Þakklætisvenjur sem breyta lífi þínu

Ég finn fyrir líkama mínum í mjúka rúminu mínu og hjúfra mig inn í sængina. Ég finn öryggistilfinningu líða um líkamann. Takk fyrir húsaskjól og hlýju. Ég anda inn og út og þakka fyrir andadráttinn.

Þessi andadráttur gerir mér kleift að finna fyrir kærleika í garð sonar míns sem hefur laumast upp í rúm til mín í skjóli nætur. Það leikur um mig sterk móðurtilfinning.

Ég elska þessa litlu mannveru skilyrðislaust og hana langar mig til að vernda með kjafti og klóm.
Takk fyrir að ég fæ að vera mamma þín. Takk fyrir öryggi og frið.

Hinum megin við barnið hvílir ástin í lífi mínu. Ég horfi á ástmanninn sofa líkt og sést í væmnum ástarmyndum. Stari, andvarpa og brosi. Lífið okkar saman flögrar hjá í huganum. Takk fyrir þig.

Þessi mannvera er aðeins stærri en sú sem hvílir við hlið mér og myndast hefur grár blettur á dökku þéttu skegginu sem ber vott um að við séum að eldast. Takk fyrir að fá að verða gömul með þér.

Ég heyri í dætrum mínum sem fara hægt um þennan morguninn. Takk fyrir tillitsemina.

Stelpurnar sem einu sinni voru næturgestir hjá okkur hjónum en eru núsjálfstæðir einstaklingar á hraðri inn í fullorðinsárin. Takk fyrir að vera mínir bestu kennarar í lífinu. Takk fyrir allar hrukkurnar og gráu hárin.

Ég byrja hægt og rólega að hreyfa líkama minn. Ég finn rólegan andadrátt sem dansar við líkama minn. Takk fyrir andadráttinn. Hann ber þess merki að ég er á lífi.

Hugurinn í ró. Takk fyrir hugur. Takk fyrir allar þær hindranir sem þú leggur fyrir mig daglega sem gera mér kleift að gera mistök sem ég læri af. Hindranir sem leyfa mér að sigrast á verkefnum og vaxa sem manneskja. Hjartað slær taktfast í brjósti mér.

Takk fyrir visku hjartans sem aðstoðar mig á hverjum degi að hlusta á tilgang minn og mátt minn til að láta gott af mér leiða. Takk fyrir miðju sálarinnar, hjartað sem gerir mér kleift að þiggja og gefa kærleika.

Unglingsdæturnar rjúfa þakklætisbæn mína og stinga höfðinu inn til að reka á eftir mömmu sinni sem þarf nú að fara að byrja daginn eins og venjulegt fólk. Ég geng hægum skrefum inn á baðherbergi og lít út um gluggann og sé náttúruna blasa við mér í allri sinni dýrð. Hver árstíð býður upp á veislu fyrir skynfærin. Ný tækifæri.

Í dag eru haustlitirnir allsráðandi. Haustið býður okkur upp á að sleppa tökum á því sem þjónar okkur ekki lengur. Nýtt upphaf. Tækifæri til að hægja á. Hlusta. Haustlaufin eru sem hlý ábreiða fyrir komandi kuldatíð.

Það fyrsta sem ég sé þegar ég stíg inn í eldhús er þakklætistáknið sem ég hef stillt upp á fjölförnum stað. Þakklæti er skilvirkasta og árangursríkasta leiðin til að hækka þína tíðni. Þessi þakklætiskveikja í formi alþjóðlega þakklætistáknisins aðstoðar mig m.a. að stilla inn á mína hæstu tíðni fyrir daginn.

Ég fæ mér vatnsglas og þakka fyrir vatnið. Þakka fyrir það sem ekki allir hafa aðgang að á svo auðveldan máta eins og ég en sem svo margir taka sem sjálfsögðum hlut.

Að því loknu vippa ég mér út í guðs græna náttúruna og anda að mér ferska haustloftinu. Ég fikra mig áfram á griðarstaðinn minn þar sem ég stend alla morgna í örfáar mínútur, stundum einungis brot úr mínútu. Ég finn fyrir iljum mínum við mjúka og vota jörðina. Hún heilsar mér með krafti sínum. Ég skynja að ég er hluti af einhverju miklu stærra sem nær langt út fyrir líkama minn og sjóndeildarhring.

Andadráttur minn leiðir handleggi mína hátt upp til himins. Ég tek á móti alheimsorkunni með því að baða út höndunum og fylli lungu mín af jákvæðri orku sem sest að í hjartanu.

Takk fyrir þennan dag. Sama hvað dynur á þá mæti ég lífinu með opnum örmum og þakklæti í hjarta. Alheimurinn elskar að taka á móti þökkum og er viljugur að gefa til baka.

Ég sæki mér staupglas eins og ekkert sé eðlilegra fyrir klukkan átta að morgni og helli í það sterkum engiferdrykk. Lyfti glasi og segi upphátt „Skál fyrir lífinu“. Ég fagna lífinu á hverjum degi því það eru forréttindi að lifa.

Í sömu andrá koma unglingsstelpurnar mínar inn í eldhús til að sækja nestið sitt fyrir skólann og augun ranghvolfast sem aldrei fyrr við þessa iðju móður sinnar. Maðurinn minn brosir út í annað. Drengurinn sefur værum svefni. Það myndast skarkali þegar þau fara út í daginn. Hvert um sig á sinn stað, lifa sínu lífi, gera sitt. Takk fyrir möguleika okkar í þessu lífi.

Ég vek drenginn með knúsi og kossum og við njótum þess að eiga rólegan morgun saman. Morgnarnir hafa ekki alltaf verið eins rólegir og þeir eru nú. Takk fyrir að muna eftir morgnum þar sem það var meiri hraði og allir að drífa sig með tilheyrandi óróleika.

Okkur hættir til að gleyma hvað er að baki og hvað hefur áunnist. Þakklætisiðkun styrkir okkur í að muna eftir því sem gengur vel og umfaðma það. Ég næ mér í kaffibollann með áletruninni þakklæti sem minnir mig á að skrifa í þakklætisdagbókina mína.

Ég skrifa nánast daglega í bókina Þakklæti – dagbók sem leiðir þig í átt að aukinni hamingju sem er sköpunarverkið mitt. Skrif í þakklætisdagbók eykur hamingju fólks um 25%. Ég er tilbúin að auka hamingju mína um nokkur % þennan morguninn og kalla til mín meira til að vera þakklát fyrir. Ég skrifa
upphátt þennan morguninn með drengnum og byrja á þakklætismöntrunni minni;

Takk fyrir andadráttinn.
Takk fyrir þá gjöf sem lífið er.
Takk fyrir þennan dag.


Drengurinn stingur upp í sig vítamín gúmmíbangsa og ég er þakklát fyrir nútímann sem færir okkur oft einfaldar lausnir sem þessar. Eftir vítamínbúst hefur hann upp raust sína og tekur við keflinu;

Takk fyrir afa.
Takk fyrir pabba minn.
Takk fyrir mömmu.
Takk fyrir Sigga sæta.


Dr. Robert Emmons sérfræðingur í þakklæti og höfundur bókarinnar Thanks. How gratitude can make you happier segir að þakklæti varpar ljósi á þá staðreynd að við værum ekki þau sem við erum nema fyrir framlag annarra og því beinist þakklætið fyrst og fremst að öðru fólki.

Þegar drengurinn hefur þakkað nokkrum mikilvægum manneskjum í lífi sínu byrjar hann að þakka fyrir einfalda hluti eins og ís, pylsu og bíla. Börn eru stórkostlegir kennarar. Takk fyrir að minna mig á að muna eftir litlu hlutunum.

Þakklætisskrifunum lýkur og þar með þakklætisvenjum mínum þennan morguninn. Ég finn straum jákvæðra tilfinninga flæða um allan líkamann. Þakklæti er ein jákvæðasta tilfinning sem til er og það er hægt að þjálfa sig í þakklæti. Eitt af því sem einkennir hamingjusamt fólk er að það iðkar þakklæti.

Hugur minn er innstilltur á það jákvæða þennan fallega haustdag og það er auðveldara að horfa jákvæðum augum á öll mín lífsins verkefni. Líkami minn er tilbúnari að þjóna mér í dag enda hef ég fyllt hverja frumu af jákvæðri orku. Hjartað varðveitir þessi þakklætiskorn sem ég hef sáð í garðinn minn þennan morguninn.

Blóðstreymið fær greiðari leið í gegnum kerfið þegar ég hef tendrað þakklætisljósið í hjartanu. Ónæmiskerfið fær nýtt lag af tefloni til að takast á við neikvæðni. Athyglin er á réttum stað og ég er meðvitaðri sem aðstoðar mig að opna augun fyrir öllum gjöfunum sem bíða mín í dag. Áður en ég fer út um dyrnar minni ég mig á ásetning dagsins sem ég skrifaði í þakklætisdagbókina.

Ég er kærleikur og ljós.
Ég þakka fyrir það sem ég á nú þegar.
Ég kalla til mín meira til að þakka fyrir.

Þessi orð eru fræið mitt sem ég vel að sá í garðinn minn í dag. Þær minna mig á að vökva
garðinn, reita arfann og bera áburð. Fræið er búið að fá bestu hugsanlegu kjörin til að
blómstra.

Með þakklæti og vinsemd,
– Erla Súsanna Þórisdóttir


Erla Súsanna er eigandi Töfrakistunnar sem býður upp á alls kyns þjónustu fyrir einstaklinga
og hópa sem miða að því að auka lífsánægju og vellíðan. Innra með okkur öllum býr
fjársjóður og með einföldum leiðum Töfrakistunnar aðstoðar hún þig að leysa fjársjóðinn
þinn úr læðingi.

Erla Súsanna er höfundur bókarinnar Þakklæti – dagbók sem leiðir þig í átt að aukinni
hamingju sem fæst á heimasíðu hennar www.tofrakistan.is og í hinum helstu bókabúðum
Hægt er að fylgjast með henni á instagram @tofrakistan þar sem hún deilir fróðleik og ýmsu
sem drífur á daga hennar

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG