Tjáning sem virkar

Hvernig verðum við betri í því að tala saman? Hvernig getum við átt mikilvæg samtöl án þess að allt fari í háaloft?

Hvernig geturðu tjá þig í sambandi þannig að samtalið raunverulega skili einhverjum árangri en sendi ykkur ekki í neikvæðnisspíral sem leiðir ekkert?

Ef þú ert ekki Ekhart Tolle, Joda, Buddha eða önnur mögulega uppljómuð manneskja er líklegt að samskiptin þín geti á köflum verið algert lestarslys. Þeim mun þýðingarmeiri sem samskiptin eru þeim mun eldfimari og meira rugl gæti verið í gangi. Til dæmis við forelda, nána samstarfsaðila eða börnin þín og síðast en ekki síst – makann þinn. 

Hver eru einkenni tjáningar sem virkar ekki? Hvaða vísbendingar segja þér að þú gætir orðið aðeins betri í að tjá þig?

Hér eru nokkur atriði sem eru líkleg til að vera til staðar í samskiptum þegar þau eru ekki alveg að virka nógu vel: 

 • þið talið um alltof marga hluti í einu og segið hluti eins og „og þetta minnir mig á hvernig þú getur aldrei…“)
 • þú ert ertu ekki tilbúin að hefja „erfið“ samtöl og þegir frekar og bíður eftir betri tíma
 • erfið samtöl stinga upp höfðinu þegar þú átt síst von á því og yfirleitt á mjög óheppilegum tíma. (t.d. rétt fyrir svefn, á leiðinni í matarboð, í undirbúningi fyrir ferðalög
 • þið eigið erfitt með að lýsa tilfinningum ykkar og talið í kringum hlutina
 • á meðan á samtalinu verðið þið pirruð, stressuð eða leið og vonlítil um að fá góða lausn á samtalið
  mögulega endar „allt í háaloft“ með hrópum og köllum, frosnum viðbrögðum, ofsagráti eða jafnvel verra. 
 • setningar byrja gjarnan á „við“ eða „þú“. Dæmi: „við verðum að vera duglegri að gera eitthvað saman“ eða 
 • þið notið leiðandi spurningar „er þér bara alveg sama um brúðkaupsafmælið okkar eða?“ „heldurðu að ég sé ekki þreyttur líka?!“

Úff! Þvílíkur listi. Rétt upp hönd ef þú kannast við ekkert af þessu – þú átt skilið fálkaorðuna! 

Hvernig í ósköpunum ætti þetta að geta borið árangur? Ég hef sjálf verið í öllum þessum aðstæðum. 

Hvað er vandamálið við atriðin á þessum lista? Fyrir utan að vera hrollvekjandi óþægileg þá liggur skýringin í því að það er engin stefna með samtalinu. Það vantar algerlega í það ásetningin að komast nær því marki að þið skiljið hvert annað betur. Eða, svo ég tala bara við þig sem lest þetta, að þú sért að vinna að því að gera þig skiljanlega/n og skilja makann þinn betur. 

Ef þú hefur farið til sambandsráðgjafa er líklegt að þú hafir fengið grunnkennslu í hvernig er best að tala saman. Nota „ég“-setningar, setja fókus á þína upplifun og endurtaka að þú skiljir hvað hafi verið sagt eru lyfturæðu-úrræði til að bæta samskipti. Hér langar mig því að fara aðeins undir yfirborðið og tala um hæfni sem fer aðeins dýpra en bara tæknin í því hvað þú átt að segja. 

Hér eru því þrjú atriði sem munu stórbæta mikilvægu samskiptin þín og gera þér kleift að tjá þig þannig að það „virki“

 1. Leggja áherslu á tenginguna. Bæði í augnablikinu þegar að samtalið á sér stað en líka í undirbúningi fyrir samtalið. Já ég er að leggja til að þú undirbúir þig raunverulega fyrir samtalið. Það er mikilvægt fyrir þig vita af hverju þú vilt vera í þessu sambandi og þar með af hverju þetta „mikilvæga“ samtal er þess virði. Í samtalinu sjálfu er mikilvægt að líta ekki á makann þinn sem óvin eða hindrum til að fara yfir. Þetta er manneskja sem skiptir þig máli og þú vilt það sem er ykkur báðum fyrir bestu (vona ég). Þið viljið vinna að því að skilja hvort annað betur, fyrst og fremst og þaðan er hægt að vinna að því að finna lausn. 
 2. Auka meðvitund um þig og aðstæðurnar. Þetta er nauðsynlegt til að samtalið geti átt hámarks von um að bera árangur. Þá á ég við að velja góðan tíma til að eiga samtal. Þar sem er næði, tími og ykkur líður báðum nægilega vel til að spjalla. Þú þarft kannski að biðja um tíma til að spjalla sem gæti virkar skringilega í fyrsta skiptið en er þess virði. Það sýnir virðingu við tíma og orku ykkar beggja og gæti verið mun áhrifaríkara skref en þig grunar. Á meðan á samtalinu stendur fylgstu með því hvernig þér líður og hvort að þú fáir tilfinninguna um að þú sért að ná að koma máli þínu til skila. Þetta snýst svoldið um að lesa á skynjarana sem eru að nema aðstæðurnar og taka mið af þeim. Stundum er nauðsynlegt að taka pásu á samtali og það er allt í lagi. Bara ekki gleyma að halda áfram sem fyrst til að ljúka því. 
 3. Vita hvað málið snýst um. Hvað er það sem þér liggur mest á hjarta? Þetta samtal er mikilvægt, það er eitthvað sem er ekki að virka ykkar á milli eins og þú myndir helst vilja og greinilega þarf samtal til að koma þínu sjónarmiði á framfæri. Hvað er það sem að er raunverulega að angra þig sem varðar makann þinn (eða aðra manneskju sem þú ert að ræða við)? Hvað er það sem þú vilt upplifa frekar? Hvernig viltu að þið gerið það? Og já eins og góðir sambandsráðgjafar myndu segja þér er mikilvægt að þú gefir þér tíma til að skilja þig betur og hvað það er sem skiptir þig máli. Ekki alhæfa um sambandið eða makann þinn.

Þetta eru ekki skyndilausnir og krefjast æfingar og tíma. Hugsaðu þér, hvað gæti orðið mögulegt í þínu lífi ef tjáningin þín virkaði aðeins betur? 

Ef þú vilt læra meira og ert tilbúin að stórbæta samtalshæfni þína í nánum samböndum býð ég þér á netfyrirlesturinn Tjáning sem virkar þann 13. mars kl. 18. 

Skráning fer fram hér: https://sundurogsaman.me/tjaning

Þórhildur er sambandsmarkþjálfi, verkfræði- og hagfræðimenntuð. Hún býður upp á sambandsmarkþjálfun og hefur gefið út netnámskeið fyrir pör og einstaklinga. Í sumar býður hún upp á retreat fyrir konur á Suður-Spáni. Hún brennur fyrir því að hjálpa fólki að kynnast sér betur til þess að geta átt betra líf og dýpri sambönd. Þú getur lesið meira um Þórhildi og þjónustuna sem hún býður upp á á vefsíðunni. https://sundurogsaman.me 

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG