Bætt kvenheilsa með lækningajurtum

Konur nú til dags hafa fjölmörg verkefni á sinni könnu og eru oft á tíðum undir miklu álagi og með marga bolta á lofti en hormónakerfi kvenna er ákaflega næmt fyrir síbreytilegu áreiti, streitu og öðrum umhverfisþáttum. Því er mikilvægt fyrir konur að huga að sinni persónulegu heilsu og vellíðan og setja eigin heilsu í forgang. Þættir eins og heilsusamlegt mataræði, regluleg hreyfing, góður svefn, slökun og hvíld sem eru grunnstoðir góðrar heilsu stuðla að góðu jafnvægi okkar andlega og líkamlega til að takast á við áskoranir og verkefni í daglegu lífi.

Í starfi mínu sem grasalæknir síðustu tvo áratugi hef ég tekið á móti þúsundum kvenna og aðstoðað þær í að bæta heilsufar sitt og hef orðið þess margoft vitni hversu kröftug áhrif lækningajurtir geta haft á heilsu okkar kvenna. Notkun jurtalyfja er vannýtt meðferð þegar kemur að hormónajafnvægi en notkun þeirra getur reynst gagnlegur stuðningur samhliða heilsusamlegu mataræði og heilbrigðum lífsvenjum. Í sumum tilfellum geta konur ekki notað hefðbundna hormónauppbótarmeðferð sökum fyrri sjúkrasögu og fyrir slík tilfelli væri gagnlegt að íhuga jurtameðferð sem valkost. Ef einkennin eru væg þá getur jurtameðferð gagnast í upphafi sem fyrsta skref í einhvern tíma áður en konur þurfa á hormónauppbótarmeðferð að halda. Það ber þó að hafa í huga að í sumum tilfellum er jurtameðferð og lífsstílsbreytingar ekki fullnægjandi þegar um mikinn hormónaskort/þurrð er að ræða og mikilvægt að skoða önnur úrræði eins og hormónauppbótarmeðferð þegar þess er þörf.

Einkenni vegna hormónajafnvægi s.s. hita/svitakóf, svefnleysi, þreyta, heilaþoka, liðverkir, meltingarvandamál, kvíði, depurð og breytingar á þyngd er meginástæða þess að konur leita til mín í ráðgjöf. Mér varð það ljóst á mínum fyrstu árum í starfi hversu mikilvægt gott hormónajafnvægi er konum fyrir hamingusamt og heilsuríkt líf. Að vera með nægt magn af kynhormónum og jafnvægi milli estrógens, prógesteróns og testósteróns dregur úr ýmsum hvimleiðum einkennum sem fylgja hormónaskorti og getur þannig aukið lífsgæði okkar til muna. Einnig er góður hormónabúskapur mikilvægur í því að fyrirbyggja og verndandi gegn ýmsum sjúkdómum seinna á lífsleiðinni s.s. beinþynningu og hjarta- og æðasjúkdómum. Hormónar bera mikilvæg skilaboð um líkamann og eru hvatar fyrir mörg lífsnauðsynleg efnaferli í líkamanum. Hormónar eru grunnurinn í innkirtakerfinu okkar og hafa lykilhlutverk í að m.a. stjórna vexti, æxlun, efnaskiptum, skapi og hitastigi. Hormónajafnvægi er þess vegna mikilvægt því ef við höfum of mikið eða of lítið af tilteknu hormóni getur það haft truflandi/hamlandi áhrif á tiltekna líffærastarfssemi, sem getur m.a. leitt af sér aukna bólgumyndun, innkirtasjúkdóma og aðra tengda kvilla. Hormónar okkar hafa náttúrulegar sveiflur á ákveðnum lífsskeiðum þ.á.m. kynþroskaskeiði, meðgöngu, tíðahringnum og á breytingaskeiði.

Förum aðeins yfir af hverju jurtir geta verið áhrifaríkar og hvernig jurtameðferð getur reynst mikilvægur þáttur sem hluti af heildrænni nálgun fyrir kvenheilsu. Grasalækningar hafa verið notaðar af mörgum þjóðum heims frá örófi alda og sífellt koma fram fleiri rannsóknir sem staðfesta virkni þeirra. Stór hluti mannkyns hefur notað jurtir bæði sem fæðu og lyf í aldanna rás og er uppruni margra lyfja komin frá jurtum. Jurtir innihalda fjölmörg lífvirk efni sem hafa víðtæk heilsueflandi áhrif á líkamann og geta reynst okkur gagnleg heilsubót sem fyrirbyggjandi og til að styðja við hin ýmsu líffærakerfi. Það fyrirfinnast margar kröftugar jurtir sem geta hjálpað konum og hér eru dæmi um nokkrar jurtir sem eru gjarnan notaðar til þess að stuðla að hormónajafnvægi. Taka ber fram að það er mikilvægt að ráðfæra sig við fagaðila eða lækni ef viðkomandi hyggst taka jurtalyf samhliða lyfjum til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar milliverkanir og frábendingar.

.

Maca (Lepidium meyenii) er jurt sem hefur lengi verið notuð sem fæða og lyf í Perú þar sem hún vex. Þó svo að rannsóknir á maca rótinni séu enn á byrjunarstigi hefur þessi jurt nýverið fengið mikla athygli. Rannsóknir benda til þess að maca rótin sé gagnleg til þess að auka kynhvöt, sem getur oft verið afleiðing hormónaójafnvægis. Einnig sýna rannsóknir að maca rótin er áhrifarík í að draga úr einkennum breytingaskeiðs s.s. hitakófum og svefnvanda ásamt því að geta stuðlað að bættu skapi og aukinni orku (1).

Burnirót (Rhodiola rosea) tilheyrir flokki jurta sem nefnast aðlögunarjurtir (e.adaptogens) en þess konar jurtir eru taldar auka mótstöðu okkar gegn streitu, auka orku og einbeitingu, líkamlegt úthald og frammistöðu með því að hafa áhrif á HPA öxulinn (2). Aðlögunarjurtir geta verið gagnlegar á breytingaskeiði til að hjálpa líkamanum að dempa/aðlaga streituviðbragð undir álagi og auka þar með streituþol okkar. Burnirótin inniheldur fjölda lífvirkra efna og hafa rannsóknir á burnirótinni sýnt að hún geti verið áhrifarík gegn streitu og þróttleysi ásamt því að auka einbeitingu og úthald (3).

Shatavari (Asparagus racemosus) er jurt sem hefur lengi verið notuð fyrir kvenheilsu og þá sérstaklega fyrir konur á breytingaskeiði en hún er talin bæta geð, vöðvastyrk og þurrk (í húð og leggöngum). Shatavari hefur jurtaestrógenísk áhrif og inniheldur virk efni sem bindast alpha-estrógen móttökum. Nýleg rannsókn á konum á breytingskeiði sýndi fram á aukinn gripstyrk eftir sex vikna inntöku á Shatavari jurtinni (4).

Ashwagandha (Withania somnifera) er algeng lækningajurt í ayurvedískum lækningum, gjarnan nefnd hið indverska ginseng og hefur verið notuð í þúsundir ára sem áhrifamikil meðferð við hormónavandamálum. Það eru til rannsóknir sem sýna fram á jákvæð áhrif á starfssemi skjaldkirtils og sýndi rannsókn frá 2018 að ashwagandha gæti mögulega gagnast þeim sem eru með undirklínískan vanvirkan skjaldkirtil (e.subclinical hypothyroidism) (5). Ashwagandha getur einnig hjálpað við að lækka streituhormónið kortisól ásamt því að styðja við taugakerfi og getur jafnvel haft jákvæð áhrif á kvíða og væga depurð. Ashwagandha er talin auka testósterón sem kom t.a.m. fram í rannsókn sem framkvæmd var á miðaldra karlmönnum en frekari rannsókna er þó þörf til þess að staðfesta þessi sömu áhrif hjá konum (6).

Munkapipar (Vitex agnus-castus) eru ber sem innihalda diterpenoid efnasambönd sem geta haft möguleg áhrif á taugaboðefnið dopamín. Rannsóknir hafa sýnt að munkapipar getur lækkað hormónið prólaktín en hátt magn prólaktíns hefur verið tengt fyrirtíðaspennu. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að eiginleikar munkapipars geta líkt eftir áhrifum prógesteróns, sem getur hjálpað til við að slá á einkenni breytingaskeiðs (7).

Rauðsmári (Trifolium pratense) og sojabaunir (Glycine max) eru hluti af belgjurtaætt og innihalda ísóflavón efnasambönd sem hafa estrógenlíka eiginleika en þau geta líkt eftir áhrifum estrógens í líkamanum og þannig hjálpað líkamanum að viðhalda viðeigandi estrógenmagni (8). Þá hafa verið gerðar rannsóknir á sojabaunum sem styðja áhrif þeirra á hormónakerfi, blóðsykursstjórnun, húðheilsu og beinastyrk (9).

Af þessu má sjá að jurtir geta verið góð leið til þess að stuðla að almennu hormónajafnvægi en heilbrigður lífsstíll er þó alltaf mikilvægasti áhrifaþátturinn til þess að halda hormónakerfi og heilsunni í sem bestu jafnvægi. Góð næring með áherslu á fæðutegundir úr jurtaríkinu og gott jafnvægi af próteinum, flóknum kolvetnum/trefjum og góðum fitugjöfum er það sem líkami okkar þarfnast fyrir góða heilsu. Að sama skapi er mikilvægt að takmarka magn sykurs og gjörunnina matvæla sem getur haft hormónaraskandi áhrif ef þessara fæðutegunda er neytt í of miklu magni. Reguleg hreyfing getur stuðlað að hormónajafnvægi, minnkað streitu, hjálpað til við að stjórna matarlyst og stuðlað að jöfnum blóðsykri. Streituminnkandi athafnir eins og jóga, slökun, útivera og hugleiðsla geta verið gagnleg leið til þess að halda streitu og álagi í skefjum. Góður svefn er gulli betri og getur skortur á svefni haft mikil áhrif á hormónajafnvægi. Því er mikilvægt að huga að góðum svefnvenjum. Með því að huga að þessum lífsstílsþáttum og nota styrkjandi jurtir samhliða er hægt að vinna að bættu hormónajafnvægi á heildrænan hátt.Top of FormBottom of Form

Ásdís Ragna Einarsdóttir
Grasalæknir BSc og lýðheilsufræðingur MPH

Ásdís Ragna Einarsdóttir útskrifaðist með BSc í grasalækningum frá University of East London árið 2005 og hefur rekið eigin viðtalsstofu um árabil þar sem þúsundir einstaklinga hafa leitað til hennar í ráðgjöf í gegnum árin. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeið um land allt bæði fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki. Ásdís er meðlimur í fagfélagi grasalækna, National Institute of Medical Herbalists, Institute of Functional Medicine og Félagi lýðheilsufræðinga. Ásdís leggur áherslu á að efla og hvetja einstaklinginn til jákvæðra lífsstílsbreytinga með því að stuðla að heilbrigðari lífsvenjum. Áhugasvið hennar liggur í heildrænni nálgun á heilsu og heilsueflingu en Ásdís lauk nýverið meistaranámi í lýðheilsuvísindum MPH við Háskóla Íslands. Ásdís hefur reglulega sótt endurmenntun erlendis á sviði heildrænna og fyrirbyggjandi lækninga m.a. hjá Institute for Functional Medicine, Personalized Lifestyle Medicine Institute og hjá Nordic Clinic, með áherslu á einstaklingsmiðuð og lífsstílstengd meðferðarúrræði.

www.instagram.com/asdisgrasa
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.grasalaeknir.is

Heimildir

1. Meissner HO, Kapczynski W, Mscisz A, Lutomski J. Use of gelatinized maca (lepidium peruvianum) in early postmenopausal women. Int J Biomed Sci. 2005 Jun;1(1):33-45. PMID: 23674952; PMCID: PMC3614576.

2. Panossian, A., & Wagner, H. (2005). Stimulating effect of adaptogens: an overview with particular reference to their efficacy following single dose administration. Phytotherapy research : PTR19(10), 819–838. https://doi.org/10.1002/ptr.1751

3. Gerbarg, P. L., & Brown, R. P. (2016). Pause menopause with Rhodiola rosea, a natural selective estrogen receptor modulator. Phytomedicine : international journal of phytotherapy and phytopharmacology23(7), 763–769. https://doi.org/10.1016/j.phymed.2015.11.013

4. O’Leary MF, Jackman SR, Sabou VR, Campbell MI, Tang JCY, Dutton J, Bowtell JL. Shatavari Supplementation in Postmenopausal Women Improves Handgrip Strength and Increases Vastus lateralis Myosin Regulatory Light Chain Phosphorylation but Does Not Alter Markers of Bone Turnover. Nutrients. 2021 Nov 27;13(12):4282. doi: 10.3390/nu13124282. PMID: 34959836; PMCID: PMC8708006.

Sharma, K., & Bhatnagar, M. (2010). Asparagus racemosus (Shatavari): a versatile female tonic. health3(4), 5-6.

5.Lopresti, A. L., Drummond, P. D., & Smith, S. J. (2019). A Randomized, Double-Blind, Placebo-Controlled, Crossover Study Examining the Hormonal and Vitality Effects of Ashwagandha ( Withania somnifera) in Aging, Overweight Males. American journal of men’s health13(2), 1557988319835985. https://doi.org/10.1177/1557988319835985

6. Sharma, A. K., Basu, I., & Singh, S. (2018). Efficacy and Safety of Ashwagandha Root Extract in Subclinical Hypothyroid Patients: A Double-Blind, Randomized Placebo-Controlled Trial. Journal of alternative and complementary medicine (New York, N.Y.)24(3), 243–248. https://doi.org/10.1089/acm.2017.0183

7. van Die, M. D., Burger, H. G., Teede, H. J., & Bone, K. M. (2013). Vitex agnus-castus extracts for female reproductive disorders: a systematic review of clinical trials. Planta medica79(7), 562–575. https://doi.org/10.1055/s-0032-1327831

8. Chen, M. N., Lin, C. C., & Liu, C. F. (2015). Efficacy of phytoestrogens for menopausal symptoms: a meta-analysis and systematic review. Climacteric : the journal of the International Menopause Society18(2), 260–269. https://doi.org/10.3109/13697137.2014.966241

9. Chen LR, Chen KH. Utilization of Isoflavones in Soybeans for Women with Menopausal Syndrome: An Overview. Int J Mol Sci. 2021 Mar 22;22(6):3212. doi: 10.3390/ijms22063212. PMID: 33809928; PMCID: PMC8004126.

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG