Kollagen duft eða töflur, virkar það?

Kollagen er prótein sem heldur vefjum líkamans saman eins og lím. Kollagen er í miklu magni í húðinni, eða er um 75% af þurr vikt húðarinnar. Ef við líkjum húðinni við rúmdýnu þá er kollagen grindin sem heldur henni saman, elastín gormarnir og hyaluronic sýra svampurinn. Það er sem sagt kollagenið sem stuðlar að þéttleika húðarinnar og kemur í veg fyrir hrukkumyndun.

Kollagen gegnir ekki einungis veigamiklu hlutverki í húðinni en það inniheldur mikið magn af amínósýrunum proline og glycine sem stuðla að heilbrigði sina, beina og liðamóta. Líkaminn myndar stöðugt kollagen úr próteinum sem við fáum úr fæðunni, en gallinn er að þegar við eldumst þá brjótum við það hraðar niður en við myndum það og því miður byrjar framleiðslan að hægja á sér strax eftir þrítugt. Þá fara öldrunarmerki að birtast á líkamanum eins og fínar línur í húð og stirðir liðir. Til að koma í veg fyrir það hafa fjölmargir tekið inn kollagen duft og töflur og fundist það gefa góða raun, finna mun á húð, nöglum og hári ásamt liðum. Þessi markaður hefur vaxið gífurlega síðastliðin ár og virðist ekkert lát á. En er þetta raunverulega að virka?

Það er erfitt að trúa því þar sem kollagen til inntöku fer beint í magann og er brotið niður í amínósýrur sem fara svo út í blóðrásina okkar. Að þær lendi svo í heilu lagi í húðinni er frekar ótrúlegt. Amínósýrur eru aftur á móti mikilvægar fyrir heilbrigði húðarinnar og það er því möguleiki á að kollagen til inntöku geti óbeint haft jákvæð áhrif á húðina.

Ein vísindarannsókn frá árinu 2014 þar sem 69 konur á aldrinum 35 til 55 ára tóku þátt, sýndi að þær konur sem tóku  inn 2,5 eða 5 grömm af kollageni daglega í 8 vikur voru með betri teygjanleika í húðinni miðað við þær sem tóku það ekki inn. Önnur vísindarannsókn sýndi fram á að konur sem tóku 1 gramm af kollageni daglega í 12 vikur voru með betri raka í húðinni og 12% færri hrukkur í húðinni. Þegar þessar rannsóknir eru skoðaðar vandlega sést að það vantar mun fleiri, stærri og betur hannaðar rannsóknir til að staðfesta þessi áhrif á húðina. Einnig sést að margar af þessum rannsóknum eru oft kostaðar af framleiðendum taflanna eða duftanna og því erfitt að treysta þeim niðurstöðum vegna hagsmunaárekstra.

Bestu og virtustu rannsóknirnar sem hægt er að gera eru svo kallaðar framsýnar tvíblindar slembiraðaðar rannsóknir þar sem tveir hópar eru bornir saman og rannsakendurnir vita ekki í hvorum hópnum einstaklingarnir eru. Svoleiðis rannsókn hefur aldrei verið gerð varðandi kollagen til inntöku og því aldrei verið borið saman við að borða próteinríka fæðu eða að bæta við próteindufti eða eitthvað álíka við fæðuna. Því er ekki hægt að segja með neinni vissu hvort kollagen til inntöku virkar fyrr en svoleiðis rannsókn hefur verið framkvæmd.

Það er einn hópur af neytendum sem inntaka á kollageni virðist hjálpa og það er hjá öldruðum einstaklingum. Þessi hópur tekur yfirleitt ekki inn nægjanlegt prótein og kollagen inniheldur mjög mikið prótein og er mjög kaloríuríkt. Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á vöðvamassa og gróandi í húð hjá þessum aldurshópi. Þar sem kollagen til inntöku hjálpar þessum einstaklingum getur vel verið að það gæti hjálpað heilbrigðum einstaklingum sem neyta ekki nægjanlegs próteins úr fæðunni.

Á meðan það eru ekki komnar betri rannsóknir sem sýna fram á ótvíræð áhrif kollagens á húðina hjá heilbrigðum einstaklingum þá ráðleggjum við skjólstæðingum okkar frekar að borða hollan og næringarríkan mat til að fá öll þau prótein sem þeir þurfa til að mynda nýtt kollagen úr fæðunni ( t.d. kjúklingi, fiski og rauðu kjöti).

Þar sem það er óvíst að kollagen til inntöku hafi nokkur áhrif á húðina eða þá eins og mjög lítil áhrif eins og rannsóknirnar benda til (12% minni hrukkur), er mun áhrifaríkara að nota vísindalega sannaðar aðgerðir með fyrirbyggjandi kremum til að koma í veg fyrir niðurbrot kollagens. Og hafið í huga, kollagen í kremum virkar ekki þar sem kollagen er mjög stór sameind og kemst ekki í gegnum ysta lag húðarinnar niður í leðurhúðina þar sem það á að vera.

Notið virk efni sem koma í veg fyrir niðurbrot kollagens eða hjálpa frumum húðarinnar til að mynda meira kollagen. Notið sólarvörn og andoxunarefni daglega sem koma í veg fyrir niðurbrot kollagens, og A vítamín krem eins og retinóíða eða retinol sem örva frumur húðarinnar til að mynda meira kollagen á náttúrulegan hátt. Það er vísindalega sönnuð aðferð og mun einfaldari.

– Jenna Huld

Dr.Jenna Huld Eysteinsdóttir húðsjúkdómalæknir er einn af eigendum Húðlæknastöðvarinnar þar sem hún starfar. Hún lauk embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands árið 2005 og hélt síðan til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem hún lauk sérnámi sínu í húð- og kynsjúkdómalækningum við Sahlgrenska sjúkrasúið árið 2014. Jenna Huld varði síðan doktorsverkefni sitt við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2017 en hún rannsakaði áhrif Bláa Lónsins á sjúklinga með psoriasis. Hún hóf störf á Húðlæknastöðinni Smáratorgi árið 2015 þar sem hún starfar við almennar húðlækningar en einnig fegrunarlækningar. 

Jenna Huld hefur mikinn áhuga á öllu sem viðkemur heilbrigði húðar og hefur því síðustu ár sérhæft sig enn meira í fegrunarlækningum sem er þá meðhöndlun húðarinnar með t.d. virkum húðvörum, lasermeðferðum og sprautumeðferðum. Hún skrifar reglulega pistla um málefni tengt húðinni og svarar spurningum lesenda á mbl.is um mismunandi húðvandamál. Einnig heldur hún úti hlaðvarpinu Húðkastið ásamt Rögnu Hlín og Örnu Björk húðlæknum þar sem þær ræða hina algengustu húðsjúkdóma og meðferðir þeirra. Nú nýlega stofnaði hún ásamt tveimur öðrum Húðvaktina sem er fjarlækningar lausn á sviðum húðlækninga en ætlun þess er að stytta biðtímann til húðsjúkdómalækna og auðvelda aðgengi landsbyggðarfólks að sérfræðiþjónustu. 

Fyrir utan vinnuna er hún mikil sveitastelpa inn við beinið og nýtur allrar útivistar en þá helst hestamennsku sem hún hefur stundað síðan hún var krakki. 

hudlaeknastodin á facebook
hudlaeknastodin á Intagram
hudvaktin.is

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG