Markmið eru ákveðinn vegvísir að draumum

Hvernig leggst árið 2024 í þig?

Árið leggst ótrúlega vel í mig og ætla ég að gera árið 2024 að ári sem ég man eftir og það er ekki undir neinum komið nema sjálfri mér. Síðasta ár var mér ákveðin áskorun og hef ég verið að reyna að nota tímann til að horfa inn á við og hvernig ég geti nýtt mér þessar áskoranir til þess að læra og vaxa. Það góða við áskoranir að þeim fylgja oft bæði dýrmætur lærdómur og mikill vöxtur. Það sem stóð upp úr hjá mér á síðasta ári var líka minn helsti lærdómur, að þrátt fyrir að lífið færir manni áskoranir eða maður er að ganga í gegnum erfitt tímabil þá eru alltaf fullt af jákvæðum punktum, minningum og skemmtilegum hlutum að gerast á sama tíma. Maður getur upplifað hamingju og áskoranir á sama tíma. Þess vegna var ótrúlega mikilvægt fyrir mig að gera ákveðið uppgjör eftir síðasta ár því þá sá ég að það var fullt af lærdóm, mikill persónulegur vöxtur og margar skemmtilegar minningar, ferðalög og atburðir sem áttu sér stað.

Hvaða markmið hefur þú sett þér fyrir þetta ár?

Ég hef alla tíð verið mjög markmiðadrifin, en það að hafa markmið eru ákveðinn vegvísir að draumum og því sem manni langar að gera, upplifa, eiga eða verða. Það eru margar leiðir sem hægt er að nota til að setja sér markmið og er ég að nálgast markmiðin mín fyrir þetta ár með aðeins öðrum hætti en ég geri vanalega. Mér finnst stundum of mikið að setja mér markmið fyrir allt árið í einu því áherslur og verkefni geta breyst með litlum fyrirvara. Mér finnst gott að setja mér markmið fyrir tímabil eins og skólaárið er sett upp, vetur – sumar – haust en það er líka hægt að setja það upp eftir ársfjórðungum t.d.

Hvaða tilfinningar vil ég upplifa meira af á árinu? Var spurning sem ég spurði mig í upphafi árs. Hjá mér var það meiri gleði, það felst í mínu tilfelli í leikgleði og að gera fleiri hluti sem mér finnst skemmtilegir og reyna að fækka hlutum sem ég þarf að gera. Þeir hlutir eiga það til að taka yfir tímann mans og þá upplifi ég skort á þessum tilfinningum sem ég vil finna og upplifi meiri streitu og neikvæðar tilfinningar. Þá þarf ég að kortlegga hluti sem mér finnst skemmtilegir og það er t.d. að vera meira úti, búa til ævintýri, hitta vini og fólk sem er nærandi og stunda hobby. Það er ekki nóg að kortleggja þessa hluti heldur þarf maður líka að skapa tíma og rými fyrir þessa hluti í dagskránni sinni svo þeir verði að veruleika. 

Mig langaði líka að sýna mér meira mildi og finna meiri ró. Fyrir mig felst það í því að lækka aðeins kröfur og væntingar sem ég set á sjálfa mig. Það er engin að gera þessa kröfur nema ég sjálf en ég get verið minn harðasti húsbóndi sem eflaust margir kannast við. Til að upplifa það þarf ég að fækka verkefnum, leyfa mér að gera hluti sem næra mig og slaka meira á. Mig langar líka að njóta meira hversdagsleikans og það helst smá í hendur við að vera ekki alltaf með 10 bolta á lofti í einu og geta því verið með börnunum mínum og verið á staðnum en ekki alltaf að ganga frá eða hugsa um það sem ég á eftir að gera. Ég ætla að taka tímann fram á sumar til að hlúa aðeins meira að sjálfri mér og horfa inná við, síðan ætla ég að njóta sumarsins í að skapa ævintýri með fjölskyldu og vinum og svo stefni ég á að taka haustið með smá trukki en það er minn árstími.

Það sem ég hef verið að setja mikinn fókus á síðustu ár og er alltaf að vinna í eru venjurnar mínar og rútína. En eru þær að styðja við markmiðin sem ég vil ná og þeirri manneskju sem ég vil vera? Umhverfið okkar hefur ótrúlega mikil áhrif á okkur og ef umhverfið manns er að draga úr manni og valda streitu en ekki að skapa vellíðan og þjóna manni þá þarf að gera breytingar þar. Mér finnst ég eyða alltof miklum tíma í að taka til og ganga frá enda með þrjú börn og upplifi eins og þetta sé verkefni sem er nánast ósigrandi. Ég er þess vegna að taka þriðja snúning á heimilinu núna í að henda eins miklu og ég get og fækka fötum þannig það sé ekki svona mikill þvottur og það sé ekki hægt að drasla svona mikið til og að hver hlutur á heimilinu eigi sér stað eða “heimili”. Það veitir mér líka bæði innblástur og ró, sem var tilfinning sem ég vildi upplifa oftar á þessu ári að lesa og er ég því núna að setja inn þá venju að byrja daginn á því að lesa alltaf einn kafla í bókinni sem ég er að lesa hverju sinni. 

Það að skrifa niður markmiðin sín er ótrúlega öflugt tól og fannst mér einstaklega skemmtilegt að sjá viðtal við Laufey tónlistakonu sem hlaut Grammy verðlaun í fyrradag, en hún skrifaði niður drauminn sinn um að verða tónlistakona í dagbókin sína árið 2019. Það eru til óteljandi svona sögur en það gerist eitthvað magnað við það að skrifa drauma og markmið niður.

Hvað gerir þú til að efla þig og aðrar konur?

Til að efla mig finnst mér nauðsynlegt að sækja innblástur í annað fólk sem er að gera svipaða eða áhugaverða hluti, vera alltaf að læra eitthvað nýtt hvort sem það er í gegnum aðra sem búa yfir einhverri þekkingu, bækur, hlaðvörp, nám, námskeið eða bara grúsk á internetinu. Ég held þó að umkringja mig af góðu fólki sem styður mig í því sem ég er að gera sé mín mesta efling. Ég er ótrúlega lánsöm að eiga mikið af frábæru fólki í kringum mig og að vera partur af sterku stuðnings- og tengslaneti kvenna er mér ómetanlegt.

Það er fátt sem gefur mér meira en að styðja við aðrar konur og reyni ég að gera það eins mikið og ég mögulega get. Ég elska þegar konur í kringum mig ná árangri og samgleðst ég þeim alltaf innilega. Ég hef alltaf haft svo óbilandi trú á öðrum konum og reyni eftir fremsta megni að hvetja konur í kringum mig að nýta kraftinn sinn í að vaxa, láta drauma, hugmyndir og verkefni verða að veruleika og vera síðan pepparinn á hliðarlínunni. Ef ég get síðan hjálpað eitthvað eða stutt í þeirri vegferð þá held ég að allar mínar konur viti að ég er alltaf bara „phonecall away“.

Ég hvet líka aðrar konur sem upplifa að þeim langi að bæta fleiri eflandi konum í sitt net að vera óhræddar við að finna þær og tengjast þeim. Ég hef stundum grínast með það að ég safni snillingum, en það er í raun staðan. Ef það er einhver kona sem veitir mér innblástur eða mig langar til að kynnast þá hef ég oft bara komið mér í samband við viðkomandi. Þannig hef ég eignast margar af mínum vinkonum í dag.

Hvaða ráð vilt þú gefa öðrum konum?

Svona heilt yfir reyni ég að spara ráðin, eða amk óumbeðin ráð því þau skila yfirleitt ekki miklum árangri og svo felst ákveðin ábyrgð í því að gefa ráð. En það að spyrja spurninga sem leiða viðkomandi í átt að rétta svarinu fyrir viðkomandi er mun árangursríkari aðferð að mínu mati. En ef það eru einhverjir þættir sem hafa gagnast mér og ég tel að gæti gagnast öðrum þá væri það að:

 1. Að velja vel fólkið sitt vel – það er engin sem á fast sæti í þínu lífi út af einhverjum ytri ástæðum eins og fjölskyldutengslum eða gamalli vináttu. Það að velja sér fólk sem maður ver tíma sínum með, nærir mann og eflir, er með manni í liði og vil hafa í kringum sig hefur stórkostleg áhrif á lífið. 
 2. Velgengni annara er ekki á þinn kostnað – Það að samgleðjast öðrum og fagna velgengni eða afrekum annara hefur ekkert með þig að gera. Þess vegna er um að gera að samgleðjast og fagna því frekar en að öfunda eða tala það niður. Notaðu það frekar sem innblástur og vegvísi til að skapa það sjálf.
 3. Ekki tala aðrar konur niður – Það er ekki hjá því komist að maður myndi sér skoðanir um fólk eða gjörðir þeirra, en að eyða tíma í að tala aðrar konur niður er bæði niðurdrepandi og tímasóun og segir mikið til um innri mann. Leyfum okkur að vera allskonar, við erum allar að ganga í gegnum allskonar hluti og tímabil og það er það fallega við lífið. 
 4. Vertu þú sjálf – Það er ekkert betra en að lifi lífi sínu í samræmi við þá manneskju sem þú virkilega ert. Til þess þarftu að reyna að losa þig eftir fremsta megni við að láta álit annara hafa áhrif á þig. Fólk hefur alltaf skoðanir hvernig sem þú ákveður að vera svo það er alltaf betra að vera maður sjálfur. Ég veit fátt fallegra en að sjá fólk sem þorir að vera það sjálft og lifir í samræmi við sín eigin gildi.
 5. Það er aldrei of seint – að gera það sem þig langar og láta draumana þína verða að veruleika. Það að elta ekki draumana sína eykur líkur á eftirsjá og vonbriðgum. Lykillinn er að hafa trú á sjálfri þér, leyfa ekki takmarkandi hugsunum að ráða för og vera ekki alltaf að bíða eftir rétta tækifærinu, rétta tækifærið þarf að skapa og það er núna!

Bók/bækur sem breyttu lífi þínu?

Ég hef ótrúlega gaman að því að lesa bækur, hlusta á hlaðvörp og að fræðast almennt og finnst mér það nauðsynlegur partur í því að þróast og vaxa. Mér finnst erfitt að telja upp bækur sem hafa breytt lífi mínu því þá gæti ég verið að sniðganga góðar bækur sem ég myndi að öllu jöfnu mæla með að lesa. Ég les alltof lítið af skáldsögum og vel ég mér nánast undantekningarlaust að lesa svokallaðar sjálfshjálparbækur, eða sjálfseflingarbækur eins og ég vil frekar kalla þær. Mér finnst reyndar líka svakalega gaman að lesa ævisögur eða bækur um fólk sem hefur lifað áhugaverðu lífi eða afrekað eitthvað áhugavert. Ég ætla að takmarka mig við 5 bækur.

 1. Lína Langsokkur – er kannski eina bókin / myndin sem ég myndi segja að hafi haft áhrif á mig frá barnæsku. Lína hefur alltaf verið ein af mínum helstu fyrirmyndum. Lína er sjálfstæð, öðruvísi og fer sínar eigin leiðir. Hún trúir að hún geti allt og svo er raunin ef við leyfum ekki takmarkandi hugarfari, lærðri hegðun og ramma samfélagsins að hafa of mikil áhrif á okkur. Ég vil vera eins og Lína.
 2. Atomic habits – Kortleggur vel hversu mikil áhrif venjur hafa á líf okkar. Þær í raun skilgreina hver við erum og hafa gríðarleg áhrif á heilsu, afrakstur, hugarfar og í raun allt sem skiptir máli. 
 3. Brene Brown – Ég er búin að lesa nokkrar bækur eftir hana og finnst hún algjörlega mögnuð og hennar boðskapur eitthvað sem allir ættu að reyna að tileinka sér. Ætla ekki að mæla endilega með einhverri ákveðinni bók en ef þú þekkir hana ekki myndi ég horfa á Ted fyrirlesturinn hennar eða horfa á þáttinn hennar á Netflix. 
 4. Opsticle is the way – Ryan Holiday er bók sem ég er að klára núna og fær mann til þess að sjá vandamál og hindranir með öðrum augum. Viðhorf er val og eitt sterkasta vald við höfum. Hvernig við tökumst á við áskoranir er stór partur af því.
 5. The choice: A true story of hope – Dr. Edith Eva Eger er ótrúleg ævisaga um konu sem lifði af útrýmingarbúðir Auschwitz á ótrúlegan hátt og hvernig val um viðhorf og hvað vonin eru sterk tól. Hún er doktor í sálfræði og hefur helgað lífi sínu í málefnið.

Ef þú ert ennþá að lesa þessa langloku þá vil ég þakka þér fyrir lesturinn og vonandi hafi hann veitt þér einhvern innblástur. Mér finnst viðeigandi að leyfa vísu sem ég samdi fyrir afmælið mitt í sumar að fylgja en hún dregur saman það mikilvægasta 🙂

Það er engin morgundeginum búin að lofa
mundu það alltaf þegar þú ferð að sofa
Kannski er það klysja en eg fann mig knúna
að minna þig á að lífið er núna
eltu draumana og elskaðu heitar
hlustaðu á hjartað og hvert það leitar
Segðu alltaf það sem þú meinar
áður en það verður orðið um seinan
Vertu ávallt sjálfri þér trú
því það ekkert betra en að vera ÞÚ!

Þóra Hrund er eigandi Brands og annar eigandi MUNUM. Hún sinnir eigin verkefnum, ráðgjöf, stefnumótun, verkefna- og viðburðastjórnun, upplifunarhönnun og markaðsráðgjöf. Eins heldur hún með fyrirlestra og vinnustofur fyrir fyrirtæki og hópa ásamt því að mark- og teymisþjálfa. Þóra Hrund vinnur nú að útgáfu bókarinnar Fjölskyldan mín ehf. sem fjallar um það hvernig hægt sé að reka fjölskyldur meira eins og fyrirtæki, með það markmið að minnka streitu, samviskubit og kaós og auka árangur, jafnvægi og hamingju með einfaldara og skilvirkara heimilishaldi. 

Thorahrund.com | fjolskyldanmin.is | munum.is

Instagram: @torahrund | @fjolskyldanmin.ehf | @munum 

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG