Ár góðmennskunnar

Nýtt ár er handan við hornið og því fylgja gjarnan áramótaheit og/eða einhverskonar tiltekt í lífinu. Síðustu ár hef ég strengt áramótaheit sem ég tel að efli mig, þroski mig, geri mig að heilsteyptari einstaklingi og hjálpi mér að stækka sem manneskju. Megin markmiðið er að ég geti litið til baka og horft á mína vegferð með stolti. Fyrir mér er það að lifa. Við getum haldið áfram að læra út ævina og það þykir mér svo miklu meira spennandi en að vera föst innan ákveðins ramma þar til ævi minni lýkur.

Þessi vetur hefur verið einstaklega dimmur. Ég hef lært ótrúlega margt og á sama tíma þurft að hafa fyrir því að sigta í gegnum upplýsingar sem eru mis-áreiðanlegar. Ég hef þurft að sitja á skoðunum mínum og hlusta á skoðanir annarra til að geta búið mér til heilsteyptari mynd. Ég hef á stundum þurft að taka hlé frá öllu upplýsingaflæði til að hlúa að sjálfri mér og öðrum, án þess þó að stinga höfðinu í sandinn.

Ég er ekki ein af þeim sem trúir að heimurinn sé jafn ljótur og hann er fallegur. Heimurinn er hræðilegur staður. Ég held að heilt yfir taki hörmungin og hryllingurinn meira pláss en hamingjan og fegurðin. Ég veit að mitt umhverfi tilheyrir fallega hlutanum og fyrir það get ég ekki verið nógu þakklát. Það er einmitt þetta þakklæti sem krefur mig til þess að líta ekki undan þegar ljótu hlutirnir birtast. Stundum tekst mér að gera stóra hluti. Stundum litla. Stundum enga. En ég reyni.

Ég veit ekki hvað er best að gera til þess að allur heimurinn verði fallegur. Ég veit bara hvað ég þarf að gera í mínu nánasta umhverfi og það er að minnka þjáningu í kringum mig eftir fremsta megni.

Mitt helsta framlag er að gera mitt besta til að meiða ekki aðra. Ég reyni að versla ekki vörur sem framleiddar eru með nútíma þrælahaldi, takmarka almenna neyslu, fara eftir leiðbeiningum um endurvinnslu (þó að þær séu stundum tilgangslausar) og að endurnýta allt sem ég get. Það sem er mér þó mikilvægast er að beita mér gegn pyntingum og drápum á dýrum. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um manndýr.

Að tala um veganisma stuðar marga. Ég biðla til þín kæri lesandi að fara ekki í vörn og halda aðeins áfram að lesa. Mögulega talar eitthvað hérna til þín.

Veganismi snýst um heildræna skaðaminnnkun. Tilgangurinn er að minnka þjáningu dýra eins og hægt er og valda sem minnstum skaða á eigin heilsu og umhverfi. Ég held að flest teljum við okkur “dýravini”. En við búum til afsakanir og ástæður fyrir því af hverju við leyfum ofbeldi gegn dýrum að viðgangast. Ég skil það. Ég bjó til allskonar afsakanir líka, og ég geri það stundum enn í dag varðandi aðra hluti eins og plastnotkun (sem er umræða fyrir annan pistil). Afsakanir einfalda mér lífið en stríða gegn gildum mínum og fyrir vikið finnst mér ég vera örlítið ómerkilegri manneskja en ég veit að ég get verið. Að vera góð við vini okkar dýrin gerir heiminn örlítið minna hræðilegan, og jafnvel örlítið meira fallegan.

Þessi vetur hefur á sínum verstu stundum lamað mig af sorg, ótta og vonleysi. Ég veit að ég er ekki ein um þessar tilfinningar og því vil ég minna þig, kæri lesandi, og sjálfa mig, á að við erum ekki vanmáttug. Með því að stíga viss skref getum við verið virkir þátttakendur í framvindu sögunnar. Hver afleiðing þeirra skrefa verður er undir hverju og einu okkar komið.

Eitt skref væri til dæmis að minnka neyslu okkar á vörum sem valda þjáningu. Skrefin krefjast ekki fullkomunar, bara kjarks til að stíga það næsta. Ekki stíga inn í nýtt ár með það markmið að vera sama manneskja og í fyrra. Ekki festast í sporunum. Ef áramótaheit höfða ekki til þín geturðu auðvitað tekið ákvörðun strax í dag.

Fyrsta janúar hefst Veganúar. Þetta er auðveldasti mánuður ársins til að taka eitt fallegt skref. Við þurfum ekki að gera allt eða ekkert. Við þurfum bara að gera eitthvað. Mín nýársvon er að við ákveðum sem allra flest að gera betur en í fyrra og stíga inn í aðeins fallegri framtíð.

– Aldís Amah Hamilton

Höfundur er í stjórn Samtaka Grænkera á Íslandi. Tilgangur samtakanna er að standa vörð um velferð og réttindi dýra sem og hagsmuni grænkera. Allt starf samtakanna er unnið í sjálfboðavinnu.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is