Hvet konur til að leyfa sér að eiga áhugamál

Hvernig myndir þú lýsa þér?
Fróðleiksfús móðir sem er drífandi sís kona sem er óhrædd við að skapa sig og endurskapa.

Getur þú lýst því sem þú ert að gera í dag og hvaða hlutverki það gegnir?
Sem framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA er ég að vinna með og fyrir félagskonur og í þjónustu við atvinnulífið. Það er gjarnan bakslag og stöðnun er kemur að tækifærum ólíkra hópa að nýta sér jafnréttið og því er félag eins og FKA afar mikilvægt. Við höndlum með sýnileika og tengslaneti fyrir konur og höfum áhrif á samfélagsumræðuna með alls konar hreyfiaflsverkefnum hjá FKA til að tækla séríslenska útgáfu af mjög algengu vandamáli sem misréttið er.

Settir þú þér markmið fyrir árið 2024?
Nei ég er voða lítið í því og er meira í flæði heilt á litið en tek excel skipulag á heilmargt og þá tímabundna spretti í vinnunni og einkalífi. Ég geri til dæmis lista þegar ég ferðast yfir það sem ég ætla að sjá, gera og upplifa. Skipulegg daga, helgar og vikur til að láta hlutina gerast og er mjög ströng við mig en það er vegna þess að mér þykir svo gaman að uppskera í lífinu. Þegar þú veist í hjarta þér að þú gerðir þitt besta og það hafi verið nóg og virkað er einstök gleði tilfinning. Oft er nóg að gera sitt allra besta og það er voða gaman og auðvitað skellur að ná ekki markmiðum sínum og fá ekki nákvæmlega það sem þú vilt en þá kemur þakklætið sterkt inn. Þakklæti fyrir það sem sannarlega hægt er að grenja úr gleði með eins og að eiga fólkið mitt, heimili, rennandi vatn og búa í friði, vera með öll vitin til að sækja í og þannig má lengi telja. Ég er nefnilega forréttindapía þó svo að lífið sökki á löngum köflum. Auðvitað er mjög leiðinlegt þegar það er leiðinlegt en það sagði enginn að þetta líf ætti að vera auðvelt.

Andrea heilsar uppá Frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseti Íslands og fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta heims og Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands á viðburði Viðskiptafræðideildar HÍ um misvægi kynja í stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi þar sem Andrea stýrði fundinum. // Ljósmynd: Eyþór Árnason

Ef þú ættir að lýsa einum vinnudegi hvernig myndi hann líta út?
Vakna hress, elska sérstaklega mánudaga, er með lista yfir tuttugu atriði sem ég ætla að gera en áður en ég veit af er dagurinn fokinn og ég fer með æruleysisbænina því ég náði engan veginn að klára það sem ég ætlaði. Vinn þá frameftir sem er lítið mál því það er 80% gaman í starfinu sem ég sinni því það er fjölbreytt með fullt af áskorunum.

Andrea með Ástu Sigríði Fjeldsted, forstjóra Festi þegar kvenforstjórar félaga í Kauphöllinni hringdu bjöllu í húsnæði Kauphallarinnar fyrir jafnrétti kynjanna í tilefni af Alþjóðadegi kvenna 2023.

Þinn stærsti sigur?
Að eignast drengina mína, sigrast á lesblindu og hætta að vera draugahrædd svo eitthvað sé nefnt.

Hverjar eru helstu áskoranir þínar í dag?
Að sofa nægilega mikið til að fíla lífið. Það verður allt betra þegar þú ert út hvíld en ég á það til að vaka fram eftir.

Hver er framtíðarsýn þín?
Það fer eftir dagsforminu, mjög oft bjartsýn með fulla trú á því sem koma skal en aðra daga er ég með kúk í bandi, svartsýn á heimsmálin og þróun mála er kemur að öryggi, mannréttindum, sjálfbærni og umhverfismálum. Fyrir mig persónulega þá er það heilsan sem ég er með fókusinn á, að fara vel með þennan fæðingargalla og láta hann endast sem best til að geta notið sem lengst, verið til staðar og verið sjálfbjarga.

„Ég er oftast bakvið tjöldin í mínum störfum og líður mjög vel þar, láta allt rúlla og horfa á fólk springa út,“ segir Andrea sem hér er að taka ljósmyndir á einum af glæsilegum rástefnum FKA. // Ljósmynd: Silla

Spakmæli (quote) sem veita þér innblástur?
„You do you“ er setning sem ég segi oft við sjálfa mig en líka aðra og setning sem minnir á að fjölbreytileikinn rokkar. Ég hef verið að vinna með þessa setningu þegar ég þarf að standa með sjálfri mér og minnka líkur á að verða bitur og í eftirsjá í lífinu. Mér persónulega finnst nóg að verða gömul og nenni ekki að vera gömul og bitur. Vona ég að öll þarna úti láti drauma sína rætast, óttist ekki mistök og láti til sín taka, setji sér mörk og taki stökkið.

Bækur/hlaðvörp sem hafa haft jákvæð áhrif á þig og þitt líf?
Ég hlusta mikið á hlaðvarp og íslenska þáttargerð í útvarpi og ekkert eitt sem stendur uppúr. Tónlist er síðan algjört meðal og getur sannarlega lyft andanum og gott lag gerir, þennan undarlega bæ sem plánetan er, miklu betri.

Kona/konur sem þú lítur upp til?
Það eru svo margar sem hafa rutt brautina og þeim er ég þakklát.

Byggða á þinni reynslu hvaða ráð myndir þú vilja gefa öðrum konum?
Það er mjög erfitt að læra af mistökum annarra og því er lítið hægt að gefa ráð, lífið þarf að frussast framaní okkur hvert og eitt. Það er samt mjög gott ráð að tala við sig og um sig eins og bestu vinkonu sína lífið á enda.

„Ég næri mig á marga vegu en útivera, tónlist og myndlist sem og samvera með mínum nánustu gefur mér mest,“ segir Andrea sem er hér að hlaða batteríin á fjöllum og í skógarbaði.

Annað að lokum?
Hvet konur til að leyfa sér að eiga áhugamál, setja sig á dagskrá og fjárfesta í sér. Þá er mikilvægt að vera fjárhagslega sjálfstæðar og vinna að því að geta staðið á eigin fótum í enda dags.


– Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA.

Með víðtæka og yfirgripsmikla reynslu á sviði stjórnunar og breytingastjórnunar, með MS gráðu, BA gráðu MA-diplómu frá Háskóla Íslands. Andrea býr yfir margþættri reynslu úr fjölmiðlum sem fréttakona, dagskrárgerðarkona og af blaðaútgáfu. Hún hefur einnig reynslu af stjórnarsetu, hefur búið og starfað erlendis en einnig hefur hún ferðast mikið og telur sig þannig hafa öðlast mikilvægt menningarlæsi. Ein með bakpoka ferðaðist hún t.d. um Asíu í nokkra mánuði eftir að hafa selt bílinn, íbúðina og Forlagið gaf út ferðasöguna við heimkomuna. Áhugamálin eru útivist, tónlist, myndlist, safnaheimsóknir heima og erlendis, umhverfismál og samvera með vinum og fjölskyldu. Andrea hefur farið vinsælar gönguleiðir hérlendis og erlendis. „Ég næri mig á marga vegu en útivera, tónlist og myndlist sem og samvera með mínum nánustu gefur mér mest.“

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG