Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar

Hvað varð til þess að þú skrifaðir og gafst út bók um einmanaleika?
Þegar ég hugsa um það hvernig það kom til að ég fór að skrifa bók um einmanaleika þá held ég að hún hafi verið að mótast og verða til alveg frá því að ég var lítil stelpa að alast upp í sjávarþorpi úti á landi. Aðstæður mínar voru þannig að ég varð auðveldur skotspónn eineltis og útilokunar, sem hafði mikil áhrif á sjálfsmynd mína þá og hefur einnig mótað mig sem fullorðna manneskju.

Viðbrögð mín við fólust í að draga mig í hlé, vera ein og forðast samskipti við fólk. Ég var einmana, en notaði einveruna sem skjól gegn ófyrirséðum félagslegum samskiptum og til að tengjast sjálfri mér. Mér hefur verið hugleikið alveg frá því að ég man eftir mér að skilja hvernig fólk nær árangri og líður almennt vel þrátt fyrir að hafa mætt mótlæti og gengið í gegnum sársaukafulla lífsreynslu.

Árið 2012 bjó ég til leiðarvísi um góð samskipti; Samskiptaboðorðin, sem felst í því að horfa, heilsa, hlusta, hljóma, hrósa og hjálpa. Fjórum árum síðar kom út samnefnd bók, sem byggir á Samskiptaboðorðunum sex og tók mið af mínum eigin samskiptum allt frá barnæsku. Við nefnilega erum öll manneskjur sem búum að allskonar lífsreynslu sem við báðum kannski ekkert endilega um en hefur mótað okkur.

Samskipti okkar við annað fólk eru svo sannarlega hluti af því að upplifa hamingju og tengsl við aðra geta valdeflt okkur, aukið trú okkar á eigin getu auk þess sem við upplifum okkur tilheyra og skipta máli. Andstæða þessa er einmanakenndin, sem ég þekki sjálf af eigin raun. Enda held ég að ástríða okkar í lífinu beinist oftar en ekki að því sem snertir okkur sjálf, okkar eigið líf, lífsreynslu eða sem hefur haft djúpstæð áhrif á okkur.

Hvað er einmanaleiki?
Þegar ég byrjaði að vinna að þessari bók, þá áttaði ég mig fljótlega á að einmanaleiki væri mannleg kennd sem við upplifum öll einhvern tímann á ævinni. Meðal annars þess vegna bauð ég fólki að hafa samband við mig og deila með mér sinni upplifun af einmanaleika. Ég tók viðtöl við fólk og flétta frásagnir þeirra inn í bókina mína.

Ég kafaði ofan í fræðilega þekkingu um einmanaleika og samþætti hana reynslu viðmælenda minna sem og minni eigin reynslu og í kjölfarið skilgreini ég einmanaleika sem tilfinningu um djúpstæðan skort á nánd og innihaldsríkum tengslum við sjálfan sig og/eða aðra og að aðrir hvorki hlusti á mann né skilji.

Rétt eins og hungur lætur okkur vita að blóðsykurinn sé of lágur og við þurfum að nærast og þorsti segir okkur að við þurfum vökva til að ofþorna ekki þá er einmanakenndin að láta okkur vita að við þörfnumst tengsla og viðurkenningar. En við skulum muna að einmanaleiki á rætur í því sem kom fyrir okkur – það kom eitthvað fyrir okkur og þess vegna erum við einmana. Oftar en ekki er þetta reynsla sem markar djúp spor á líf okkar.

Í hvaða aðstæðum þrífst einmanaleiki?
Einmanaleiki þrífst við aðstæður þar sem við erum annars vegar einmana án annarra og hins vegar einmana með öðrum.

Þegar við erum einmana án annarra þá finnst okkur við ekki eiga í raunverulegum og merkingarbærum tengslum við aðrar manneskjur, náttúruna eða okkur sjálf. Einmanakennd án annarra kviknar þegar við verðum fyrir því að missa ástvin eða vera hafnað af manneskju sem við elskum og töldum okkur vera nákomin, til dæmis ef maki yfirgefur okkur eða ef fullorðið barn lokar á samskipti við foreldri.

Orðið inngilding merkir að upplifa sig fullgildan meðlim innan hóps, að tilheyra og að njóta sérstöðu sinnar. En þegar við erum einmana með öðrum þá upplifum við andstöðu inngildingar; við hvorki tilheyrum því fólki sem við eigum í samskiptum við né njótum sérstöðu okkar. Við getum til dæmis fundið til einmanakenndar með öðrum í nánu sambandi ef viðurkenningu, skilning og hlustun skortir. Einn viðmælandi minn, Sól, lýsti þessu svona: „Mér finnst ég hafa verið hvað mest einmana þegar ég átti maka. Þegar hann lét eins og ég væri ekki til. Ég skipti ekki máli. Ég gerði allt vitlaust og fékk svo sannarlega að heyra það. Ég fann að mér myndi hugsanlega líða betur einni. Þegar ég sé aðra tala við sína maka þá átta ég mig á að ég gat aldrei talað við minn maka og þess vegna var ég meira einmana þá.“

Hverjir eru líklegri en aðrir til að upplifa einmanaleika?
Ein algengasta ástæða langvinns einmanaleika er skortur á kærleika í uppvexti, þegar þörfum okkar fyrir skilyrðislausa ást, tengsl og nánd og er ekki mætt af fullorðna fólkinu sem ber ábyrgð á uppeldi okkar og umönnun. Fólk sem upplifir sorg, missi, höfnun og tengslarof, breytingar á lífshlutverki, til dæmis að hætta á vinnumarkaði eða greinast með lífsógnandi sjúkdóm, eru líklegri en aðrir til að upplifa einmanaleika.

Fólk sem hefur upplifað áföll, sér í lagi félagslega ógn sem á sér stað þegar við verðum fyrir einelti, andlegu ofbeldi eða kynferðisofbeldi, er sömuleiðis líklegra til að upplifa einmanaleika. Þær manneskjur sem eru einna helst einmana í nútímasamfélagi eru annars vegar ungir karlmenn sem búa einir í samfélögum sem aðhyllast einstaklingshyggju og hins vegar konur á miðjum aldri sem eiga í streitumiklum rómantískum tengslum.

Fólk sem upplifir sig á jaðrinum eða utangarðs í samfélaginu er frekar einmana, einnig fólk sem býr eitt, eru ekklar eða ekkjur, fátæk og þau sem búa við andlega og/eða líkamlega vanheilsu.

Er einmanaleiki að aukast?
Einmanaleiki hefur verið að aukast á síðustu fjórum áratugum. Í dag segjast 36% fólks á Íslandi vera stundum, oft eða alltaf einmana, samanborið við heimsmeðaltalið sem er 31%. Ástæður aukningar einsemdar hér á landi eru einkum þríþættar. Í fyrsta lagi stuðlar okkar nútíma íslenska samfélag að einsemd íbúanna með áherslu sinni á einstaklingshyggju í stað félagshyggju.

Einstaklingshyggja birtist meðal annars í því að hver og ein manneskja í samfélaginu okkar leiti allra leiða til að verða besta útgáfan af sjálfri sér, hámarka virði sitt og hamingju með öllum tiltækum ráðum. Við metum virði fólks eftir efnislegum árangri þess í lífinu, auði og völdum. Svo má ekki gleyma að hagkerfi nútímans er byggt þannig upp að það vekur stöðugt upp hugmyndir um skort og þörf, minnir okkur á allt sem við getum ekki, höfum ekki möguleika á, eigum ekki og erum ekki. Í stað þess að beina athyglinni að því sem við getum gert, höfum möguleika á og því sem við eigum og erum.

Vestrænt samfélag hefur aðhyllst frjálshyggju og nýfrjálshyggju síðastliðna fjóra áratugi og áherslan hefur verið á að líta á okkur sem samkeppnisaðila, ekki samborgara, þiggjendur, ekki gefendur, varðmenn eiginhagsmuna, ekki heildarhagsmuna. Samstaða og samkennd í samfélaginu virðist vera að lúta í æ lægra haldi fyrir skautun og skeytingarleysi.

Í öðru lagi er aukið algengi einmanaleika í beinu samhengi við tilurð samfélagsmiðla og almenna farsímaeign. Samfélagsmiðlar eru sannarlega oft gagnlegir, en fyrir fólk sem er einmana þá er algengara en ella að þeir ýti undir og minni þau á eigin einmanalegu aðstæður. Til dæmis kemur fram í PISA-rannsókninni, sem Efnahags- og framfarastofnunin (e. OECD) leggur fyrir 15 og 16 ára nemendur á alþjóðagrundvelli, að breyturnar sem skýra aukið algengi einmanaleika meðal nemendanna er almenn farsímaeign, tilkoma samfélagsmiðla og aukið aðgengi að og framboð á internetinu. Hér landi jókst einmanaleiki meðal ungmennanna úr 15% árið 2000 í 29% árið 2018. Við þetta má bæta að sá aldurshópur sem ber uppi aukið algengi einmanaleika hér á landi er unga fólkið okkar, á aldrinum 18 til 30 ára.

Í þriðja lagi má rekja aukið algengi einmanaleika til stöðugt minni fjölskyldueininga í nútímasamfélagi. Við búum færri í fleiri fermetrum.

Hver eru góð bjargráð fyrir einmana einstaklinga?
Einmanaleiki, sér í lagi langvinnur, getur búið til vítahring sem sannfærir okkur um að það sé eitthvað að okkur og að þess vegna séum við einmana. En staðreyndin er sú að það kom eitthvað fyrir okkur og þess vegna erum við einmana. Aðstæðurnar sem leiddu til einmanaleikans geta lamað okkur og tekið frá okkur frumkvæði, sjálfsaga og getu til að bregðast við með ákveðnum hætti. Það krefst því hugrekkis, berskjöldunar og heiðarleika að rjúfa einangrun sína og einmanakennd. Bjargráð okkar sem einstaklinga felast í því að grípa til aðgerða og hlúa að eigin einvægi.

Ég bjó til nýyrðið einvægi sem er samsett af annars vegar orðinu einmana og hins vegar samvægi sem vísar til jafnvægis líkamans. Einvægi merkir að líða vel og hafa tilgang í lífinu þrátt fyrir einmanaleika. Það byggir í fyrsta lagi á viðurkenningu: að mæta einmanakenndinni, tjá hana og skilja hvað orsakaði hana – hvað kom fyrir okkur sem leiddi til þess að við erum einmana. Það getur til dæmis verið ástvinamissir, skortur á skilyrðislausum kærleika í uppvexti eða að vera í ástarsambandi sem einkennist af andlegu ofbeldi.

Í öðru lagi iðkum við samkennd í eigin garð sem felur í sér að mæta okkur sjálfum með sömu góðvild og við sýnum fólki sem við elskum, að átta okkur á að allar manneskjur mæta erfiðleikum – áföll, missir og höfnun og tilheyrandi einmanakennd er sammannleg reynsla -, og að iðka núvitund með ásetningi að þessu augnabliki eins og það er án þess að taka afstöðu eða dæma.

Í þriðja lagi hlúum við að fjórum grunnstoðum: gætum að hvíld og svefni, nærum okkur vel, hreyfum okkur reglulega og iðkum tengsl. Það getur verið áskorun að hlúa að tengslum þegar við erum einmana, því skortur á tengslum hefur oftar en ekki leitt af sér einmanakenndina. En þá getum við hlúð að tengslum við okkur sjálf, sem er alveg sérlega mikilvægt þegar við erum einmana. Við getum líka hlúð að tengslum við gæludýr, við listir, sköpun, náttúruna og æðri mátt eins og hvert og eitt okkar skilgreinir hann fyrir sig.

Hvernig getum við snúið þessari þróun við sem einstaklingar?
Til að snúa við þeirri hröðu þróun aukins einmanaleika sem á sér stað núna þá þurfum við að byrja á okkur sjálfum. Við berum einungis ábyrgð á okkur sjálfum, við berum ekki ábyrgð á öðru fullorðnu fólki. Ef við viljum breyta líðan okkar þá þarf eitthvað að breytast. Því ef engu er breytt þá breytist ekkert. Við getum tileinkað okkur einvægi og leitað leiða til að nýta reynslu okkar af einmanaleika til að dýpka líf okkar og lífsgæði enn frekar og bera þannig sársaukafullri reynslu fagurt vitni.

En sem samfélag?
Til að snúa við þeirri þróun að æ fleiri eru einmana í okkar samfélagi, þá væri albest ef stjórnvöld myndu verja tíma og fjármunum í að snúa þróuninni frá skautun og skeytingarleysi og í átt að samstöðu og samkennd. Við getum líka vakið enn frekari athygli á þeim góðu verkefnum sem eru nú þegar til staðar og sporna gegn einmanaleika. Þar má nefna Vinaverkefni Rauða krossins, kórastarf, félagsmiðstöðvar bæði fyrir ungmenni og aldraða, félagsstarf ýmiss konar, bókasöfn, sundlaugarnar okkar – sér í lagi heiti potturinn. Við getum líka öll verið sá vinur sem við óskum þess að eiga. Ekki síst má nefna að við getum öll heilsað fólki á förnum vegi, jafnvel þó að við þekkjum það ekki. Að heilsa sýnir að við erum að viðurkenna tilvist fólks og senda því þau skilaboð að það skipti máli. Eitt bros getur skapað andartakstengsl sem veldur augnabliksvellíðan á bæði þá manneskju sem brosir og þeirrar sem brosað er til.

Góð ráð til fólks sem glímir við einmanaleika?
Fyrir fólk sem glímir við einmanaleika þá langar mig að segja að það hafa átt sér stað atburðir sem þú ræður engu um, sem þú velur ekki og þú hefðir svo sannarlega viljað komast hjá því að ganga í gegnum. En valdið er þitt og valið um hvernig þú bregst við og hvaða áhrif atburðirnir hafa á þig. Hér eru nokkur ráð sem mig langar til að gefa þér:

·       Við veljum ekki hvað hendir okkur, en við getum valið og tekið ábyrgð á viðbrögðum okkar.
·       Settu eigin vellíðan í forgang
·       Hafðu hugrekki til að draga mörk og í kjölfarið blómstra.
·       Tengdu þig fólki sem nærir þig og dregur fram þínar fallegustu hliðar.
·       Lykilinn að sátt er að finna innra með þér.
·       Hlustaðu alúðlega á eigið innsæi.
·       Virtu þörf þína fyrir hvíld.
·       Elskaðu þig.
·       Elskaðu aðra.

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir er hjúkrunarfræðingur með víðtæka reynslu af störfum innan heilbrigðiskerfisins, auk þess sem hún leggur stund á doktorsnám í félagsvísindum, heldur fyrirlestra og sinnir kennslu bæði á háskóla- og framhaldsskólastigi. Aðalbjörg er höfundur bókanna Samskiptaboðorðin,  Samfélagshjúkrun og Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar.

Linkur á bókina Einmana

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is