Hrekkjavakan tekin alla leið í Bandaríkjunum

Ein af uppáhalds hefðunum mínum hér í Bandaríkjunum er án efa hrekkjavakan. Ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé áttunda haustið okkar búandi á DMV svæðinu (Washington D.C / Maryland / Virginía). Frá því við fluttum hingað held ég mikið upp á október og nóvember með hrekkjavöku og þakkargjörðarhátið. Þetta eru hefðir sem lífga upp á hversdagsleikann með kólnandi veðri og meira skammdegi. 

Með kólnandi veðri þá er það nú samt þannig að enn koma virkilega ljúfir dagar á þessum tíma, vissulega oft kalt á morgnana og stundum næturfrost en hitinn á daginn getur farið upp í 25 gráður. Þessi tími er tilvalin til útivistar þar sem sumrin hér eru mjög rök og oft of heit. Fyrir þá sem vilja ferðast hingað þá mæli ég alltaf með vorinu og haustinu. Svæðið sem við búum á er mjög grænt og gróið sem þýðir að haustlitirnir verða stórkostlegir og hápunkturinn á haustlitunum er einmitt núna í lok október. Við erum lánsöm að búa alveg við þjóðgarð í Maryland, en samt í 25 mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Washington D.C. 

 

Hræðilega skrautið 

Ég hef lært með árunum að það þýðir ekkert að kaupa flott skraut á síðustu stundu hér þar sem búðirnar skipta út vörununum út nokkrum vikum fyrir Hrekkjavökuna og setja upp skraut fyrir Þakkargjörðarhátíðina og í raun jólaskrautið líka! Okkur hefur þó smám saman tekist að safna ýmislegu hræðilegu skrauti og ég tek það oftast fram í byrjun október. En kosturinn við að hafa augun opin fyrir skrauti rétt fyrir Hrekkjavökuna er að það sem er eftir þá er komið á gott útsöluverð og þá gríp ég stundum eitthvað sniðugt. 

Graskerin eru klassískt skraut og hér er upplifun að fara á sveitamarkaðina og velja úr mörgum stærðum og litum. Ég vel oftast eitt grasker til að skera út á hverju ári og krakkarnir/unglingarnir þrír oftast eitt hver. Þetta er skemmtileg handavinna. Verðlaunin er að sjálfsögðu að sjá þau lýsa fallega í myrkrinu. Í ár er ég reyndar löt við að skera út, búið að vera mikið að gera í allskonar verkefnum. Ég ákvað að fara nýja leið sem ég hef ekki prófað áður og það er að búa til mynstur í graskerinu með borvél! Í ár komst ég líka að því að ég hef greinilega verið að hreinsa graskerin á rangan hátt öll þessi ár, ég hef alltaf byrjað á að skera toppinn af og hreinsa innan úr því þannig og svo skera mynstur. En snilldin er að skera botninn úr fyrst og þá er mun auðveldara að hreinsa allt út áður en þið skerið. Kannski vissu þetta allir. Þegar botninn er farinn þá er líka auðveldara að láta batterískerti standa beint á jörðinni og svo graskerið yfir. 

Risa kisi 

Ég bjóst nú ekki við að ég yrði týpan að vera með risastóran uppblásinn kött í garðinum hjá mér en jú ég er orðin sú týpa. Skemmtilegasta við skrautið í garðinum er að það gleður krakkana í hverfinu, þau stoppa við húsið og heilsa upp á kisu og fleiri fígúrur sem þar er að finna. Við kjöftum í raun líka meira við nágrannana á þessum árstíma því fólk sem er á rölti stoppar og úr verður samtal.

Fyrir nokkrum árum heyri ég að yngsti okkar er að tala við konur sem höfðu stoppað til að skoða kisuna og skreytingarnar og taka myndir fyrir barnabörnin sín sem bjuggu í öðru landi. Þegar ég og Tjörvi komum út þá sjáum við að önnur þeirra var æðsti yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary Fund / IMF) þar sem Tjörvi vinnur. Þetta var á tímum Covid og þá var það í fyrsta skiptið sem Tjörvi hitti hana í eigin persónu, þar sem skrifstofur og skólar hér voru lokaðar í eitt og hálft ár. Skemmtileg tilviljun. 

Búningapælingar stór hluti af haustinu

Börnin okkar voru 7, 10 og 14 ára þegar við fluttum til Bandaríkjanna fyrir sjö árum. Þau hafa gaman að búningunum eins og við foreldrarnir, en gera mismikið úr því milli ára eins og gengur. Uppáhaldsbúningurinn sem yngsti var í eitt árið er líklega Freddie Mercury, Fann gallabuxur, hvítan hlírabol og leðurjakka sem hann átti. Keyptum míkrafón, gervi skegg og leðurarmband. Þarf ekki alltaf að vera flókið. Það árið var miðjan okkar veikur en ákvað á síðustu stundu að redda sér og skrifaði “Book” á andlitið þannig úr varð “Facebook”. 

Við hjónin höfum oftast, þegar Tjörvi er ekki að ferðast vegna vinnu, verið í búningum í stíl. En nei við erum ekki í eins íþróttagöllum eða úlpum dagsdaglega. 

Hjónabúningurinn sem ég held mest upp á var þegar ég náði að nýta sem mest af því sem átti nú þegar til og tvista það skemmtilega til: Ég var hræðileg brúður og Tjörvi Drakúla. Ég átti hvít föt sem ég var hætt að nota. Einnig skó sem ég hafði fengið ódýra fyrir mörgum árum og fór aldrei í lengur. Ég keypti slör og gerviblóð á Amazon og sletti “blóðinu” á fötin. Úr varð að mínu mati, skemmtilegur búningur. 

Í ár völdum við hjónin að vera Barbie og Ken. Í raun alveg upplagt þar sem mikið úrval er af þeim búningum vegna kvikmyndarinnar. Næsta skref var að velja hvernig Barbie og Ken við yrðum – og að sjálfsögðu völdum við kántrí Barbie og Ken! Ég legg ekki meira á ykkur. Ég sagði alltaf þegar ég var yngri að ég hlustaði á alla tónlist, nema kántrí!! Já ég hef aldeilis þurft að draga þessi orð til baka eftir að ég flutti hingað þar sem það líður varla dagur núna án þess að ég hlusti á eitthvað kántrí. Áhugasamir geta haft samband og beðið mig um að deila með sér kántrí lagalistanum sem ég útbjó á Spotify. Ég veit að það eru margir “leyni” kántrí aðdáendur þarna úti. Þið þurfið ekkert að skammast ykkar…

Gleðilega hrekkjavöku frá USA til Íslands

Ykkar 

Anna Margrét 

Hægt verður að fylgjast með fleiri hrekkjavöku ævintýrunum á instagram hjá 

Önnu Margréti @annabdottir

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is