Að lifa í ástríðunni

Hvað þýðir það eiginlega að lifa í ástríðunni? Er hægt að lifa í ástríðunni?

Fyrir mig þýðir það að fá að gera það sem ég ELSKA. Og hvað er það eiginlega? Jú, það er að ýta við öðrum og fá þá til að sjá það besta í sjálfum sér og að lifa lífinu til fulls. Einnig að rækta sjálfa mig og prufa alls konar verkfæri sem eru í boði þarna úti sem styðja við mig og minn vöxt. Ég verð að vökva mig eins og ég vökva aðra. Föstudagar eru t.d „me time” dagar, þá geri ég alltaf eitthvað fyrir MIG.

Ég get verið áskorandi fyrir suma en þá hugsa ég alltaf „vá langar þennan virkilega ekki til að vaxa”? Fyrir mig snýst lífið um að vaxa, við erum jú alltaf að vaxa, tökum vaxtarkippi á ýmsum tímabilum í lífinu og svo má ekki gleyma því að líkaminn getur vaxið í alls konar áttir. En það að vaxa andlega er að vilja læra meira á sjálfan sig, skoða sig í speglinum og spyrja „hvað langar mig?” eða „hvað vantar mig núna”?

Heimspekingurinn Sókrates sagði að mikilvægasta þekkingin í lífinu væri sjálfsþekkingin. Að þekkja sig ekki þýðir að þá veistu ekkert hvert þú ert að fara eða af hverju, sumir eru meira að segja að lifa lífinu fyrir aðra. Fyrir hvern ert þú að lifa þínu lífi?

Líf mitt hefur ekki alltaf verið dans á rósum eins og líklega allir hafa upplifað og „höfnun” hefur fylgt mér frá unga aldri eða alveg frá því ég var 14 ára. Þá var mér tilkynnt að ég ætti aldrei eftir að getað eignast börn. Frá þeim degi sem mér var sagt þetta eftir spítalalegu í rannsóknarferli gerðist eitthvað innra með mér. Ég ætlaði að eiga hundrað börn, var byrjuð að passa börn átta ára og fékk svo systur þegar ég var 10 ára, þvílík gjöf sem það var. En það brotnaði eitthvað innan í mér á þessum degi sem ég hef ekki getað límt aftur saman og í raun veit ég ekki hvað ég þarf að laga því þetta er núna orðið partur af því hver ég er. Sjálfsvinna og sjálfsrækt hefur hjálpað mér í að finna hver ég er og hvað ég þrái, hver mín ástríða er.

Þetta hefur verið langt en áhugavert ferli og svo dýrmætt að leyfa sér að fara þangað, að upplifa ekki að maður sé of sjálfselskur því stundum þarf maður að gera eitthvað og segja nei við öðru. Þegar þú segir nei við aðra ertu í raun að segja já við þig. Hvort heldur þú að sé betra? Það erfiðasta við allt þetta hormónarugl sem ég hef átt í stríði við allt mitt líf er að ég veit hvað ég vil fyrir líkamann minn og geri allt sem í mínu valdi stendur til að komast þangað en svo virkar það ekki. Það er höfnun sem erfitt er að lifa við. Ég hef valið að halda í ástríðuna mína sem heldur mér við efnið og gefur mér pásu frá þessari höfnunartilfinningu sem ég díla við alltaf öðru hvoru. Ég veit að ég er NÓG en þessi tilfinning hverfur ekki bara frá mínum persónuleika, ég tek á þessu öðruvísi í dag en ég gerði, hef lært að lifa með þessu.

Árið 2014 gerðist það fallega að mér er í raun sagt upp eða það átti að færa mig til í starfi sem vinnuveitandi minn vissi svo mikið að mér líkaði engan veginn. Þarna fékk ég besta tækifæri lífs míns til að hefja þetta sjálfsþekkingarferli og finna ástríðuna. Allt mitt líf hef ég verið „glaða” stúlkan og gert í því að hjálpa öðrum að finna gleðina en vissi í raun ekki að það eru ekkert allir sem vilja það, ég hef því triggerað ansi marga í gegnum árin. En þessi örlagaríki dagur þegar ég fæ þetta enn eina „höfununar” verkefni fóru hlutir að gerast inni í mér og brotið fór að heila sig. Þetta brot mun aldrei gróa fullkomlega og ég verð alltaf með ör sem ég get stundum fengið verki í. En það minnir mig á hver ég er og þarf ekki alltaf að vera svo slæmt, þótt það sé ekki gott að upplifa að vera ekki séð og heyrð.

Við þessa örlagaríku stund í lífi mínu að hætta sem ferðaráðgjafi eftir rúm 20 ár, tók ég þessa svokölluðu u-beygju sem svo margir þekkja. En þarna á þessum tíma uppgötvaði ég verkfæri sem kallast á íslensku markþjálfun (e. coaching) sem hefur hjálpað mér og stutt mig í gegnum mitt sjálfsþekkingarferli. Og það ótrúlegasta af öllu var það að þegar ég var að læra markþjálfun upplifði ég að þetta væri nú þegar fyrir löngu komið inn í mig, ég bara vissi ekki að ég hefði fæðst markþjálfi og hvað þá hvernig ég ætti að nota það. En þessi hattur passaði mér fullkomlega og ég uppgötvaði ástríðuna í mér!  Nú gat ég farið að lifa enn meira í ástríðunni minni til fulls! Ég kunni loksins á mig og vissi hvað ég vildi gera við líf mitt.

Og ég fæ svo sannarlega að lifa lífinu í ástríðunni, því ég vel það eða hef valið það. Þrátt fyrir að hafa átt geggjuð ár sem ferðaráðgjafi og verið að lifa lífinu í ástríðunni að einhverju leyti, var alltaf eitthvað sem var ekki rétt, ég fékk ekki að gera það sem ég þráði í raun að gera, að vinna með mannauðinn. En til að segja meira frá því hvað það er sem ég geri í dag þá nefni ég hér nokkra hluti því ég gæti skrifað heila bók um árin mín frá 2014 til dagsins í dag. Ég veit aldrei hvað næsti mánuður býður upp á en ég vel það sem nærir ástríðuna mína. Að lifa í hugrekkinu, að vita ekki, er partur af ástríðunni því hún snýst um að vaxa. Þetta hljómar kannski furðulega fyrir marga en ástríðan mín er að lifa í óvissunni eins óþægileg og hún er. En ég segi þetta aftur, því þar er vöxturinn!

Í átta ár hef ég verið að markþjálfa nemendur í skóla sem kallast NÚ Framsýnmenntun. Alla mánudaga er ég að hitta nemendur í einstaklingssamtali, það er partur af náminu þeirra. Stundum veit ég ekki hvort okkar fær meira út úr samtalinu því þetta eru svo mögnuð samtöl og ég fer svo ástríðufull frá vinnudeginum, þakklát fyrir að hafa snert hjarta annarrar manneskju með minni nærveru, hlustun og ástríðu við að hjálpa öðrum að finna sig. Nemendur vilja oft ekki  endilega vaxa í það sem aðrir vilja að þeir vaxi í og eru oft í mótstöðugírnum. En oftast þurfa þau bara að vera „séð og heyrð” sem er ekki endilega það sem þau upplifa í hinu daglega lífi. Þetta eru algjör forréttindi og ein af ástríðum mínum. Það eru fleiri skólar á Íslandi sem hafa nýtt mína þjónustu og meira að segja skólar úti á landi. Ástæðan er sú að þetta virkar.

Auk þess hitti ég leiðtoga út um allan heim í gegnum fyrirtæki sem hafa ráðið mig sem leiðtogaþjálfara (út frá Linkedin). Þetta eru aðilar sem þrá það að vaxa bæði í lífi og starfi. Og að vinna með slíku fólki er hreint unaður fyrir mig, þá vex ég og vex í minni ástríðu. Ég hef oft hugsað um hvernig ég get deilt minni upplifun og líðan eftir svona samtöl/þjálfun, ég er svo oft í háloftunum að ég veit ekki hvað ég á að gera við alla þessa ástríðu sem úr verður þvílík orka. Þetta er í raun svo sáraeinfalt, það er að hlusta og spyrja spurninga sem vekur upp eitthvað innra með hinum aðilanum. Svo hann sjái sig einfaldlega miklu betur, ég ELSKA þetta form. Markþjálfun ER ástríðan mín og verkfæri til vaxtar.

Ég er þessa stundina með aðstöðu í Heilsuklasanum þar sem ég tek á móti mínum íslensku viðskiptavinum sem hafa valið það að koma til mín, mitt orðspor hefur fært mér þessa einstaklinga þar sem ég treysti því ferli. Það skiptir mig engu máli þótt ég þjálfi nemanda eða forstjóra, þetta eru allt manneskjur í mínum heimi sem vilja mögulega vaxa eftir samtal við mig. Ef einhver vill ekki vaxa þá er það bara þannig og þá nær það samtal ekki lengra, það er ekki hægt að þvinga fram vöxt.

Svo er ég svo heppin að vera kölluð í íslensk fyrirtæki og einnig alls konar félög þar sem ég fæ að vinna með menninguna, samskipti, styðja við breytingar og svo margt fleira. Þá tek ég vinnustofur og þjálfa stjórnendur. Stundum er haft samband við mig beint og einnig er ég í samstarfi í dag við eitt framúrskarandi leiðtogafyrirtæki sem ég hef valið að vinna með því ég sé að þau eru að gera flotta hluti og er alveg í samræmi við mína ástríðu og lífsgildi.

Það fyllir líka á mína ástríðu að vera hluti af samfélagi markþjálfa og er ég núna formaður ICF Iceland sem er fagfélag okkar markþjálfa á Íslandi og einnig er ég formaður faghóps markþjálfunar hjá Stjórnvísi. Þarna er fólk sem hefur þessa sömu ástríðu og ég og veitir mér svo mikinn innblástur, auk þess sem það er svo gott að hitta félaga sína. Með þessu er ég að hækka gæði markþjálfunar á Íslandi og sjá til þess að markþjálfar séu að halda sínum gæðastimpli með vottunum o.fl. Þetta er algjör lífsfylling fyrir mig inn í mína ástríðu. Svo hef ég hef skrifað bók um markþjálfun, Markþjálfun umturnar, haldið úti hlaðvarpinu Þekktu sjálfan þig og stofnað Markþjálfahjartað, til að nefna örfáa hluti sem staðfesta hversu mikið ég er að lifa í ástríðunni minni. Ég er hluti af fleiri en einu alþjóðasamfélagi kvenna (e. women circle) sem hafa það að leiðarljósi að efla hver aðra og að læra þekkja sjálfar sig. Það snýst fyrst og fremst um það að vaxa sem kona og hvernig við konur getum stutt við okkar vöxt og annarra, mjög magnað fyrirbæri og er leyndur demantur sem allar konur ættu að skoða fyrir sjálfan sig EF þær þrá að vaxa.

Að lokum þá held ég mín eigin sjálfsstyrkingarnámskeið þar sem ég set inn yoga nidra því ég hef lært það og finnst það eiga svo sannarlega vel við og pakkar í raun inn allri sjálfsvinnunni sem hefur átt sér stað á slíku námskeiði, setur slaufuna á pakkann. Ég þrái það svo heitt að hver manneskja lifi sínu lífi til fulls og í ástríðunni, þess vegna er ég að skapa rými til þess með öllu því sem ég hef nefnt hér að ofan. Þetta er vinnan mín og það tekur oft á þrátt fyrir að lifa í ástríðunni en ég hef ákveðið að treysta ferlinu því ég veit hvað mig langar að gera.

Buddha sagði: „Það sem þú hugsar, verður þú að. Það sem þú finnur, laðar þú að þér. Það sem þú ímyndar þér, skapar þú”.

Hver ertu? Hvert ertu að fara? Af hverju? Ástríðan mín er vöxtur!

Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir
asta@hverereg.is / www.hverereg.is / Instagram / Facebook/ Linkedin

Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir er MCC markþjálfi að atvinnu og hefur unnið sjálfstætt frá árinu 2014. Hún segir að sitt stærsta og mikilvægasta hlutverk sé að vera hún sjálf og að það sé eins konar frelsi að segja að hún sé hún, frekar en að skilgreina sig út frá starfi, fjölskyldu, menntun eða öðru. Hægt er að finna feril Ástu inn á heimasíðu hennar. Ásta óskar öllum manneskjum að lifa í hjartanu sínu og fylgja innsæinu, finna hvað það er sem lætur það vaxa.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is