?!“ 

Þó svo ég sé heilshugar á þeirri skoðun að þú eigir að velja maka sem gefur þér og sambandinu mikið og í heildina færðu jafnmikið ef ekki meira út úr því en þú leggur inn, þá vil ég samt segja þér frá nokkrum ástæðum þess að það gæti verið góð ástæða fyrir því að þú leggir inn vinnu, þrátt fyrir að makinn þinn geri það ekki. Og fyrir ykkur sem eruð ekki í sambandi en hafið velt þessu fyrir ykkur áður eða hugsið að það sé nú til einskis að „vinna í sér“ tengt samböndum á meðan enginn er makinn – þá skora ég á þig að endurskoða það viðhorf og líta frekar á það þannig að þú ætlir að vera viss um að þú sért besti maki sem þú getur verið þegar næsti óvænti ástarneisti mætir í líf þitt og þú þurfir ekki að byrja á því að vaða í gegnum gömul sár til að njóta þín í næsta sambandi. Þannig að taktu djúpan andadrátt og lestu þessar 5 ástæður þess að þú ættir að vinna í sambandinu jafnvel þótt maki geri það ekki.  

 1. Þú veist hvað þú vilt upplifa í sambandi. Það er ekki bara ein rétt stærð sem segir hvernig gott samband er og það sem þér finnst vanta er einstakt fyrir þig. Þú ert sú manneskja sem veist hvað vantar upp á svo að þú sért sátt. Þú veist best hvað þú vilt verða að veruleika. Þú ert besta (eina) manneksjan sem getur skapað það sem þú vilt. Það getur verið erfitt að horfast í augu við það að enginn annar geti „bjargað málunum“ fyrir þig og að kannski veistu ekki hvað vandamálið er. Engu að síður er það góð ástæða fyrir þig til að gefa sambandinu tímann sem það á skilið til að þér líði betur. 
 2. Það er ástæða fyrir því að þú ert ennþá í þessari stöðu. Það er ennþá einhver lífslexía þarna sem þú ert að læra og taka til þín. Þú gæti meira að segja kallað þetta karma. Hugsaðu það þannig: Ef þetta samband myndi gufa upp akkúrat núna og þú myndir ekki fá tækifæri til að útskýra þína hlið og fá útskýringu frá makanum þínum – hvaða lærdóm myndirðu missa af því að fá? Það sem er að angra þig í sambandinu er mjög sterk vísbending um það sem þú þarft að læra og þetta samband er besti staðurinn til að gera það akkúrat núna. Það sem er að triggera þig hvað mest er það sem þú þarft mest að læra. Þú velur maka vegna segulkrafts sem heillar þig en á endanum er líka á bakvið það eitthvað atriði sem þér finnst ótrúlega pirrandi! Að geðjast fólki, kvarta sífellt eða lamandi ótti við höfnun sem lætur þig leyfa maka að vaða yfir þig…  allt þetta eru dæmi um munstur sem fylgja þér og þú ert líkleg til að endurtaka ef þú gefur því ekki tímann sem þarf til að uppræta. Þess vegna er góð ástæða til að nýta tækifærið í sambandinu þar sem þú ert og takast á við þetta því þú munt líklega rekast á það sama þó þú finnir „betri maka“. Þar sem þú ert föst í munstrum að vera í sambandi sem þú ert ekki ánægð með, þar átt þú vinnu fyrir höndum þér. Eitthvað sem þú ert að gera akkúrat núna er að skapa stöðuna og það er í þínum höndum að prófa nýjar leiðir til að láta drauma þína rætast.
 3. Makinn þinn þarf þína hjálp til að vaxa. Við erum félagsverur og við þurfum á hvoru öðru að halda. Í framhaldi af síðasta atriði þá er sömuleiðis ástæða fyrir því að makinn þinn er þarna og hans ást á þér er líklega hvatningin sem hann þarf til að leggja sig fram við að læra betur á samskipti, nánd eða virðingu. Ekkert okkar er fullkomið og með því að vera með þér og í gegnum þína viljugu nálgun til að gera sambandið betra (fyrir þig) hjálparðu makanum þínum að læra mikilvæga færni í sambandinu. Við þurfum að hjálpast að við að læra betri samskipti, hlustun, virðingu og allt þetta nauðsynlega fyrir góð sambönd. Ef að þú ert núna til dæmis nýbúin að uppgötva gaslýsingu eða einhverja aðra særandi samskiptahegðun og hvernig hún er að skemma fyrir tenginunni ykkar, þá eru góðar líkur á því að makinn þinn viti ekki að hegðun hans sé skaðleg (eða að hann sé að því yfir höfuð). Með því að gefast ekki upp og halda áfram að koma óskum þínum á framfæri á kærleiksríkann hátt gerirðu makanum þínum mikinn greiða (ef hann er nógu heppinn til að sjá það þannig!) Það er mikilvægt að hafa svigrúm fyrir mistök og þolinmæði fyrir okkur að gera betur. Ekki samt gera þau mistök að líta svo á að það sé þitt hlutverk að fræða, laga eða ala upp makann þinn! Af því að…
 4. Þú ert í þessu sambandi fyrir þig. Þú átt að leggja þig fram í því af því það skiptir þig miklu máli. Ákvörðun þín að vera í sambandinu á að byggjast á því hvað þú vilt gera í þínu lífi. Þú átt ekki að vera í sambandinu eingöngu af því að makinn þinn elskar þig svo mikið eða þarf svo mikið á þér að halda. Sem fullorðnir einstaklingar þá erum við í samböndum af því að þau gefa okkur hamingju, gleði og lífsfyllingu. Það á enginn ást þína og nærveru skuldlausa og það á enginn rétt á ást þinni skilyrðislaust (nema þú). Ef þú veist að þig langar að vera í góðu sambandi þegar þú hugsar um lífið þitt þá eru vandamálin sem þú ert að díla við akkúrat núna leiðin sem þú þarft að fara í gegnum til að sá draumur verði að veruleika. Nú ertu mögulega að spyrja þig spurningu sem leiðir okkur að síðast atriðinu: „En ef ég er bara engan veginn viss um að þetta samband muni nokkurn tímann vera það draumasamband sem ég vil þrátt fyrir allt það sem ég hef nú þegar gefið og gæti haldið áfram að reyna?“ þá vil ég segja þér…
 5. Þú ættir að halda áfram að vinna í sambandinu þar til þú ert viss um að ekki sé tilgangur til þess lengur. Ef þú ert í sambandi sem þú ert ekki viss hvort það sé þess virði er það ástæða þess að vinna í sambandinu. Þú ert að sóa dýrmætum tíma með því að dvelja í óvissuástandi í sambandi sem þú ert ekki að vinna í og ekki að undirbúa að fara úr! Þú ættir að fara úr sambandi þegar þú færð engan vegin næga orku tilbaka miðað við það sem þú leggur inn eða hefur fengið staðfestingu að þið viljið engan veginn það sama út úr sambandinu eða lífinu. Það krefst oft mikils hugrekkis að fara úr sambandi og óvissa er besta leiðin fyrir hugann okkar að búa til afsakanir fyrir því að við séum ekki tilbúin að taka það nauðsynlega skref. Haltu áfram að læra, vaxa og (reyna að) vinna í sambandinu þangað til að þú ert komin með nógu mikla vissu um það hvort þú ættir að vera eða fara úr sambandinu. 

Sambönd krefjast vinnu. Það er auðvelt að berjast á móti þeirri staðreynd og vilja gefast upp þegar á móti blæs og stundum er það besti kosturinn. Þetta er þitt líf og þú mátt gera það sem þú vilt. Þegar upp er staðið vil ég haga mínum ástarmálum þannig að ég sé stolt af því að hafa gert það besta sem ég gat á hverri stundu og að hafa gefið samböndum allan þann séns sem þau áttu skilið – án þess að fórna minni eigin hamingju í leiðinni. Ég vil getað litið tilbaka og heilshugar sagt að ég hafi gert eins vel og ég vissi að ég gat miðað við það sem ég vissi á þeirri stundu. Í þessu lífi er margt sem ég hef ekki stjórn á, en hvernig ég sjálf haga mér, hvernig ég tjái mig og hvernig ég hlúi að sjálfri mér, því hef ég stjórn á og það ætla ég að nýta mér á besta veg sem ég get. Það er mín leið til að finna, rækta og halda alltaf áfram að skapa besta samband sem ég get ímyndað mér.

– Þórhildur Magnúsdóttir

////

Komdu á frían netfyrirlestur „3 nauðsynleg grunnatriði DRAUMASAMBANDS“  miðvikudagskvöld kl. 18. Skráning hér: https://sundurogsaman.me/draumur

Þórhildur er sambandsmarkþjálfi, verkfræði- og hagfræðimenntuð. Síðustu ár hefur hún rannsakað sambönd af mikilli dýpt bæði fræðilega og persónulega og komið auga á margt sem þarf nauðsynlega að bæta í fræðslu til almennings um ástarsambönd. Takmarkaðar lausnir í boði leiddu hana til þess að feta sína eigin leið í að bjarga eigin hjónabandi og úr því varð mikill sjálfskönnunarleiðangur, fræðslumiðillinn @sundurogsaman á Instagram og námskeið fyrir bæði pör og einstaklinga. Þú getur lesið meira um Þórhildi og einstaklingsnámskeiðið hennar Þitt er valið á vefsíðunni. https://sundurogsaman.me/val

Hún brennur fyrir því að hjálpa fólki að kynnast sér betur til þess að geta átt betra líf og dýpri sambönd. Sambönd eru það málefni sem skiptir hana mestu máli af öllum og því hefur hún tileinkað sig því að hjálpa öllum Íslendingum að eiga betri sambönd. 

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG