Lífið er yndislegt og lífið er núna

Hvernig myndir þú lýsa þér?

Glimmerprumpandi-regnboga-einhyrningur haha. En það er sambland af lýsingum af mér frá öðrum. Ég reyni að vera jákvæð og horfa á lífið í björtu ljósi, sýna öðrum umhyggju og áhuga en þannig myndi ég vilja lýsa sjálfri mér. Ég er líka mjög brosmild og reyni að gleðja fólkið í kringum mig. Ég er listræn og skapandi. Ég er mikil félagsvera en elska líka að vera ein með sjálfri mér eða kúra á sófanum með fjölskyldunni minni.

Getur þú lýst því sem þú ert að gera í dag og hvaða hlutverki það gegnir?
Ég er hjúkrunarfræðingur og á og rek fyrirtækið Heilsulausnir með samstarfskonu minni henni Stefaníu Ösp Guðmundsdóttur. Við sinnum forvarnarstarfi þar sem við förum í skóla og fræðum börn og ungmenni um ýmis málefni tengd heilsu og vellíðan eins og skjánotkun, samfélagsmiðlar, svefn, ljósabekkjanotkun, kynheilbrigði og fleira en Vímuefnafræðslan okkar VELDU er langvinsælasta fræðslan okkar. Við leggjum mikinn metnað í fræðsluefnin okkar og notum nýlegar og gagnreyndar heimildir við vinnslu þeirra ásamt reynslu okkar úr starfi. Við erum líka stöðugt að uppfæra allt okkar efni í takt við nýjustu rannsóknir og samfélagsvenjur hverju sinni. Við viljum vera jákvæðar fyrirmyndir, vekja áhuga þeirra til að taka eigin ákvarðanir um eigin heilsu og efla gagnrýna hugsnum þeirra.

Andrea og Stefanía eiga og reka fyrirtæki Heilsulausnir

Heilsulausnir er einnig með fjölbreytta fyrirtækjaþjónustu eins og heilsufarsmælingar, persónulega heilsufarsráðgjöf, bólusetningar, skimun á andlegri heilsu og mótun og innleiðingu á heilsustefnu í fyrirtækjum. Þar reynum við líka að nota áhugahvetjandi samtalstækni til að aðstoða fólk að finna eigin lausnir ef t.d. starfsmaður reynist vera með óeðlilegar niðurstöður í heilsufarsmælingum. Auðvitað er fólk misjafnt en almennt finnst mér ekki virka að benda bara á það sem er neikvætt og ætlast til þess að fólk breyti sínum lífstíl. Það þarf að hlusta á einstaklinginn, benda á það sem er jávætt og hvetja hann áfram. Neikvæðni kemur okkur ekki langt, eða það finnst mér að minnsta kosti.

Við Stefanía rekum svo líka netverslunina Scrubs.is þar sem við seljum vinnufatnað og fylgihluti t.d. fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Við seljum mest af þematengdum vörum eins og fyrir jólin, bleikan október og hrekkjavöku en erum alltaf að bæta úrvalið á einlitum fatnaði sem læknastofur, dýralæknar, tannlæknar hafa t.d. keypt á starfsfólkið sitt.

En ég tek að mér allskonar verkefni og er mjög mikið í félagastarfi. Núna er ég í aðalstjórn FKA þar sem ég er ritari félagsins, ég er formaður deildar hjúkrunarfræðinga á Akranesi og nágrenni og ég er formaður góðgerðafélagsins TeamTinna sem ég og fleiri stofnuðum til heiðurs og minningar Tinnu Óskar Grímarsdóttur.

Mér finnst ég geta gefið mikið af mér, gert svo mikið gott og langar svo innilega að leggja mitt af mörkum til að gera heiminn í kringum mig betri. Það að hjálpa öðrum, dreifa jákvæðni og gleði gefur mér líka svo mikið.

Settir þú þér markmið fyrir árið 2024?
Ég setti mér ekki nein formleg markmið fyrir árið nema bara að halda áfram. Reyna að njóta augnabliksins, hafa minni áhyggjur og vera með fólkinu sem ég elska mest.

Andrea og Tinna á góðri stund í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2022

Hvað er það mest krefjandi sem þú hefur þurft að takast á við?
Það erfiðasta sem ég þurft að ganga í gegnum var að missa eina af mínum bestu vinkonum, hana Tinnu, en hún lést í febrúar 2023. Tinna (Tinna Ósk Grímarsdóttir) var yndisleg, hún gaf svo mikið af sér, gladdi fólkið í kringum sig, sýndi öllum umhyggju og gaf hlýjustu knúsin. Við urðum vinkonur eftir að ég flutti á Akranes 2016 og urðum nánari með hverju ári sem leið. VIð elskuðum að dansa, fara á tónleika, hlæja og láta eins og apakettir. Hún studdi mig í öllu, hvatti mig áfram og var alltaf til staðar fyrir mig.

Hún greindist með ristilkrabbamein árið 2021 sem hafði þá dreift sér í lifur. Aðeins 34 ára gömul. Hennar sjúkdómsferli var flókið og erfitt og einkenndist af endalausum bakslögum og óvissu sem gæti brotið hvern sem er, en Tinna var ótrúleg, hún stóð alltaf upp aftur, brosandi, jákvæð og æðisleg. Hún varð bara sterkari og flottari. Hún gaf bara meira af sér, hélt viðburði til að gleðja aðra og safna fyrir góð málefni, hún hélt ræður fyrir framan fulla sali af fólki (sem var henni sko ekki auðvelt) og hún þorði að taka meira pláss eins og að taka upp vikuleg myndbönd af sér að syngja sem er okkur svo dýrmætt að eiga í dag.

Það að ganga með henni í gegnum allt þetta, frá greiningu fram að síðasta dag, var það allra erfiðasta sem ég hef þurft að gera. Mér fannst ég svo ráðalaus, langaði að gera allt en það var ekkert sem ég gat gert. Ég vildi óska þess að ég hefði getað þakkað henni fyrir allt sem hún gaf mér, fyrir vináttuna, fyrir allt.

Ég reyni að fylgja hennar fordæmi og gera meira af því sem skiptir mig máli, gleðja aðra, dreifa jákvæðni og sýna fólki umhyggju, vera meira „ég“.

Andrea dýrkar að fara á viðburði hjá FKA – félag kvenna í atvinnurekstri

Ef þú ættir að lýsa einum vinnudegi hvernig myndi hann líta út?
Vinnan mín er svo ofboðaslega fjölbreytt, hver dagur er öðruvísi. En þannig finnst mér einmitt best. Suma daga vinn ég heima á skrifstofunni minni í kjallaranum á Akranesi, þar sem ég skipulegg verkefni, bý til fræðsluefni og tek það upp en ég er búin að setja upp mini stúdíó í heimaskrifstofunni minni, með green screen og öllu :). Aðra daga fer ég á allskonar fundi, ráðstefnur og því um líkt. Og svo fer ég út um allt land í skóla eða fyrirtæki með fræðslu, heilsufarsmælingar og fleira skemmtilegt. Þannig það er með sanni hægt að segja að engir tveir dagar hjá mér eru eins.

Svo líka geri ég svo margt annað skemmtilegt, eins og að fara á allskonar viðburði og fundi með FKA sem ég gjörsamlega dýrka ásamt alllskonar viðburðum tengd góðgerðamálum.

Hverjar eru helstu áskoranir þínar í dag?
Að huga að sjálfri mér. Finna jafnvægið milli þess að sýna mér mildi og að drífa mig áfram. Ég er líka að reyna að læra að segja stundum nei en það finnst mér bara mjög erfitt. Ég hef áhuga á svo mörgu og hef svo gaman að hjálpa og taka þátt í allskonar. En svo tek ég stundum of mikið á mig og keyri mig alveg út. Ég kann líka bara að gera hlutina „all in“, allt eða ekkert.

Hver er framtíðarsýn þín?
Ég vil hafa allt opið. Mig langar að halda áfram að byggja upp fyrirtækið mitt en er alltaf opin fyrir því að breyta og bæta. Mig hefur lengi langað að fara í eitthvað nám og það gæti vel verið að ég skelli mér í eitthvað skemmilegt.

Spakmæli (quote) sem veita þér innblástur?
Lífið er yndislegt og lífið er núna. Lífið er svo yndislegt, þó það geti verið erfitt, og mig langar að njóta þess eins mikið og ég mögulega get því við vitum ekki hversu langan tíma við höfum. Ekki alltaf vera að plana framtíðina eða hafa áhyggjur af fortíðinni, njótum dagsins í dag, augnabliksins. Lífið er núna!

Bækur/hlaðvörp sem hafa haft jákvæð áhrif á þig og þitt líf?
Ég hlusta mikið á hljóðbækur og hlaðvörp en það er fyrst og fremst til afþreyingar eða fróðleiks. Ég elska bækur sem halda mér á tánum, eru ófyrirsjáanlegar, en mér finnst leiðinlegt að vita alltaf hvernig allt endar. Ég hef gaman af því að hlusta á sannsögulegar bækur, reynslusögur fólks sem hefur komist yfir ótrúlegustu hluti og svo dýrka ég hlaðvörp tengd sjúkdómum eða heilbrigði og sérstaklega sögur af fólki sem hefur lent í einhverju mjög sérstöku í þeim efnum.

Andrea og móðir hennar María Richter / Ljósmynd: Silla Páls

Kona sem þú lítur upp til?
Vá ég lít upp til svo margra. Ég á stórkostlega merkilegar vinkonur sem eru hver annari flottari, systir mín er hörkudugleg og mikil fyrirmynd og svo er ég umvafin kröftugum konum í FKA en mamma mín er sú sem ég hef alltaf litið mest upp til. Hún byrjaði með lítið en hefur unnið myrkrana á milli (ásamt föður mínum) til að byggja mér og systur minni gott líf. Hún hefur kennt mér svo margt, eins og að vinna fyrir því sem ég vil eiga og mennta mig. Hún er mín helsta klappastýra og styður mig í einu og öllu. Hún hefur líka barist fyrir mig svo oft, eins og þegar ég lenti í einelti í æsku. Það gerist ekkert nema ég hringi í mömmu og segi henni frá öllu eða fá góð ráð. Hún er bara best.

Byggða á þinni reynslu hvaða ráð myndir þú vilja gefa öðrum konum?
Trúðu á sjálfa þig! Við erum oft okkar verstu óvinir, rífum okkur niður og trúum ekki á getu okkar þó svo jafnvel að allir í kringum okkur sjái hversu magnaðar við erum. Hættum að rakka okkur niður, tölum fallega og af virðingu um okkur sjálfar þegar við tölum við aðra en einnig í samtalinu sem gerist innra með okkur. Finndu leið til þess að gera það sem ÞÚ hefur áhuga á og leyfðu þér að gera mistök. Komdu fram við aðra af virðingu og kærleika, bæði færðu það margfallt tilbaka en einnig mun þér líða almennt betur.

Annað að lokum?
Höfum gaman að fjölbreytileikanum, enginn er eins og það svo æðislegt. Við þurfum að hætta að dæma aðra út frá kynhneigð, uppruna, húðlit og kyni og bara leyfa fólki að vera eins og það vill vera. Það tekur allt of mikla orku frá okkur að dæma og hata fyrir utan alla vanlíðanina sem það getur valdið viðkomandi.

Svo er ég að reyna að hætta að spá í hvernig föt „passa“ við þetta og hitt tilefni og bara fara í því sem veitir mér gleði hverju sinni. Það er alltaf tilefni fyrir glimmer, liti og pallíettur!

– Andrea Ýr Jónsdóttir

Heilsulausnir.is
https://www.linkedin.com/company/heilsulausnir/

Scrubs.is
https://www.instagram.com/scrubs.is_netverslun/

TeamTinna.is
https://www.facebook.com/TeamTinna
https://www.instagram.com/teamtinna_felag/

Andrea er eigandi og framkvæmdastjóri Heilsulausna. Hún er hjúkrunarfræðingur með yfir 15 ára starfsreynslu á spítölum landsins með áherslu á bráðaþjónustu. Einnig sinnt ráðgjafaþjónustu og störfum á heilsugæslu. Hefur sótt viðbótarmenntun hjá HÍ og setið á fjölmörgum ráðstefnum, fyrirlestrum og námskeiðum tengd heilbrigði, lýðheilsu og vellíðan ásamt því að halda þó nokkur erindi á slíkum viðburðum.

Andrea er öflug í félagastarfi og er stjórnarkona og ritari Félags kvenna í atvinnulífinu, formaður hjúkrunarfræðinga á Akranesi og nágrenni, formaður góðgerðafélagsins TeamTinna ásamt því að hafa setið í stjórn FRÆ (Fræðsla og forvarnir), Kynís (Kynfræðifélag Íslands) og Skyldi (forvarnarfélag hjúkrunarfræðinema).

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG