Breytingaskeiðið getur verið valdeflandi

Breytingaskeið kvenna hefur lengi vel verið geymt í myrkrinu, því hefur fylgt tabú og skömm, konur lítið viljað tala um þetta lífsskeiðskeið sem við förum allar í gegnum hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Í mínum huga var ég svo langt frá því að vera komin á þennan stað í lífinu, enda var ég bara 45 ára og breytingaskeiðið bara fyrir „miðaldra konur“. Árin á undan hafði andleg og líkamleg líðan farið jafnt og þétt niður á við og þegar ég horfi til baka þá veit ég núna að ég var svona ca. 36-38 ára þegar einkennin byrjuðu, ég bara vissi ekki að það sem ég var að upplifa væru einkenni breytingaskeiðsins.

En hvað er þetta breytingaskeið, hvenær byrjar það og hvað er hægt að gera…

Á ákveðnum tímapunkti fer framleiðsla á kynhormónum minnkandi, það ferli getur byrjað í kringum 35 ára þrátt fyrir að við finnum ekki fyrir því, í byrjun eru þetta litlar breytingar sem valda ekki endilega einkennum sem við tökum eftir en margar konur tengja við þetta þegar þær horfa til baka, þá sjá þær að eitthvað var byrjað að breytast á þessum aldri.

Konur framleiða 3 kynhormón, estrógen, prógesterón og testósterón – já karlarnir hafa ekki einkarétt á testósteróni, konur framleiða 3 sinnum meira magn af testósteróni en estrógeni á frjósemisárunum.

Öll þessi hormón gegna mikilvægu hlutverki fyrir líkamsstarfssemi og líðan, ekki bara tengt frjósemi og barneignum, því allar frumur líkamans hafa hormónaviðtaka og þess vegna geta einkenni breytingaskeiðsins verið svo víðtæk og lúmsk

Breytingaskeiðið skiptist í 3 stig – Forstig (Perimenopause) það er því miður ekki til neitt gott íslenskt orð yfir þetta stig, enda er ekki langt síðan það var almennt viðurkennt að konur gætu verið að upplifa einkenni áður en þær hættu á blæðingum og færu á stig tvö sem kallast tíðalok, stundum kallað tíðahvörf (Menopause). Síðasta stigið er svo eftir tíðalok (Post menopause) sem eru öll árin sem á eftir koma.

Forstigið byrjar eins og áður segir svona uppúr ca. 35 ára með örlitlum breytingum á hormónaframleiðslu, misjafnt er hvenær einkennin fara svo að koma í ljós en margar konur finna fyrir einhverjum einkennum í kringum fertugt.

Fyrstu einkennin tengjast oftast breytingum á blæðingum, stundum eru þessar breytingar svo litlar að við tökum ekki eftir þeim s.s. örlítið styttri eða lengri tíðahringur, breyting á lengd blæðingatímans og magni blæðinga, en það er mjög algengt að blæðingar aukist og margar konur upplifa svokallaðar fossblæðingar á þessu stigi. Þarna geta verið fleiri einkenni eins og aukin fyrirtíðaspenna, höfuðverkir og nætursvitaköst í kringum blæðingar, þyngdaraukning þrátt fyrir engar breytingar á mataræði og hreyfingu.

Eftir því sem líður á fara svo önnur einkenni að koma fram t.d. einkenni frá vöðvum, liðum, orkuleysi, skortur á drifkrafti, svefnvandamál, kvíði og depurð, vandamál í tannholdi og gómum, einkenni frá þvagfæra- og kynfærakerfi s.s. tíð þvaglát, erfitt að halda í sér, tíð blöðrubólga, þurrkur, kláði og sviði við kynfæri, minni kynlöngun, hita og svitaköst ofl. en einkennin eru yfir 30 talsins og mæli ég með að þú skoðir einkennalista inná www.kvennarad.is undir flipanum Breytingaskeiðið til þess að taka stöðuna á þér.

Þetta stig getur varað í 7-10 ár og því er mikilvægt að vera vakandi fyrir þessum lúmsku einkennum sem er auðvelt að halda að sé eitthvað allt annað. Á þessu tímabili er mjög algengt að konur séu ranggreindar t.d. með kulnun og vefjagigt og þar af leiðandi rang meðhöndlaðar með t.d. svefnlyfjum, verkjalyfjum og geðlyfjum. En að sama skapi verður að gæta þess að skella ekki öllum vandamálum á breytingaskeiðið án þess að rannsaka það freker.

Það er mjög mismunandi hversu mikið konur finna fyrir þessum einkennum sumar konur fara nokkuð létt í gegnum þetta tímabil meðan aðrar upplifa mörg einkenni sem reynast þeim erfið og jafnvel lífshamlandi.

Tíðalok er í raun bara 1 dagur, dagurinn sem markar 12 mánuði frá síðustu blæðingum. Það er mjög misjafnt hvenær þessi tímamót eiga sér stað en meðalaldurinn er 51-52 ára.

Í kjölfarið á tíðalokum tekur við síðasta stigið; eftir tíðalok sem fylgir okkur það sem eftir er. Þegar þangað er komið minnka oft einkennin sem hafa herjað á okkur síðustu ár og mörgum konum fer að líða aðeins betur þegar líður á þetta stig. Þarna geta þó einkenni frá þvagfæra- og kynfærakerfinu orðið meira áberandi s.s. þurrkur í leggöngum, legsig, leggangarýrnun, kláði, sviði og pirringur við kynfæri, þvagleki, þvagfærasýkingar ofl.

En hvað geta konur gert til þess að komast í gegnum þetta lífsskeið annað en bara bíta á jaxlinn og kreppa hnefann. Það er margt sem þarf að huga að, ekki bara til að bæta líðan og tækla einkenni líðandi stundar, heldur þurfum við líka að hlúa að heilsunni og hugsa til framtíðar. En eftir breytingaskeiðið eru konur útsettari fyrir ýmsum sjúkdómum vegna lækkunar á hormónum, þarna erum við að tala um hjarta- og æðasjúkdóma, beinþynningu og nú er líka mikið í umræðunni að hugsanlega geti lækkun á hormónum ýtt undir þróun á Alzheimers sjúkdómnum.

Það er mikilvægt að huga að heildrænni nálgun þegar við leitum lausna, ég skipti úrræðunum upp í 6 flokka: hormónauppbótarmeðferð, næring, hreyfing, streitustjórnun, hvíld og svo mikilvægasti flokkurinn og undirstaða alls – hugarfar.

Kíkjum aðeins nánar á hormónauppbótarmeðferð…

Síðustu tuttugu árin hefur verið mikill misskilningur í gangi að hormónar séu hættulegir, valdi krabbameini ofl. Þetta var byggt á misheppnaðri rannsókn sem var gerð um síðustu aldamót, vegna mistaka fór umræðan um skaðsemi hormóna á flug og allir urðu hræddir. Nú hefur verið gerður fjöldi nýrra rannsókna ásamt því að þessi rannsók var endurskoðuð og í dag vitum við að hormónauppbótarmeðferð er mjög gagnleg fyrir konur á breytingaskeiði ekki bara til að hjálpa konum að takast á við einkennin heldur er hormónameðferð líka mjög mikilvæg uppá framtíðar heilsu kvenna og ákveðin vörn gegn þessum sjúkdómum sem áður voru taldir og geta orðið áberandi eftir tíðalok.

Gæði og tegundir hormóna hafa breyst mikið, fyrir um 20 árum voru þeir m.a. unnir úr þvagi óléttra hryssa – já það var verið að gefa konum hesta hormóna! En í dag er svokölluð Body Identical hormónameðferð talin lang öruggust, hormónin sem er notast við eru unnin úr plöntum eins og rótinni Wild Mexican Yam og Soyabaunum og ubbygging þeirra er eins og uppbyggingin á okkar eigin hormónum.

Estrógenið er best ef það er tekið inn í gegnum húð annað hvort sem gel sem borið er á daglega eða með forðaplástri. Með þessari aðferð komumst við hjá áhættu á blóðtappa, sem getur fylgt hormónum sem eru í töfluformi og til inntöku.

Prógesterónið er gefið í litlum belgjum sem gleyptir eru fyrir svefninn og hafa þá dásamlegu auka eiginleika að hjálpa okkur að róa taugakerfið og ná djúp svefni. En það er gott að hafa í huga að allar konur sem eru með leg þurfa að fá prógesterón á móti estrógeninu til þess að vernda legslímuna. Einstaka kona getur hins vegar verið viðkvæm fyrir inntöku á prógesteróni en þá er hægt að fara aðrar leiðir eins og að nota hormónalykkjuna.

Testósterón meðferð getur gagnast mörgum konum, en lengi vel var eingöngu talað um að konur „mættu fá“ testósterón ef þær voru komnar á eftir tíðalok skeiðið og voru greindar með sjúklega kyndeyfð. En testósterón gerir mun meira en bara að hjálpa okkur með kynlöngunina, nú er vitað að það spilar stórt hlutverk í heilanum og hefur mikil áhrif á andlega líðan, hugræna virkni, sjálfstraust, gleði og drifkraft. Þar að auki er testósterón mikilvægt varðandi viðhald á vöðvum og beinum, hjartaheilsu, blóðrás og efnaskiptum.

Ég mæli ég með að þú kíkir á www.kvennarad.is fyrir nánari upplýsingar en fyrir sumar konur eru þetta púslið sem vantar í lífið.

Ég vil benda sérstaklega á svokallaða staðbundna hormóna sem settir eru upp í leggöng og geta gert kraftaverk þegar konur þjást af einkennum frá þvag- og kynfærakerfinu, þessa hormóna má nota með hinum og henta líka konum sem annars geta ekki nýtt sér hormónauppbótarmeðferð. En því miður eru einstaka konur sem vegna heilsusögu sinnar geta ekki notað hormóna, þá geta sum geðlyf hjálpað við miklum hitakófum og eins hafa rannsóknir sýnt að dáleiðsla og atferlismeðferð séu gagnlegar leiðir í að ná tökum á sumum einkennum.

Þegar staðið er frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort nota eigi hormóna eða ekki er mikilvægt að hver kona skoði ávinning og áhættu með tilliti til sinnar heilsufarssögu. Oft finna konur fljótt mun á líðan þó að fyrstu mánuðurnir geti verið svoldið 3 skref áfram og 2 aftur á bak og líðanin alskonar í bland.

Það getur þurft að prufa fleira en eina tegund af hormónum og mikilvægt að gera sér grein fyrir því að skammtarnir sem við þurfum geta sveiflast eftir því hvað er að gerast í lífinu, streita getur til að mynda haft mikil áhrif á hormónaframleiðslu líkamans.

Eins og nafnið ber með sér – Breytingaskeið – er þetta tímabil síbreytilegt og það sem var að virka í síðasta mánuði getur verið breytt í næsta mánuði. Þetta tímabil krefst þess að við séum vakandi yfir andlegri og líkamlegri líðan, séum reglulega að meta hvað virkar fyrir okkur, hlustum á skilaboðin frá líkamanum, sýnum okkur sjálfsmildi og reynum eftir bestu getu að sníða okkur stakk eftir vexti…lærum að dansa með þessu skeiði og koma auga á möguleikana sem það felur í sér.

En það er mjög mikilvægt að átta sig á því að hormónauppbótarmeðferð er bara eitt púslið í heildarmyndinni, við getum ekki leyft okkur neinn afslátt í hinum flokkunum, en oft er hormónauppbótarmeðferð ákeðinn lykill í að aðrir þættir gangi upp, að við höfum orku og kraft til að taka næringu, hreyfingu, streitu, hvíld og hugarfar föstum tökum og gera breytingar.

Það getur verið erfitt að breyta og laga til eftir mörg ár af vanlíðan og vanvirkni ásamt því að sjálfsmyndin er oft orðin beygluð og brotin, minnstu skref í átt að breytingum geta virst óyfirstíganleg, því getur verið gott að fá aðstoð við að marka leiðina, finna út hvar er best að byrja og hvernig er best að gera breytingar sem standa með þér næstu árin.

Ég býð uppá atferlisþjálfun þar sem ég hjálpa konum að finna út hvaða breytingar þarf að gera, hvernig er hægt að setja þær í framkvæmd og stíga þessi skref ásamt því að vera klappstýran á kantinum, þangað til þær eru búnar að finna taktinn sinn aftur.

Því breytingaskeiðið getur verið svo valdeflandi, ef konur fá rétta greiningu, meðferð og aðstoð getur það verið upphafið af mögnuðum tíma, margar konur fá allt í einu nóg af því að hugsa um alla aðra og fara loksins að setja sjálfa sig í forgang, nenna ekki neinu bulli lengur – og setning sem ég heyri frá svo mörgum konum þegar þær eru búnar að finna taktinn og komnar með stjórnina í eigin hendur; „veistu…mér er bara drull“.

Halldóra Skúladóttir – kvennarad.is

Markmið mitt er að fræða, uppræta fordóma og útrýma tabúinu sem fylgt hefur þessu skeiði í áratugi! Síðastliðin 20 ár hef ég einbeitt mér að því að hjálpa fólki að vinna í hugarfarinu sínu og temja sér þar með betri vana og atferli sem leiða af sér betri lífsstíl og líðan. Ég er stöðugt að læra og leita leiða til þess að geta veitt enn betri þjónustu og hef viðað að mér víðtækri þekkingu.​ Það var svo í gegnum mína upplifun á kulnun og breytingaskeiðinu að ég ákvað að sérhæfa mig í þeim málum til þess að geta miðlað af minni reynslu.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is