Ertu að lifa samkvæmt þínum gildum?

Það er svo margt í þessum heimi sem togar okkur í ýmsar áttir. Sumt gerir okkur gott og annað, tja ekki svo mikið. Það er oft talað um að hver þú ert sé samtala þeirra einstaklinga sem þú umgengst mest og eflaust margt til í því. Það að velja fólkið í kringum okkur skiptir máli, en það sem skiptir jafnvel enn meira máli er að vita hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Út frá því velst fólkið sjálfkrafa og þá samræmi við það sem við viljum standa fyrir.

Ég hef velt þessu fyrir mér í nokkurn tíma og átta mig ávallt betur á því hversu stóru hlutverki gildin okkar gegna. Það að ég viti hver gildin mín eru og reyni að fylgja þeim eins og ég best get, trúi ég að sé lykillinn að minni hamingju.

Það er hins vegar hægara sagt en gert að standa fast á sínum gildum og oft vitum við jafnvel ekki hver þau eru. En jafnvel þótt við vitum það ekki, þá fáum við samt vísbendingar um það þegar við göngum þvert á þau. Það er þessi hnútur í maganum sem við fáum og þessi tilfinning um að við séum ekki að gera rétt.

Það er ríkt í okkur mannfólkinu að vilja þóknast öðrum og jafnvel þótt við viljum ekki ganga gegn okkar eigin sannfæringu, þá viljum við alls ekki særa aðra og veljum því frekar að hunsa okkar innri rödd og ganga á gildin okkar, oft án þess að átta okkur á því. Og þannig týnist tíminn.

Þetta byrjar yfirleitt sakleysislega og læðist aftan að okkur svolítið eins og einkenni járnskorts. Þegar við erum byrjuð að ganga gegn gildum okkar er auðvelt að halda því áfram. Eiginlega auðveldara en að gera það ekki því það virkar nefnilega undarlega að byrja allt í einu að setja mörk, ef við gerðum það ekki strax í upphafi.

Ef þú veist hver þú ert og fyrir hvað þú stendur, þá áttu auðveldara með að segja nei þegar þú ert beðin um að gera eitthvað sem gengur gegn þeim og velur frekar það sem styður við þau.

Dæmi um gildi geta verið að lifa ástríðufullu lífi, einlægni, einfalt líf, að hafa gaman, að hafa jafnvægi í lífinu, að segja sannleikann, að bera virðingu fyrir öðrum, gera góðverk, vera örugg, sjálfsagi, hollusta, sjálfstæði, samvinna, andlegt líf, lifa gleðilegu lífi, stjórn, vera hraust, nákvæmni, sjálfsvirðing, jafnvægi, jafnrétti, virðing, vinátta og svo framvegis.

Hluti af mínum gildum eru til dæmis:

Öryggi: Upplifa mig örugga.

Andlegt líf: Að dýpka andlega þekkingu mína.

Einvera: Gefa mér tíma ein með sjálfri mér.

Ástríða: Vera spennt fyrir því sem ég er að gera.

Sannleikur: Að segja og lifa í sannleikanum.

Einlægni: Koma til dyranna eins og ég er klædd.

Gleði: Leika mér og gleðjast.

Vöxtur: Að stuðla að eigin vexti og anarra.


Að átta sig á því hver gildin okkar eru snýst ekki um það að ná einhverri fullkomnun en það hjálpar okkur að finna það líf sem okkur er ætlað að lifa. Að finna það sem skiptir mann máli og lifa lífinu þannig að maður er trúr sjálfum sér.

Þegar ég fer yfir gildin mín byrja ég á því að finna þau gildi sem skipta mig máli, það er oft talsverður fjöldi. Síðan flokka ég þau í léttvæg, mikilvæg og mjög mikilvæg. Þegar ég er búin að fara í gegnum þau aftur vel ég tíu mikilvæg gildi úr mjög mikilvæga hlutanum. Þau flokka ég svo frá einum upp í tíu. Þannig sé ég hvaða gildi skipta mig virkilegu máli. Þessi efstu eða jafnvel öll eru eitthvað sem er ekki hægt að semja um.

Hér er mjög mikilvægt að ofhugsa ekki. Því ef við gefum okkur of langan tíma til að hugsa, er hætt við því að við förum að velja of skynsamlega, jafnvel eitthvað sem við teljum að eigi að vera okkar gildi eða að við förum að hugsa um hvað öðrum finnst. Þetta eigum við að velja með hjartanu og því er ekki gott að gefa sér of langan tíma. Þetta snýst um þig og engan annan.

Þegar gildin hafa verið valin er gott að renna yfir þau og velta fyrir sér hvort líf okkar sé í samræmi við þau. Sjaldnast er það nú þannig og alltaf er eitthvað sem við getum gert til að skerpa á. En þetta eykur meðvitund okkar og hjálpar okkur að setja athyglina á það sem skiptir okkur máli, velja það sem hentar okkur best og dregur úr þeirri tilhneigingu að vilja þóknast öðrum.

Það erfiða við þetta er hins vegar að þegar við byrjum að beina athygli okkar að gildum okkar, leiðir það oft til þess að við finnum fyrir aukinni meðvitund um það hvað hentar okkar og hvað ekki og í kjölfarið þurfum kannski taka erfiðar ákvarðanir. Erfiðar ákvarðanir sem leiða okkur engu að síður á þann stað sem okkur er ætlaður.

Nú þú. Hver eru þín gildi og ertu að lifa lífi þínu í samræmi við þau?

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is