Fimmtug og sjóðandi HEIT

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs Icepharma

Allavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt undanfarið !! Þannig að þetta lýsingarorð hefur alveg öðlast nýja merkingu í mínum kolli 😊

Eru einhverjar fleiri sem að kannast við þessa tilfinningu að vera í kringum fimmtugt og vera alveg sjóðandi heit, t.d á nóttunni, ekki á sama hátt og áður fyrr.  Heldur þannig heit að þú vaknar til að kasta af þér sænginni?  Líður þér eins og tveir ofnar séu að knúsast þegar að þú kúrar hjá kallinum?  Átt þú kannski hlaðanlega handviftu í veskinu eins og ég svona til öryggis ef að “hotnessið” hellist allt í einu yfir þig? 

Það væri sannarlega plús ef að öllu þessu fylgdi að maður upplifði sig “hot” með öllum þessum snöggu hitabreytingum en í hreinskilni sagt er það pínu strögll í þessu skeiði breytinga.

Breytingaskeiðið ber nafn með rentu, á þessum árum, þegar þetta blessaða tímabil kikkar verulega inn, er eins og allt sé að breytast, enda er sagt að það geti verið um 100 einkenni sem geta látið á sér kræla hjá konum í gegnum breytingaskeiðið og undafara þess (perimenopause).  Líkaminn tekur oft miklum breytingum hratt, konur verða oft viðkvæmari, pirraðar og neikvæðar, orkan og svefninn breytist og hrukkur og aukakíló gera vart við sig.  Í ofanálag getur manni liðið eins og maður þurfi WD-40 á liðina alla morgna.

Eftir því hvernig maður lítur á það, geta þessar breytingar bæði verið gjöf sem og áskorun. Jafnvel boðið upp á tækifæri til endurnýjunar og vaxtar, ásamt því að vera áminning um að mikilvægi þess viðhalda jafnvægi í lífinu og sína sjálfum sér mildi.  Breytingunum fylgir ekki endilega að maður brenni af ástríðu fyrir lífinu sjálfu ákkúrat á þessu tímabili, en mikilvægt er að missa ekki móðinn og skilja að líkaminn er að takast á við gríðarlegar hormónabreytingar sem geta haft veruleg áhrif á alla líðan.

Til gamans mætti líkja lífinu við kappleik.  Tilfinningin mín undanfarna mánuði hefur svoldið verið eins og fyrri hálfleik væri að ljúka og nú, í hléinu milli hálfleika, sit ég hér og er að velta fyrir mér hvernig ég get spilað minn allra besta leik í seinni hálfleik lífs míns.

Spurningarnar eru óteljandi, hvernig skipulegg ég mig á næstu mánuðum og árum til að halda líkama og sál í formi?  Hvernig peppa ég mig andlega inn í seinni hlutann?  Hvaða leikkerfi ætla ég að nota?  Hvaða aðferð ætla ég að nota í til að skora mörk og verjast og síðast en ekki síst, hvaða spilara ætla ég að velja með mér inn á völlinn?  Allt getur þetta haft úrslitaáhrif um hverslu lengi leikurinn stendur og hversu margar mínútur ég fæ inná vellinum.

Allt virðist vera einhvern veginn pínu erfiðara og flóknara en það var.  En á sama tíma hefur maður safnað reynslu í bankann sem hægt er að nýta til að skilja lífið og tilveruna og fólkið í kringum sig betur.  Einnig er ég ekki frá því að aukast sé í þakklætið fyrir allt það góða sem maður á. 

Ef maður virkilega spáir í það eru flestir í kringum mann eru að eiga við einhver vandamál, sumir eru í andlegum verkefnum, aðrir í líkamlegum, sumir í verkefnum tengdum samböndum og samskiptum, veikindum eða öðru. Ef að maður skoðar sín verkefni og myndi bjóðast að skipta við einhvern sem að maður þekkir á þeirra verkefnum, væri maður yfirleitt ekki til í að skipta.

Enginn veit hversu margar mínútur þeir fá inn á vellinum og maður hefur séð allt of marga sem kveðja langt fyrir aldur fram.  Vonandi nær maður að nota tímann sem maður fær sem best, fara í ákveðna endurnýjum, læra inn á sig upp á nýtt.  Læra að meta það, að fara inn í nýja tíma, þar sem meiri tími gefst fyrir sig, maka, vini og áhugamál en áður var. Sjá fegurðina í því nýja og vera þakklátur fyrir það gamla.  Finna ný áhugamál og nýjar leiðir til að vaxa, gefa meira af sér, rækta gæskuna og ástina. Elska meira –  bæði sjálfan sig og aðra.  Skipuleggja skemmtilega hluti og láta sér hlakka til.

Eins og góður íþróttamaður myndi gera, er lykillinn að hugsa vel um sig.  Næra sig vel og fallega, dekra og vera góður við sjálfan sig, rækta heilbrigða hreyfingu, svefnvenjur, nýjar ástríður í leik og starfi.  Einnig skal það sagt að ég sjálf hefði ekki séð til sólar nema fá stuðning í formi bætiefna og hormóna á undanförnum misserum þó að það sé endilega ekki nauðsynlegt fyrir alla.  Allavega mæli ég með að allar konur láti fylgjast með sér á þessum aldri og reyni að æfa sig í að hlusta á líkamann.

Breytingar og breytingaskeiðið þarf ekki að vera leiðinlegt, þó það taki á. 

Lifum lífinu lifandi

Ekki bara vera fimmtug heit heldur líka og fimmtug og fab ……

– Þuríður Hrund Hjartardóttir

Höfundur er Framkvæmdastjóri Heilsu & Íþróttasviðs Icepharma ásamt því að vera Heilsu og stjórnenda markþjálfi.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is