Ó þú yndislega Sikiley

Árið 2019 fór ég ein í þriggja vikna ferð til Sikileyjar. Ég hef lengi ætlað að taka ferðina saman fyrir aðra að njóta og óhætt að segja að það sé löngu tímabært. Hér reyni ég að safna saman upplýsingum sem gætu nýst þeim sem stefna á ferðalag til Sikileyjar. Í þessari ferð minni fór ég til Ortigia/Siracusa, Taormina, Salina (sem einmitt sú eyja sem þessi síða er nefnd eftir) og þaðan til Palermo sem er höfuðborg Sikileyjar. Eftir á að hyggja var þetta hin fullkomna blanda þó ég eigi enn eftir að koma til staða eins og Cefalù sem er víst einstakur strandstaður á Sikiley.

Ástæðan fyrir því að ég fór til Sikileyjar var einfaldlega sú að þarna var ég fráskilin og börnin á leið til föður síns í mánuð. Ég hafði verið dugleg að ferðast innanlands fyrri sumur og langaði að gera eitthvað nýtt. Ég skráði mig inn á ferðavef og valdi „ég er til í hvað sem er“ og upp kom Catania. Eftir smá grúsk á netinu komst ég að því að Catania er á Sikiley og leist mér bara þrusuvel á það. Ekki skemmdi fyrir að ég fékk farið á um 30 þúsund krónur báðar leiðir, þó sumir hefðu eflaust sett það fyrir sig að þurfa að millilenda þrisvar áður en komið var á áfangastað.

Í júlí lagði ég svo af stað og planið var að vera í þrjár vikur á Sikiley. Ég man eftir því að það þyrmdi yfir mig í flugvélinni og ég hugsaði hvað ég væri eiginlega að spá. Þetta yrði nú örugglega bara alveg glatað! Einmitt.

Ég lenti í Catania en var búin að kynna mér Sikiley nægilega vel til að vita að það væri í góðu lagi að sleppa því að stoppa þar og ég fór því beint með leigubíl til Ortigia. Ég get bætt því við að ég hef síðan þá farið til Catania við gerð sjónvarpsþáttanna Aldrei ein sem sýndir voru á sjónvarpi Símans og er enn á því að margir aðrir staðir á eyjunni séu meira heillandi. Ortigia er hins vegar dásamleg. Hún er lítil eyja og fallegt sjávarþorp með matarmörkuðum, menningu, veitingahúsum og dásamlegri strönd í stuttri aksturfjarlægð.

Fyrsti gististaður minn var L’Isola d´Ortigia sem var mjög ódýr og kósý gististaður þar sem húseigandinn talaði enga ensku en var þó svo vinalegur. Þessi ferð var „budget“ ferð, þannig að fyrir ykkur sem viljið lúxus þá er hann ekki að finna hér, ef frá er talinn lúxus í mannlegum samskiptum, innilegheitum og gestrisni. Sikileyingar eru þar engum líkir, sérstaklega á þessum hluta eyjunnar.

Mig langaði til að fara í bátsferð og eftir að hafa skoðað nokkra valmöguleika ákvað ég að leigja mér bát og vera minn eigin skipsstjóri frekar en að fara í skipulagða ferð. Ég var óviss um hvort að ég gæti þetta og fannst krefjandi að stíga þetta skref en hvorki fyrr né síðar hef ég upplifað jafn frelsandi stund og þegar ég var þarna langt úti á sjó og hafði frelsi til að sigla hvert sem var og henda mér út í sjóinn. Ég mæli svo mikið með þessu og núna fer ég varla til útlanda án þess að leigja mér bát.

Ég fór líka í dagsferð til Noto þar sem ég rölti um og smakkaði arancini-hrísgrjónabollur í fyrsta sinn. Hvorki fyrr né síðar hef ég bragðað þær jafn fullkomnar, en kannski er það bara þetta þegar maður upplifir eitthvað í fyrsta sinn. Ég hef heldur aldrei upplifað jafn mikinn vingjarnleika og í Noto. Þarna lenti ég í því að íbúar löbbuðu upp að mér og bentu mér á það sem mikilvægt væri að sjá og smakka og hvar ódýrast væri að versla. Spjallið endaði svo oft á að ég væri velkomin í heimsókn til þeirra hvenær sem væri. Hér var faðmurinn opinn.

Í Noto átti ég svo pantað matarboð á sveitabæ og mikið sem ég mæli með því að þið heimsækið Fabio og Anarella en þau eru algjörlega einstök. Þau gerðu upp jörð sem var í niðurníðslu og rækta þar sítrónur, matjurtir, framleiða ólífuolíu, sultur, brauð og svona mætti lengi telja. Við byrjuðum á að labba um jörðina og sækja hráefni í matargerðina og síðan settumst við saman og gæddum okkur á heimabrugguðu rauðvíni og borðuðum dýrindis mat sem Anarella hafði útbúið.

Frá Ortigia/Siracusa var förinni heitið til Taormina en þar erum við komin í allt aðra orku. Hér eru haldnar kvikmyndahátíðir og hingað streyma að Hollywood-stjörnur, enda kalla ég Taormina oft litlu Hollywood. Þarna er maður farinn úr sveitastemningunni í glamúrinn. Það er gaman að segja frá því að í Taormina bjó Halldór Laxness um stund og skrifaði Vefarinn mikli frá Kasmír en þetta þótti mér alveg mögnuð staðreynd. Í Taormina hækkar verðið bæðið á mat og gistingu og þar sem ég var ekki með mikinn pening á milli handanna og hafði lengi velt því fyrir mér hvernig væri að gista á farfuglaheimili þá ákvað ég að kýla á þá upplifun. Ég gisti á Hostel Taormina og þó að svefninn hafi nú alveg verið betri, var þetta snyrtilegt og vinalegt og gaman að upplifa. Að gista á hosteli er líka frábær leið fyrir þá sem ferðast einir til að kynnast fólki frá öllum heimshornum. Margt fólk gistir bara á hostelum með það að markmiði að kynnast öðru fólki víðsvegar að úr heiminum. Geggjað!

Við Taormina er steinaströnd sem gaman er að vera á og við hana er fögur eyja sem heitir Isola Bella. Frá ströndinni og í bæinn er ferðast með kláf þar sem umferð er mjög takmörkuð. Það er mögnuð upplifun. Annað sem mikilvægt er að gera er að fá sér góðan göngutúr upp að Castelmola sem er þorp frá 9. öld og var byggt í klettum um 4 km ofan við Taormina. Það er ólýsanlegt að koma þangað upp og ég mæli mikið með því að ganga þangað og koma við í klaustrinu á leiðinni. Þessi ganga getur hinsvegar tekið á suma og þá er lítið mál að láta keyra sig upp eftir. Í Castelmola búa um þúsund manns og þarna mæli ég með að smakka möndlulíkjör, njóta útsýnisins og alls ekki sleppa því að fara á Bar turissi – blikk blikk.

Ég framlengdi dvöl mína í Taormina um einn dag til að komast í ferð með ETNAPEOPLE sem fól í sér göngu á Etnu, hellaskoðun, sund í gili og vínsmökkun hjá Don Saro. Ég get ekki mælt meira með þessari ferð. Svo gaman og leiðsögumaðurinn okkar var æðislegur.

Ég get mælt með einum frábærum veitingastað á Taormina sem heitir ¾ quarti en þar fékk ég bestu máltíð ferðarinnar sem samanstóð af calamari með pistasíum og tómötum. Namm.

Eftir Taormina var förinni heitið til Salina sem er eyjan sem fólk fer til þegar það vill fara í frí eftir frí. Þetta er ekki eyja fyrir þá sem eru að leita sér að fjöri heldur miklu frekar staður til að vera með sjálfum sér og njóta einfaldleikans. Salina er núvitundareyja eins og hún gerist best. Ég ferðaðist um eyjuna en uppáhaldsstaðurinn minn þar var Santa Marina Salina. Þar er steinaströnd, góðir veitingastaðir, lítil göngugata og kirkja. Það var eitthvað svo töfrandi við Salina og við hæfi að fara ekki frá eyjunni fyrr en ég væri búin að giftast sjálfri mér, nema hvað.

Eftir nokkra daga var komið að því að kveðja dásamlegu Salina og skella sér í stórborgina Palermo. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið ást við fyrstu sýn, heldur meira menningarsjokk því líklega er ekki hægt að finna meiri andstæður en Salina og Palermo. Það tók mig 1-2 daga að „lenda“ og sjá fegurðina í kaotíkinni. Í Palermo fékk ég mitt fyrsta cannoli og vá hvað ég mæli mikið með þeim eftirrétti. Ég fékk mér „aperitivo“ á geggjuðum bar á hótelinu Ambasciatori og horfði yfir borgina og þvílíkt útsýni.

Eitt mitt besta ráð til að læra að elska Palermo er að fara með leiðsögumanni um borgina strax fyrstu dagana. Ég fór með Dominique sem er yndislegur en hann býður upp á menningu og mat í bland. Algjör meistari.

Í Palermo fór ég einnig í katakombu, sem er neðanjarðarkirkjugarður og var smá skrítin tilfinning að skoða þetta. Veit ekki hvort ég mæli með þessu en í það minnsta áhugavert og óhefðbundið.

Ég heillaðist af Palermo eins og öllum hinum stöðunum sem allir höfðu sinn sjarma. Mér fannst ég hafa verið í mismunandi löndum en ekki mismunandi svæðum á Sikiley. Ef ég færi aftur myndi ég gera allt það sama og bæta Cefalù við.

Ef þið eigið einhver skemmtileg Sikileyjar-tips þá væri voða gaman að fá að heyra frá ykkur. Annars vona ég að þetta gagnist einhverjum. Sikiley á einstakan sess í mínu hjarta.

– Berglind Guðmundsdóttir

Instagram: Lífsgleðin

Berglind er hjúkrunarfræðingur og heldur úti IG Lífsgleðin þar sem hún deilir því sem gleður og glæðir. Hún elskar að ferðast um heiminn og kynnast nýju fólki, menningu og matarvenjum og á Ítalía sérstakan stað í hennar hjarta.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is