Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu

Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem eru yfir 5000 ára gömul og iðkuð af meira en einum milljarði manna, nálgast heilsuna á heildrænan hátt. Þau líta á manninn sem hluta af náttúrunni sem fellur undir náttúrulögmál sem hafa áhrif á líkamsstarfsemi okkar, meðfætt erfðamengi, hugann, árstíðir og æviskeið svo eitthvað sé nefnt.

Með því að þekkja þessi náttúrulögmál er hægt að vinna með þeim – nýta sér þekkingu á eðli þeirra og lifa betra og hamingjuríkara lífi.  Nútímamaðurinn vinnur gjarnan gegn þessum lögmálunum með fæðu og lífsstíl og sólundar þannig dýrmætri orku sem gæti nýst í kraftmikla hugar- og líkamsstarfsemi. Ayurveda lífsvísindin eru rituð niður í hin fornu indversku veda rit. Fyrir um 30-40 árum fóru að birtast bækur fyrir almenning ritaðar á enska tungu og síðan þá hafa þessi lífsvísindi notið aukinna vinsælda á Vesturlöndum.

Vestrænt heilbrigðiskerfi hefur sínar takmarkanir, þrátt fyrir að geta bjargað lífum með lyfjum og skurðaðgerðum. Síaukinn kostnaður kerfisins vegna lífsstíls- og öldrunarsjúkdóma, ekki síst vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar, er að verða óviðráðanlegur. Það er því orðið knýjandi að breyta áherslum.

Heiða í garðinum sínum við jógatjaldinu þar sem hún heldur námskeiðin.

Það þarf að fá almenning í auknum mæli til að taka þátt í eigin heilsuvernd með lífsstíl og næringu eins og náttúrulækningar leggja áherslu á. Forvarnir eru betri leið frekar en að leggja áherslu á að lækna sjúkdóma og kvilla með dýrum lyfjum og skurðaðgerðum. Í náttúrulækningum eins og ayurveda kerfinu er lögð áhersla á að með réttu fæði og lífsstíl og lifa í samræmi við hrynjandi náttúrunnar sé hægt að koma í veg fyrir veikindi að mestu leyti.

Krydd eru t.d. notuð markvisst til að efla meltingar- og efnaskiptaeldinn agni og til að róa dósjurnar. Hitandi krydd geta þannig hjálpað til við meltingu og hægðalosun. Kælandi krydd geta hjálpað ef um hitakóf er að ræða eða önnur pitta vandamál og hægt er að nota þekkingu á áhrifum fæðunnar til að bæta sogæðakerfið og vinna gegn fitusöfnun. Í nýútkominni bók um ayurveda lífsvísindin má lesa nánar um áhrif krydda á líkamsstarfsemina.

Almenningur vill í síauknum mæli hafa hönd í bagga með sína heilsu og forðast óæskilegar aukaverkanir sem oft fylgja vestrænum læknismeðferðum. Margskonar tískusveiflur í heilsugeiranum koma og fara. Þær henta fólki misvel og eru ekki alltaf vel ígrundaðar.

Vatnskanna úr kopar en koparinn er vinsæll í ayurveda þar sem hann hefur sótthreinsandi áhrif svo eitthvað sé nefnt. 

Ayurveda er aftur á móti engin tískusveifla með sína mörg þúsund ára sögu. Í nálgun ayurveda á heilsu okkar er mikilvægt að taka tillit til meðfæddrar líkamsgerðar, prakriti, hvers og eins ef árangur á að nást. Með því að fylgja ayurvedískum lífsstíl og mataræði er hægt að hjálpa fólki að halda heilsu, ná sér hraðar af veikindum, og vonandi lengja lífið þar að auki.

Hægt er að nota ayurveda fræðin samhliða meðferð í almenna heilbrigðiskerfinu. Ef fólk er nú þegar á lyfjum eða í meðferð vegna sjúkdóms er hægt að samtvinna ayurveda við þá meðferð. Einn stærsti kosturinn við ayurveda er sjálfsþekking og sjálfsvitund sem eykst smám saman við ástundun ayurveda. Við verðum næmari á þarfir líkama okkar og getum brugðist við þegar jafnvægi fer úr skorðum í líkams- eða hugarstarfseminni.

Dósjurnar þrjár og þeir frumkraftar sem standa að baki hverri og einni.

Í ayurveda byggjast fræðin á dósjunum þremur: vata, pitta og kapha. Þessir lífskraftar stýra virkni líkama okkar og hafa sínar rásir sem þeir flæða eftir í líkama og huga.  Þegar dósjurnar komast í ójafnvægi og ferðast út fyrir sínar rásir er það  ávísun á veikindi. Það hefur áhrif á meltingar- og efnaskiptaeldinn agni sem veiklast.

Sumir hafa vata ríkjandi í sinni líkamsgerð frá fæðinu. Eru með þannig prakriti eða erfðamengi. Aðrir hafa pitta ríkjandi og enn aðrir með kapha ríkjandi. Síðan eru það þeir sem eru með tvær dósjur ríkjandi og minnst af þeirri þriðju. Það er í raun algengasta tegund líkams- og hugargerðar. Magn dósjanna í líkama okkar og hugar ákvarðar styrkleika okkar og veikleika. Hvað það er sem líklegast er til að bila í heilsu okkar. Með það að leiðarljósi og þekkingu á áhrifum árstíðanna á dósjurnar og hvernig æviskeiðin þrjú markast af þessum dósjum getum við haldið boltunum okkar á lofti á listilegan hátt og forðast vandræði.


Jóga er eitt verkfærið í verkfæratösku ayurveda, enda eru ayurveda og jóga systurvísindi og bæði skráð niður í hin svokölluðu veda rit.

Nú eru lesendur þessa vefs flestir að nálgast þriðja og síðasta æviskeiðið eða nú þegar komnir þangað. Það er síðasta æviskeiðið sem hefst um fimmtugt og þá hefur vata síaukin áhrif á líkamsstarfsemina. Vata dósjan er þurr, létt, fíngerð, hrjúf, óregluleg og köld.  Þurrkurinn eykst því innra með okkur á þessu æviskeiði og hrörnun verður hraðaði ef við látum það afskiptalaust.

Mynd af abhyanga, þar sem verið er að bera olíu á húðina

Til að gauka að lesendum áhrifaríkum leiðum til að hægja á hrörnuninni bendi ég á mikilvægi þess að smyrja líkamann að innan sem utan. Taka inn vandaðar kaldpressaðar olíur eða ghee og bera vandaðar olíur á húðina eins og hefur verið iðkað í árþúsundir í ayurveda og kallast abhyanga. Ef þetta er gert þarf ekki margar vikur til að finna mun á liðum, svefni, húð, taugakerfi og hægðum svo nokkuð sé nefnt. En þegar vata eykst innra með okkur, sem gerist á þriðja æviskeiðinu fylgja oft vata-vandamál eins og þurrkur í húð, hári og slímhúð, liðverkir geta gert vart við sig og svefnvandamál og hægðatregða eru oft óvelkomnir gestir líka.  Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um aðferðir ayurveda til að styrkja líkamsstarfsemi okkar með því að nýta þekkingu á náttúrulögmálunum.

Þetta eru altæk náttúrulögmál sem eiga jafn vel við á Íslandi og Indlandi og því betur sem við þekkjum þessa krafta og áhrif þeirra á okkur, því betur gengur okkur að halda heilsu, – jafnt andlegri sem líkamlegri.

Jógatjaldið er friðsælt og fagurt.

+++++++++

Heiða Björk er næringarþerapisti (DipNNT), ayurvedasérfræðingur (AP), umhverfisfræðingur, jógakennari og sagnfræðingur sem starfar við heilsuráðgjöf og námskeiðshald. Hún notar ayurveda lífsvísindin til að hjálpa fólki að styrkja heilsu sína en hún lauk þriggja ára námi í fræðunum frá Kerala Ayurveda Academy 2023. Hún býr í Grímsnesinu og er þar með jógatjald þar sem hún heldur ayurvedanámskeið á sumrin og býður þar stundum upp á leidda liggjandi djúpslökun í anda yoga nidra. Hún býður upp á heilsuferðir til Indlands og hefur í mörg ár farið með hóp Íslendinga upp í fjöllin á Suður-Spáni þar sem dvalið er á heilsubúgarði í útivistar, heilsu og slökunarferð.

Heiða Björk gaf út kennslubók um ayurveda lífsvísindin í október síðastliðinn: Ayurveda. Listin að halda jafnvægi í óstöðugri veröld. Leiðarvísir um indversku lífsvísindin.

Hún er með vefinn www.astogfridur.is þar sem lesa má um ayurveda og heilsuráðgjöf hennar.

Facebooksíða hér

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is