Tískusveiflur og persónulegur stíll

Í heimi hönnunar og arkitektúrs eru tískusveiflur, ekki síður en í fatatísku. Þetta er ekkert nýtt þótt við upplifum það kannski þannig en heimili foreldra okkar báru þess alveg örugglega merki að eitthvað ákveðið væri í tísku. Sama má segja um kynslóðina á undan sem hefur örugglega arfleitt mörg okkar að Hansahillum og Glit-vösum og ýmsu öðru sem hefur verið tískuhönnun þess tíma. Börnin okkar eiga örugglega eftir að fara í fjársjóðsleit í geymslum og bílskúrum okkar í von um að finna Omaggio-vasa eftir áratug eða tvo.

Þetta ekki séríslenskt heldur. Það eru tískusveiflur alls staðar, í Danmörku á öll miðstéttin nákvæmlega sama borðstofusettið eða að minnsta kosti helmingur hennar. Tískusveiflur eru nefnilega bara mannlegt eðli. Við skulum því hætta að skammast okkar fyrir það að langa í Ferm Living-skeljapottinn eða Frederik Bagger- kristalsglösin (á bæði við um mig).

Við getum þó auðveldlega lent í því að vakna upp við það að heimili okkar líta nákvæmlega eins út og hjá uppáhalds áhrifavaldinum okkar, eða eins og beint upp úr síðum Híbýlisblaðs. Við byrjum á því að kaupa sama plakat og við sáum hjá einni á netinu og síðan vasann sem við höfum dáðst að hjá svo mörgum, svo sófann sem sést út um allt, þetta virkar svo vel í blaðinu eða á netinu og af hverju ætti það ekki að virka hjá okkur?

Um helgina förum við síðan í matarboð til vinafólks en okkur líður eins og við séum enn heima í stofunni okkar sem er kannski bara þægilegt. Auðvitað er blæbrigðamunur, vinafólkið er með tvo bogadregna spegla en við erum með þrjá í röð, grái liturinn á veggnum þeirra er ögn ljósari en okkar grái litur, og á meðan Kate Moss með yfirvaraskegg prýðir ramma hjá þeim, er hjá okkur vísað á Pradabúðina, en bæði erum við með ilmkerti ofan á Chanel bókinni. Jafnvel eiga þau líka sumarbústað þar sem þau hafa málað alla innanstokksmuni svarta en skipulagið á bústaðnum er öðruvísi.

Fólk sem hefur ennþá meira á milli handanna er ekki undanskilið þessu en það er þá líklega með málverk eftir listamann sem vinakreðsan þeirra þekkja með fornafni, ekki af því þau þekkja hann persónulega heldur vegna þess að það er pínu töff að segja „er þetta Georg?“ eða „gerði Loji þessa sérstaklega fyrir þig?“.

Fólk spyr mig oft hvað mér finnist um heimilis- og hönnunartískur en þær trufla mig ekki baun í bala. Ef ég ætlaði að hafa skoðun á öllum heimilum og öllu umhverfi sem á vegi mínum verður, myndi hausinn springa og enginn myndi nokkru sinni vilja bjóða mér heim. Heimili sem láta fólki líða vel eru dásamleg, sama hvort þau sveiflist með tískustraumum eða ekki. Í þessum dæmum mínum hefur verið tekin meðvituð ákvörðun um að kaupa myndir á vegginn og um að finna rétta litanúmerið hjá gráa litnum sem áhrifavaldurinn hefur deilt á netinu. Það er ákveðin natni sem ber að fagna. Þau vilja hafa huggulegt hjá sér og eru meðvitað að vinna í því.

Ég get nefnilega lofað því að við erum öll þrælar tískunnar á einhverjum vettvangi. Ég hef til dæmis engan áhuga á tónlist eða matargerð og myndi nenna að þurfa að kafa ofan í hvorugt viðfangsefnið, ég vel bara playlista með vinsælustu lögunum sem einhver hefur sett saman og ég bý til mat sem ég hef séð hjá áhrifavaldi og virkar einfaldur en um leið bragðgóður. Þannig að ég skil þetta og er ekki síður þræll tískunnar ef þræl skyldi kalla, líka heima fyrir með Bagger-glösin mín og ýmislegt fleira.

EN… ef okkur dreymir um að gera heimilið ögn einstakt og ögra gestunum í matarboðinu þannig að þeir finni að þeir séu ekki heima sér heldur á heimili þínu þá eru hér nokkur ráð:

Notaðu persónuleika þinn og áhugamál í innanhússhönnun

Sértu mikil áhugakona um fluguveiðar, hvernig væri þá að hengja upp þínar fallegustu flugur. Ertu líffræðingur með óbilandi áhuga á geirfuglinum heitnum? Hafðu þá stóra handteiknaða mynd af honum á veggnum (í fallegum ramma, vitaskuld). Elskarðu ferðalög? Skreyttu þá með handgerðu grísku skálunum þínum, tveggja evru Eiffelturninum og styttunni af mustrinu[PS1]  í Kyoto.

Hlutir með sögu

Áttu muni frá ömmu þinni sem þér þótti svo vænt um? Ekki þá fela þá inni í skáp, kannski eru þeir ekki í neinum tískulit en þeir vekja upp hlýjar minningar þegar þú lítur á þá og umræður skapast um þá þegar gestir spyrja út í þá.

Notaðir hlutir

Það er ekki bara sparnaður og umhverfisvænt að kaupa notað heldur er það líka leið til þess að eignast einstaka hluti sem ekki eru til úti í búð og helmingurinn af bænum á. Passaðu þig bara á því að þetta getur orðið árátta og þú getur endað með bílskúrinn fullan af einstökum hlutum (ég tala af reynslu).

List

Það er ekki þannig að bara efnameira fólk hafi efni á því að kaupa list því list er svo margs konar. Það getur verið eftirprentun eða plakat af mynd sem heillaði þig á safni. Það getur verið listaverk eftir ungan listamann sem er að stíga sín fyrstu skref, eða listaverk sem þú ert búin að safna þér fyrir lengi. Það er um að gera að fylgjast með listamörkuðum og viðburðum. Það eina sem skiptir máli hér er að finna eitthvað sem höfðar persónulega til þín og þú tengir við.

Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur. Hún er meðeigandi og stofnandi arkitektastofunnar Stúdíó Jæja og stendur nú í uppgerð á litlu miðborgarhóteli, ásamt því að halda úti instagram reikningnum www.instagram.com/hvasso_heima þar sem hún deilir ýmsu varðandi hönnun, arkitektúr og heimili. 


AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG