„Vá hvað þú ert heppin að þurfa ekki að fara a klósettið“
Ég man hvað ég firrtist við þegar þetta var sagt. Fann hvernig fórnarlambið í mér krumpaðist saman og langaði að koma með ræðuna á móti hvað þetta væri i besta falli ömurlega niðrandi yfirlýsing og lýsti heimsku og vanþekkingu…..
Síðan hef ég staðið mig að því að nota þessa setningu sjálf. Oft og mörgum sinnum í alls konar aðstæðum. Það er nefnilega ekki alsæmt að vera með stóma og ekki síst; það eru tvær hliðar á öllu….að minnsta kosti .
Árið er 1988, ég er 23 ára og á von á mínu fyrsta barni. Meðgangan var svo sem ekki hnökralaus, því ég fór af stað i fæðingu á 24. viku. Ég var svo ung og þetta gerðist svo hratt að ég náði ekki utan um alvarleikann. Hugurinn er svo magnaður að við áfall þá kemur hann okkur í ástand dofa og samtímis dettum við oft í framkvæmdagír; gerum það sem gera þarf. Það náðist að stöðva fæðinguna áður en útvíkkun hófst af alvöru. En fyrir vikið var ég í rúmlegu á meðgöngudeildinni næstu mánuðina og fékk hríðarstöðvandi töflur daglega. Þegar barnið var talið nógu þroskað fyrir fæðingu fékk að að flytja út til mannsins míns sem var í námi í Danmörku. Hlýtt, danskt síðsumar, léttklædd og hamingjusöm. Tilbúin að takast á við nýtt hlutverk í lífinu sem lítil fjölskylda. Eftir að hafa gengið 2 vikur framyfir var ákveðið að rjúfa belginn og mér kemur í hug orðið eldgos; sonurinn fæddist 2 tímum eftir að belgurinn var rofinn. En það sem gerðist átti eftir að hafa áhrif á allt mitt líf þaðan í frá. Hraðinn var svo mikill og barnið svo stórt að þegar ljósmóðirin klippti, þá varð 4° rof alveg aftur i endaþarm og einnig inn á við í kviðarholið.
Illa talandi á dönsku, ung og án stuðnings gerði ég það eina sem ég gat; tókst á við þetta verkefni með hörkunni og dofin af hamingju yfir fullkomnu barni. Fyrsta aðgerðin vegna þessara mistaka var viku eftir fæðinguna þar sem innvortis blæðingar voru enn í gangi. Hefði ég vitað þá að aðgerðir vegna afleiðinganna yrðu stór partur af mínu lífi það sem eftir lifði…….reglulega verið að kippa mér út úr rútínu lífsins og endurhæfing nánast tekin við sem eðlilegur hluti þess að vera til.
Nú eru 35 ár liðin og seinasta aðgerðin var gerð árið 2021. Seinasta, vegna þess að þá var ekki meira hægt að gera og ég fékk því stóma. Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar læknirinn leit á mig og sagði orðrétt: „ hefur þú íhugað stóma?“. Hún hefði alveg eins getað spurt mig hvort ég hefði íhugað að flytja a Mars, svo fjarri var þessi hugmynd. Eina sem ég vissi um stóma var að það er poki á kvið sem tekur við hægðum og maður má fara í sund….. sá það á plakati. Um leið og ég kom heim lagðist ég yfir tölvuna og tíndi mér í að lesa allt hvað ég mögulega fann um stóma, stómaaðgerðir.
Saga mín er ekkert sérstök eða merkileg. Nema fyrir mig. Þá á ég við, að flest okkar sleppa ekki gegnum lífið án þess að yfir okkur dynji einhver áföll. Líkamleg eða andleg; skiptir ekki máli af hvaða toga því það er alltaf sama streitu- og álagskerfið sem tekur við óháð því hver í raun atburðurinn er. Það sem kemur í kjölfarið er hins vegar einstaklingsbundið og afleiðingar áfalla algjörlega háð því hvernig við tökumst á við og vinnum úr þeim.
Ég get ekki talað nema út frá minni persónulegu reynslu og geri það án þess að ætla mér að segja öðrum að gera það sama og ég. En kannski er eitthvað sem gæti komið einhverjum að gagni og því deili ég reynslunni fúslega. Ég hef ágætt safn áfalla í geymslunni minni: foreldramissir, meðvirkni í hjónabandi, krabbamein, fráfall vina og fjölskyldumeðlima, erfiður og langdreginn skilnaður svo eitthvað sé týnt til….og nú það seinasta; stómað. Þrátt fyrir öll áföllin stend ég núna 59 ára gömul og upplifi einstaka hamingju og sátt og líf sem ég get seint þakkað nóg fyrir.
Ég hef undanfarin ár lifað ævintýralegu lífi sem ég hef skapað mér algjörlega sjálf. Það gerðist ekki átakalaust né skyndilega. Þetta voru ótal mörg lítil skref í bland við stór stökk og oft á tíðum bakföll sem drógu tímabundið úr mér kjarkinn. En aldrei gafst ég upp að leita leiða. Litlir gullmolar sem gripu athyglina komu mér oft áfram en ekki síst held ég að grunnviðhof mitt hafi haft mikið að segja. Ég nefnilega fór í þá leit að finna hvernig ég var sem barn, því þau sýna óheflað hvaða einstakling þau hafa að geyma. Sjálf var ég glaðlynt barn sem vissi fátt betra en að vera í náttúrunni eitthvað að brasa. Þar lágu góðu æskuminningarnar og þar fann ég grunninn að uppbyggingu minni.
Til að gera allt of langa sögu stutta, þá hef ég á undanförnum einhleypingsárum mínum náð mér í réttindi sem köfunarkennari og fríköfunarkennari, kafað víða um heiminn; ég stunda fjallgöngur, skíði og ekki síst sjósundið. Já sjósundið……þar afrekaði ég ásamt dásamlegu vinkonum mínum í Bárunum að vera fyrsti skráði stómaþeginn sem synti yfir Ermarsundið sumarið 2022. Ég hef siglt á snekkjum þar sem ekkert er gert dögum saman nema kafa, borða, hvílast og njóta stundarinnar. Köfunin hefur dregið mig á ævintýralegar slóðir og hver einasta köfun verið hamingjustund hvort sem ég kafa með litlum Nemóum eða innan um hraustlega hákarla. Kílómetrarnir sem ég hef keyrt um á litlum bílaleigubílum í hinum ýmsu löndum skipta þúsundum og tindarnir sem ég þvælst um eru margir og ólíkir.
Það er hvorki flókið eða erfitt við að ferðast um heiminn ein. Ég gleymi samt aldrei fyrstu ferðinni minni árið 2014. Ég ákvað að fara til Sardiníu og bæta við köfunarréttindum. Fann mér girnilegt köfunarsetur með gistingu og festi mér bæði námskeið og herbergi. Andartakið þegar ég settist á annan helming rúmsins sem yrði mitt næstu 2 vikurnar og áttaði mig á að ég hafði engan til að deila með upplifunum eða spjalla við um daginn og veginn mér til halds og trausts….tilfinningin var samkrull af kvíða, létti og ekki síst frelsi. Ólýsanleg vellíðan yfir að finna að það væri ekkert sem stoppaði mig í að láta mína drauma rætast nema eigin huglægu múrar.
Samantekið má segja að ég hafi það að lífsreglu að kíkja alltaf innfyrir allar þær dyr sem opnast mér. Enginn skylda að ganga í gegn, en sjaldan ástæða til að hika ef útsýnið hinu megin er ókunnugt því ég hef lært að ekkert stækkar sjálfstraustið mitt meira en að þvæla mig í gegnum áskoranir. Það er skemmtilegt að finna lausnir og leiðir gegnum lífið; finna nýja stíga til að ráfa um, taka inn allt sem maður sér á lífsgöngunni……en gleyma aldrei að staldra við öðru hvoru og melta þannig að maður raði reynslunni á góðan stað í minningabankanum.
Ég elska lífið mitt og ætla að fara vel með það…..þakklát.
– Sigríður Lárusdóttir
Sigríður er fyrst og fremst ævintýrakona sem leitast við að lifa lífinu lifandi. Hún er menntuð lifeindafræðingur, meðferðardáleiðir, köfunarkennari, bókhaldari, fyrstuhjálparkennari, með framhaldspróf í klassískum söng en starfar nú sem verkefnastjóri hjá læknadeild Háskóla Íslands. Hún er ekki hvergi hætt að næla sér í þekkingu og spurning hvar hún dettur um næst……