Skólastofan hefur enga veggi

Ég hef ákveðið að fara aðra leið en flestir og heimakenna börnum mínum. Tvö eldri barna minna gengu í hefbundinn skóla en hins vegar tókum við hjónin þá ákvörðun að heimakenna tveimur yngri barnanna. Nú er þriðji veturinn okkar í heimakennslu hafinn og börnin eru í 2. og 4. bekk.

Heimakennsla er ekki algeng á Ísland en þó hafa nokkrar fjölskyldur valið þessa leið. Til þess að fá að heimakenna þarf að sækja um leyfi hjá viðkomandi sveitafélagi. Eitt þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla er að annað foreldrið hafi kennsluréttindi. Viðkomandi fjölskyldu er úthlutaður þjónustuskóli sem er grunnskóli í sveitafélaginu. Sá skóli útvegar námsefni, veitir ráðgjöf og fer með eftirlit með heimakennslunni.

Ástæður þess að ég valdi að heimakenna eru nokkrar. Ég er þeirrar skoðunar að í fjölbreyttu samfélagi eigi að vera í boði fjölbreyttar leiðir að sama markmiði. Markmiðinu að mennta börnin okkar og undirbúa þau fyrir lífið. Við fjölskyldan lifum svokölluðu hæglætis lífi. Reynum að lifa í meðvitund og gæta jafnvægis milli rólegra stunda og hraða í daglegu lífi. Í því felst að stjórna sjálf hraðanum í okkar lífi frekar en að utanaðkomandi þættir stjórni. Það má segja að heimakennslan hafi komið sem rökrétt framhald af þessum lífstíl.

Með kennslu af þessu tagi er auðvelt að skapa börnunum rólegt og streitulítið umhverfi.

Jafnframt hef ég sterkar skoðanir á skólastarfi og því hvað skiptir mestu máli þegar kemur að námi. Það er mikilvægt að mæta börnum þar sem þau eru stödd hverju sinni. Vinna með styrkleika þeirra fremur en veikleika og byggja upp sterka sjálfsmynd. Vellíðan nemendans skiptir miklu máli því ef barni líður illa þá á það erfitt með að læra. Í heimakennslunni er auðvelt að vinna með einstaklingsmiðað nám, mæta þörfum barnanna og vinna út frá þeirra styrkleikum.

Helsta ástæða þess að ég valdi þessa leið er þó sú að ég fylgdi hjartanu. Það var eitthvað innra með mér sem sagði að þessi leið væri rétt og að ég ætti að velja hana. Mér finnst það mjög eðlilegt að vera mikið með börnunum mínum og eiga sterk tengsl við þau. Það er í raun mjög náttúrulegt að vera mikið með börnunum sínum og þannig var þetta hér áður fyrr. Hefðbundið skólastarf eins og það er í dag er mun nýrra á nálinni en heimakennsla.

Það er samt mikilvægt að fylgja börnunum og líðan þeirra. Eins og staðan er núna dafna börnin vel í heimakennsunni og líður vel. Ef það breytist þá munum við hlusta á það og skoða hefbundnu leiðina. Það eru nefnilega kostir og gallar við allar leiðir.

            Sú gagnrýni sem ég heyri helst á heimakennsluna er að börnin fari á mis við félagsleg samskipti við önnur börn. Ég skil þá gagnrýni vel og þetta er eitthvað sem þarf að vera vakandi fyrir. Hins vegar er það ekki svo að öll félagsleg samskipti barna á skólatíma séu jákvæð og nærandi. Í skólanum eru mörg börn á hvern fullorðinn einstakling og erfitt að fylgjast með öllu sem gerist. Börnin eiga sína vini í hverfinu og eru í fjölbreyttum tómstundum. Þau eru vel upplögð og spennt þegar þau fara í tómstundir og að hitta vini eftir hádegi. Ég tel að þau séu vel nærð félagslega þó þau gangi ekki í hefðbundinn skóla.

Vissulega getur það verið krefjandi að vera allan sólarhringinn með börnunum sínum og vera bæði foreldri þeirra og kennari. En ég tel það líka ákveðin forréttindi að eiga kost á því að vera svona mikið með þeim. Samvera foreldra og barna skiptir miklu máli. Það að vera mikið saman og eiga góð tengsl er mikil forvörn fyrir framtíðina. Ég hef stundum áhyggjur af því að börn séu of lítið með foreldrum sínum og samfélagið ali börnin of mikið upp.

Hefbundinn dagur hjá okkur er þannig að við lærum bókleg fög frá 9-12. Þá leggjum við áherslu á lestur, íslensku, stærðfræði, samfélagsfræði og náttúrufræði. Suma morgna gefst líka rými fyrir frjálsan leik sem er líka mikilvægur fyrir þroska barna. Eftir hádegismat æfa börnin  á hljóðfærin sín og svo hefst tómstundarstarf um 13-14 leytið. Annað barnið mætir að aiki tvo daga í viku í frístund í þjónstuskóla. List og verkgreinar flettum við inn í daglegt líf. Þegar tími gefst smíða börnin með okkur foreldrunum í bílskúrnum, baka og elda, sinna handavinnu eða myndlist. Það er mikill kostur að geta gripið áhuga barnanna og kennt þeim þegar þau eru vel upplögð.

Börn eru mismunandi og mismunandi leiðir henta þeim. Með því að heimakenna er ég ekki að segja að skólar séu ómögulegir. Innan margra skóla er unnið frábært starf og flestir þeir kennarar sem ég þekki eru magnaðir. Hins vegar er staðreynd að það líður ekki öllum börnum vel í skóla. Fyrir því geta verið margar ástæður. Hlutverk okkar sem samfélags er að börnum líði vel og þau nái að blómstra. Mismunandi blóm þurfa mismundandi leiðir til þess að blómstra. Því má heldur ekki gleyma að nám á sér ekki bara stað innan veggja skólanna heldur er nám út um allt. Börn eru alltaf að læra og segja má að skólastofan hafi enga veggi.

– Sólveig María

Fylgdu heimakennslu á Instagram og leiksamfélagið

Sólveig er grunnskólakennari með mikinn áhuga á uppeldi og öllu sem viðkemur velferð barna. Hún var einn af stofnendum Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi. Hún heldur úti miðlinum homeschooling.in.iceland þar sem hún sýnir frá heimakennslunni, fjallar um hægan lífstíl, kennslu ásamt meðvitund og núvitund í uppeldi.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is