ADHD í nánum samböndum

Rannsóknir sýna að skilnaður hjá fólki með ADHD er tvisvar til þrisvar sinnum algengari en hjá þeim sem ekki eru með ADHD. Þrátt fyrir þetta er skortur á fræðslu og úrræðum fyrir íslensk pör þar sem annar eða báðir aðilar eru með ADHD. 

Að vera í sambandi með einstaklingi með ADHD getur verið það besta sem kemur fyrir þig. ADHD-inu fylgja dásamlegir eiginleikar á borð við sterka samkennd og innsæi, góða kímnigáfu, uppátækjasemi og mikinn eldmóð sem gerir samveruna litríka og ævintýralega. 

Í byrjun sambandsins er allt nýtt, óvænt og tilfinningarnar eru sterkar. Þetta skapar kjörnar aðstæður fyrir manneskju með ADHD til að vera í fullkomnu jafnvægi og hafa mikla athygli. Fólk með ADHD er nefnilega áhugadrifið sem þýðir að framtakssemi þeirra og einbeiting kviknar við áhuga, nýjungar og sterkar tilfinningar. 

Eftir ákveðinn tíma tekur hversdagsleikinn við, nýjabrumið minnkar og athyglin færist yfir á önnur hugðarefni. Þetta þekkja allir sem hafa verið í sambandi. Fyrir einstakling með ADHD þá hefur þetta í för með sér verulegar áskoranir. Vegna ADHD-sins þá getur athyglin færst hraðar yfir og komið út eins og áhuginn á makanum hafi skyndilega minnkað eða að hann sé ekki að hlusta þegar á hann er yrt. Þetta getur skapað upphafið að langvinnum misskilningi, vonbrigðum og særindum í parasambandinu. Því þarf sífellt að leita nýrra leiða, ræða saman, virkja ímyndunaraflið og rækta sambandið.

Áskoranir í ADHD sambandinu

Öll sambönd takast á við áskoranir og ef fólk bregst nógu hratt við þeim, gefur sér tíma fyrir samtalið eða leitar sér utanaðkomandi aðstoðar getur það tekist á við þær áskoranir, náð gagnkvæmum skilningi og sátt. Ef höfðinu er stungið í sandinn þá halda áskoranirnar áfram að vaxa og teygja sig inn í öll samskipti parsins sem leiðir af sér gremju, pirring og jafnvel andúð. Eftir einhvern tíma geta núningar orðið að daglegum rifrildum og krónískri vanlíðan. 

Í tilfelli parasambands þar sem ADHD á í hlut geta þessir núningar og árekstrar verið tíðari en í öðrum samböndum. Ástæðan liggur meðal annars í því að einstaklingar með ADHD eru með taugaþroskaröskun sem gerir það að verkum að skynjun þeirra, tjáning og viðbragð er oft gjörólíkt maka þeirra (nema báðir séu með ADHD). Það er að segja að ef parið hefur ekki skilning á ADHD, þá er nokkuð öruggt að það viti ekki hvers vegna það er alltaf að misskilja hvort annað. Þegar svona ástand verður langvarandi þá má segja að streita sé komin í sambandið. 

Ein helsta áskorun einstaklinga í ADHD parasambandi lýtur að misskilningi í samskiptum parsins og skorti á gagnkvæmum skilningi. Ef allir sem fá ADHD greiningu hefðu aðgang að góðri fræðslu um ADHD einkenni sín og maka síns væri hægt að bæta samskipti þeirra til muna og draga verulega úr hárri skilnaðartíðni. 

Í mastersrannsókn sinni árið 2023 skoðaði Júlía Helga Jakobsdóttir, félagsráðgjafarnemi, upplifun einstaklinga með ADHD af því að vera í parasambandi. Hún ræddi við tíu einstaklinga, sjö konur og þrjá karla, sem öll voru með greint ADHD og voru í parasambandi. Um er að ræða fyrstu rannsókn sinnar tegundar á Íslandi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að ógreint ADHD hefði mikil mótandi áhrif á náin sambönd viðmælenda. Niðurstöðurnar sýndu einnig að viðeigandi fræðsla um áhrif ADHD á náin sambönd væru mikilvæg, en skortir of oft þegar einstaklingur fær ADHD greiningu. Eins töldu viðmælendur mikilvægt að makar fengju fræðslu um ADHD og áhrif þess á parasambönd. 

Hvernig er hægt að takast á við áskoranirnar?

Sæktu þér fræðslu og þekkingu um ADHD. Dýpkaðu skilning þinn á ADHD-inu þínu eða maka þíns. Bóka- og hljóðbókasöfn, internetið og vefsíða ADHD samtakanna er stútfull af vönduðu efni sem auðvelt er að nálgast. Einnig er hægt að nálgast aðstoð hjá ADHD markþjálfum, fjölskylduráðgjöfum og öðrum meðferðaraðilum. Lykilatriðið er að báðir aðilar fræðist um ADHD og einkenni þess. Aukinn skilningur er lykillinn að því að takast á við áskoranirnar. Annars getum við ekki séð hlutina út frá sjónarhóli hins aðilans. Með skilningnum getum við hins vegar sett okkur í spor og sýnt samhygð. Það dregur úr árekstrum í sambandinu og þolinmæði eykst. Að sama skapi er mikilvægt fyrir báða aðila að vita að ADHD einkennin eru aldrei afsökun fyrir ákveðinni hegðun, heldur eru þau útskýring sem ber að virða. 

– Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir, ADHD markþjálfi
– Anna Elísa Gunnarsdóttir, félagsráðgjafi


Viltu fræðast meira um ADHD í nánum samböndum?
Greinarhöfundar eru höfundar námskeiðsins ADHD í nánum samböndum sem er haldið á vegum ADHD samtakanna. Næsta námskeið hefst þann 4. mars nk. Nánari upplýsingar má finna á

https://www.adhd.is/is/namskeid/adhd-og-nain-sambond

Kristbjörg Kona er jafnframt með námskeiðið ADHD á kvennamáli, Áfram veginn og Understanding ADHD (á ensku), ásamt því að starfa sjálfstætt sem ADHD markþjálfi. Sjá nánar á

https://www.adhdmarkthjalfun.is

Mastersrannsókn Júlíu Helgu Jakobsdóttur, félagsráðgjafarnema, má nálgast á

https://skemman.is/handle/1946/45967

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG