Ákvörðun um hægara líf

Að flýta sér svo mikið að maður gleymir að finna fyrir lífinu er að dálítið eins og að kasta því á
glæ. Að spenna bogann svo hátt að man hefur sífelldar fjárhagsáhyggjur er of mikið. Að tapa sér
í lífsgæðakapphlaupinu er óþarfi. Að stefna alltaf að meiru og hraðara til þess eins að fá
viðurkenningu eða verðlaun er líklega ekki hollt þegar til lengri tíma er litið. Að hlaða á
spennustig daglegs lífs með því að kunna ekki að segja nei, þótt fyrsta tilfinningin sé að þú getir
alls ekki meir, er sennilega oftast skaðlegt. Að bæta stöðugt á „to-do“ listann er kannski
eitthvað sem má endurskoða. Hvað með að stytta hann og jafnvel fresta eða sleppa einhverju á
honum?

Hæglæti, eða það sem á ensku er kallað slow-living, er svar við hraða og streitu samfélagsins.
Hæglæti er val um að lifa meðvitað og að hafa stjórn á því hvernig fólk ver tíma sínum. Að þú
hafir alltaf val um ákvarðanir og aðstæður og þar með að upplifa þig ábyrga/n/t fyrir eigin líðan,
heilsu og samskiptum við aðra. Hæglæti getur haft það í för með sér að auðveldara verður að
dvelja í núvitund, að vera vakandi og með athygli á núlíðandi stund. Að heyra og hlusta, að anda
og njóta, að velja meðvitað að takmarka streitu, draga úr neyslu, taka sér minna fyrir hendur og
gera færri hluti í einu. Að beina athyglinni frekar að því að vera í stað þess að vera upptekinn af
því að gera æðislega mikið. Fara hægar yfir, einfalda lífið og draga úr kröfum. Hæglæti er þó
ekki það sama og að gera allt löturhægt. Hæglætishugsun getur einmitt hjálpað okkur að fara
hratt yfir, þótt við gerum bara eitt í einu.

Að eiga meiri nærveru við sjálf okkur og aðra, skapa tækifæri til samveru með fólki, njóta
stundanna sem við gefum okkur í heimalestur barnanna, heyra í mömmu og pabba í síma, heyra
í börnum sínum og barnabörnum, vinkonum eða vinum, byrja fyrr að elda kvöldmatinn, gefa
okkur góða stund til að elda frá grunni, hlæja saman og hlusta hvort á annað. Allt þetta er
nokkuð sem við getum skapað með því að kjósa að hægja á og velja betur hvernig við verjum
tíma okkar og orku.

Það er í boði að lifa hægar. Það er í boði að gera lífið aðeins öðruvísi. Það er í boði að velja að
vinna styttri vinnudag eða vinna verkefnavinnu, jafnvel fjarvinnu sem veitir svigrúm til að ráða
tíma sínum betur. Það má sleppa sumu í stað þess að nota peninga í það að lifa frá launaseðli til
launaseðils. Það eru aðrar leiðir færar. Ég er með þessu ekki að tala til þeirra sem hafa ekki nóg.
Ég er að tala til þeirra sem gætu haft meira en nóg en hafa valið, meðvitað eða ómeðvitað, að lifa
með hið alíslenska „þetta reddast“ mottó að leiðarljósi, og eru kannski pínu tæp um hver
mánaðamót. Þar með talin er ég. Þetta er það sem ég og fjölskyldan mín erum að læra inn á
þessa dagana. Þetta heitir víst fjármálalæsi hjá þeim sem til þekkja og hafa jafnvel iðkað um
langt skeið. Fyrir mér fæddist þessi hugmyndafræði með hægari huga og meðvitaðri
ákvörðunum og yfirsýn, hugmyndum um hægara, einfaldara og næringarríkara heimilishald.

Að hægja á lífinu er ákvörðun sem við fjölskyldan tókum í sameiningu þótt það hafi þurft
töluvert átak til að hægja á mér og það er nokkuð sem ég legg mig fram um að muna þegar
kappið fer að æsast í mér. Ég er nefnilega líklega spennu- og hraðafíkill í bata. Kannski er þetta
bara aldurinn. En ég er allavega búin að læra að það er hægt og þá má hægja á.

– Þóra Jónsdóttir
Instagram: Þóra og slowlivingiceland

Þóra er hvatningakona fyrir hæglætislífsstíl, ein af stofnendum Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi, verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, lögfræðingur, markþjálfi, sáttamiðlari, fjölskyldumanneskja, friðarsinni, glöð miðaldra kona sem hefur náð að endurheimta færnina til að leika sér, svo sem í gegnum tónlist og með því að skapa gleðistundir með góðu fólki. 

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is