Ábyrgðin er mín

Það sem ég hef lært…

Ábyrgðin er mín

…Er að ég ein ber ábyrgð á mér, minni líðan, minni hamingju, mínum draumum og minni framtíð. Hinsvegar mun heimurinn kasta alls kyns krefjandi verkefnum í áttina til manns á leiðinni sem munu tefja draumana, veikja heilsuna, hafa áhrif á líðanina, skerða gleðina og reyna á viljastyrkinn. Að því rituðu er mikilvægt að eiga í stórkostlegu sambandi við sjálfan sig, vera besti vinur sinn, þekkja kosti sína og ókosti, sýna sér mildi þegar á móti blæs og standa með sér og gildunum sínum í öllum stormunum.

Gaman að kynnast mér

…Að til þess að þekkja sjálfan sig vel og verða besti vinur sinn þarf raunverulega að leggja vinnu í að kynnast sér. Eins og endurnýja kynnin við gamlan vin, því við breytumst með árunum og reynslunni. Við skiptum um skoðanir, áhugamál, öðlumst nýja sýn á hluti, fólk, gjörðir og heiminn. Það er fátt skemmtilegra en að kynnast sér upp á nýtt, endurstilla sig með öllu, taka gamla víra úr sambandi sem þjóna okkur ekki lengur og tengja nýja. Nýtt og uppfært sjálf getur þýtt að það þurfi að skilja eitt og annað eftir, gera breytingar og verða svolítið fullorðinn.

Hækkaðu verðið

…Er að það má skilja við vini sína ef svo má að orði komast, eða endurflokka þá og endurstilla hvað þeir fá mikið rými eða tíma. Það þarf á engan hátt að vera dramatískt eða slæmt. En ef það gefur þér meira rými til þess að hleypa nýju fólki inn í líf þitt sem er tilbúið að kynnast þér í dag, verða samferða í þroskaferlinu sem lífið er, lyfta þér hærra og vera til staðar fyrir þig þá er tilgangnum náð. Þetta er nauðsynlegt að skoða þetta reglulega í gegnum allt lífið og vanda valið í hvert skipti. Það er enginn með æviáskrift af nærveru okkar, hlustun, faðmi og bestu bröndurunum. Það er blússandi verðbólga og verðmiðinn því orðinn himinhár.

Gættu að gleðinni

“Komdu að leika komdu að leika,” ómar í eyrum landsmanna í öllum partý-um þessa dagana í boði Siggu Beinteins og það af góðri ástæðu. Það að vera fullorðinn getur oft verið svo ofboðslega ábyrgðarfullt og alvarlegt að það er fátt mikilvægara til þess að halda í gleðina og heilbrigð geð að vera dulegur að leika sér. Leika sér í náttúrunni, leika við vini sína, leika við börnin sín sama hvað þau verða gömul, taka sig alls ekki of hátíðlega og hafa húmor fyrir sjálfum sér og já leika sér, hvað sem það þýðir fyrir hvern og einn.

Náttúruleg næring

…Er að náttúran hefur ofurkrafta og að náttúran gefur okkur næringu sem á enga sér líka. Það að fara berfættur út í náttúruna, það að anda að sér fersku lofti á morgnanna, það að leggjast í náttúruna og anda djúpt, það að ganga og baða sig í náttúrunni er einfaldlega best í þessum heimi. Ég er afar þakklát fyrir íslensku náttúruna og ég held við ættum öll að vanda okkur við að bera einstaka virðingu fyrir henni eins og hún á skilið.

Kolbrún Pálína Helgadóttir, fjölmiðla og markaðsráðgjafi, samfélagsmiðlasérfræðingur, efnisskapari, textahöfundur, stílisti, markþjálfi, Yin Yoga kennari og fagurkeri.

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG