ADHD og fjármál

Að fá ADHD-greiningu getur verið ótrúlegur léttir. Að fá loksins svör við því af hverju maður er eins og maður er. En þá tekur líka við nýtt tímabil þar sem maður þarf að læra inn á stýrikerfið sitt og átta sig á hvar það hefur mestu áhrifin á eigið líf. Fyrir marga er langt ferli að finna út úr því hvernig maður getur gert gamla hluti á nýjan hátt sem henta ADHD betur og náð betri árangri.

ADHD hefur oft mjög mikil áhrif á fjármálahegðun okkar án þess að við höfum kannski gert okkur grein fyrir því. Peningar eru okkur lífsnauðsynlegir og því mikilvægt að fylgjast með hvernig við fúnkerum í fjármálaumhverfinu þegar við erum með öðruvísi taugabrautir en meðalmanneskjan.

Stærsti fylgifiskur ADHD er minni náttúruleg framleiðsla á dópamíni og verri nýting á því, en dópamín er boðefni í heila sem framkallar m.a. ánægjutilfinningu og framtakssemi. Það gerir það að verkum að við erum stanslaust að reyna bæta upp fyrir þennan „dópamínskort” í heilanum með því að gera hluti sem veita okkur skammtímaánægju.

Eins og að kaupa okkur hluti. Það eru mikil tengsl á milli ADHD og ýktrar kauphegðunar og þegar við bætum hvatvísinni við, getur þetta orðið erfið blanda til að eiga við. Við erum að skrolla á samfélagsmiðlum, sjáum eitthvað ótrúlega sniðugt sem á að bæta líf okkar og án þess að hugsa okkur tvisvar um, erum við búin að slá inn kreditkortanúmerið. Við íhugum jafnvel ekki hvort þessi vefverslun sé í raun alvöru fyrirtæki og fáum „dópamínkikk“ út úr því að hafa keypt okkur eitthvað og gleymum því svo að við hefðum í raun keypt okkur eitthvað,því sendingin er lengi á leiðinni og dópamínið löngu farið. Þegar við erum með ADHD, eigum við það til að kaupa „eitthvað“ bara til þess að gleðja taugakerfið okkar í smá stund.

En með smá vinnu og meiri meðvitund, er hægt að snúa þessu ferli við og búa sér til heilbrigðari fjárhagsheilsu með nokkrum einföldum leiðum.

Það fyrsta sem ég mæli með því að fólk tileinki sér að þegar það stendur frammi fyrir kaupum á „einhverju“ er að stoppa sig af of spyrja:

„Af hverju langar mig í þetta?“

Og svo í framhaldinu:

„Mun þetta bæta líf mitt til lengri tíma litið?“

Þá stoppum við aðeins af hraðvirku hvatvísina og leyfum okkur að vera meðvituð um hvort þetta sé raunverulega eitthvað sem við þurfum á að halda eða hvort að víð séum að leita okkur að auðfengnu dópamíni.

En það er líka hægt að taka þetta „kaup-dópamín-kikk“ og færa það yfir á jákvæðari fjármálahegðun til þess að framleiða dópamín í tengslum við peninga. Það er algeng og góð leið að nýta sköpunargáfuna sem fylgir oft ADHD-greiningunni og búa til leik úr peningum eða sparnaði. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum, en hægt er að búa til „heimatilbúna“ leiki tengda sparnaði, niðurgreiðslu skulda eða hreinlega daglegum fjármálum.

Að setja sér markmið, t.d. að safna 200.000 krónum inn á sparnaðarbók hljómar ekki endilega vel fyrir einstakling með ADHD, en ef við setjum tilgang á bakvið sparnaðinn – eins og utanlandsferð eða nýtt rúm, þá búum við strax til meiri hvata til að ná markmiðinu. Svo af því að það er oft erfitt að halda athyglinni á langtímamarkmiðum þá bætum við inn „dópamín-innskotum“ á mörgum stöðum á leiðinni að stóra markmiðinu. Þá er teiknaður leikur frábær hvatning; til dæmis að fyrir hverjar 25 þúsund krónur, fáum við að verðlauna okkur, eða við tikkum í eitthvað box í hvert sinn sem við leggjum inn á sparnaðinn. Eða förum í keppni við okkur sjálf um að minnka skyndibita niður í 15 þúsumd á mánuði í stað 20 þúsumd og fáum þá verðlaun í staðinn.

Þannig förum við að búa til betri fjárhagslega heilsu þegar við lærum inn á hvað gæti verið hvetjandi fyrir okkur, búum til tilgang með aðgerðum okkar í stað þess að spara bara til þess að spara.

Það eru ótal margar áskoranir sem fylgja því að vera með ADHD-greiningu. Það getur verið flókið að takast á við fjármálin en við höfum þann frábæra eiginleika að við getum lært allt sem við viljum. Við getum reynt að kveikja áhuga og tilgang fyrir því sem við erum að gera.

Það byrjar allt á meiri meðvitund fyrir því af hverju við gerum það sem við gerum.

-Valdís Hrönn Berg

Valdís er sjálfstætt starfandi fjárhags markþjálfi, viðskiptafræðingur með yfir 10 ára reynslu í rekstri og einnig ÍAK Einkaþjálfari. Hún hjálpar fólki að öðlast yfirsýn yfir fjármálin sín og bæta fjárhagslega heilsu með Lets Talk About Money Baby prógramminu. Allar upplýsingar um þjónustu eru á www.bergcoaching.is

Hún er einnig höfundur námskeiðsins ADHD og Fjármál sem haldið er fyrir ADHD Samtökin og er sjálf með ADHD. Næsta ADHD námskeið er í lok nóvember. Nánari upplýsingar á https://www.adhd.is/is/namskeid/fjarmal_november

Hægt er að fylgjast með daglegu lífi hennar á Spáni ásamt því að fá fróðleik um allskonar heilsubætingu inná opnum instagram reikning: https://www.instagram.com/valdis.hronn.berg/

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is