Hin heilaga þrenning í húðumhirðu

Í starfi mínu sem húðlæknir fæ ég oft spurninguna frá bæði konum og körlum hvaða húðvörur á ég að nota til að viðhalda húðinni heilbrigðri og koma í veg fyrir ótímabæra öldrun, þ.e.a.s. fínar línur, hrukkur, litabreytingar og slappleika. Oftast eru þetta einstaklingar sem eru farnir að nálgast fertugt  og sem hafa þá kannski ekki gert neitt sérstaklega mikið fyrir húðina í gegnum tíðina en langar að byrja að hugsa vel um hana.

Þá byrja ég oft á því að fara í gegnum grunnatriðin í húðumhirðu sem eru að hreinsa húðina kvölds og morgna og næra húðina með góðum raka daglega en þar þarf að velja það rakakrem sem hentar best húðgerð viðkomandi.

Einnig er ráðlegt að koma inn einhverri virkni og þá er best að byrja á undirstöðunni eða á því sem ég kalla hina heilögu þrenningu. Hin heilaga þrenning eru vörur sem allir ættu að koma inn í sína húðrútínu sem eru að spá í að vernda húðina, fyrirbyggja öldrunarbreytingar og viðhalda heilbrigði hennar. Þetta eru þær húðvörur sem eru með sterkustu rannsóknirnar á bak við sig og hafa margsannað gildi sitt.


Hin heilaga þrenning

Hin heilaga þrenning er sem sagt sólarvörn, sem allir geta notað, og svo andoxunarefni og A vítamín krem sem eru oft í daglegu tali kölluð retinól. Það geta ekki allir notað andoxunarefni og retinól, t.d. þeir sem eru með viðkvæma húð eða bólgusjúkdóm í andliti eins og rósroða. Ef svo er þá hvet ég viðkomandi að leita til húðlækna til að fá frekari ráðleggingar.

Sólarvörn – verndar og fyrirbyggir

Allir geta notað sólarvörn það er bara að vinda sér í málið að finna þá sólarvörn sem hentar og sem betur fer í dag er mikið úrval af góðum sólarvörnum fyrir andlitið. Við mælum með SPF þætti 30-50 fyrir andlit og gjarnan sólarvörn sem inniheldur steinefni eins og titanium díoxíð eða zink oxíð. Þær varnir verja okkur betur gegn kulda og vindi en þær sem eru kemískar. Eitt besta kuldakremið sem til er fyrir útivistina!

Muna svo að bera á sig tvisvar á dag ef útivera allan daginn, eða á ca 4-6 klukkustunda fresti. Sólin er aðal skaðvaldurinn þegar kemur að ótímabærum öldrunarbreytingum í húðinni, eins og tapi á þéttleika, litabreytingum, æðaslitum, hrukkum og fínum línum. Ef sólarvörn er rétt notuð þá getur hún komið í veg fyrir 80-90% af þessum breytingum.


A vítamín krem (retinól) – uppbyggjandi

Hér erum við að tala um hetjuna í húðumhirðu. Það er ekki að ástæðulausu að retinól kremin eru vinsæl og mikið talað og skrifað um þau í dag þar sem á bak við efnið er fjöldinn allur af klínískum rannsóknum sem sanna það, að retínól er eitt fárra efna sem búa yfir margþættum húðbætandi eiginleikum og öflugasta efnið í húðvörum til að hægja á framkomu öldrunarmerkja á húðinni. Það er strax um 25 ára aldurinn að það fer að hægja á kollagen framleiðslu húðarinnar en kollagen er eitt helsta uppbygginarefni húðarinnar. Til að hægja á þessu ferli og örva kollagenframleiðsluna kemur retinólið sterkt inn.

Ef þú notar retinól reglulega verður áferð húðarinnar þar af leiðandi bjartari, sléttari, fínar línur grynnka og litabreytingar verða minna áberandi. Þar sem retínól örvar náttúrulega framleiðslu húðarinnar á kollageni fer húðin smám saman að verða þéttari og þar af leiðandi stinnari. Retínól minnkar einnig fituframleiðslu í fitukirtlum og fækkar fílapenslum með þeirri jákvæðu hliðarverkun, að svitaholur verða minna áberandi.

Retinól er sterkt og getur verið ertandi fyrir viðkvæma húð þannig það eru ekki allir sem geta notað það. Mjög mikilvægt er að byrja hægt og trappa notkunina varlega upp, byrja kannski bara tvö kvöld í viku. Ef það þolist vel geturðu aukið notkunina og borið á þig retínóíð annað hvert kvöld í þrjár til fjórar vikur. Á fimmtu viku ættirðu að geta notað retínóíð á hverju kvöldi en þetta fer þó allt eftir því hvað húðin þín þolir. Ef húðin þín er mjög viðkvæm er mælt með því að byrja á meðferðinni einu sinni til tvisvar sinnum í viku og láta þrjár til fjórar vikur líða á milli þess sem þú eykur notkunina.

Formúluna skal bera á hreina húð og í þunnu lagi en mikilvægt er að það komi ekki nálægt augum og munnvikum, þar sem húðin þar er mjög viðkvæm. Þar sem erting, á borð við roða, sviða eða brunatilfinningu, getur komið upp í húðinni með notkun retínóíða getur reynst gott að bera rakakrem á húðina þrjátíu mínútum fyrir meðferðina og þrjátíu mínútum eftir hana. Mikilvægt er að hafa í huga, að ekki er æskilegt að nota retínóíð á sama tíma og húðvörur sem innihalda salicylic-sýru eða benzoyl peroxide.

Ég tala um retinól hér en þetta er í raun hópur A vítamín skyldra efna og bera ólík nöfn eins og retinól palmytate (vægast), retinól (miðlungssterkt) og retinaldehyde (sterkt). Sterkustu kremin sem innihalda retinóíð sýru, eins og Adapalene (Differin) og Tretinoin, eru lyfseðilsskyld.

Og enn og aftur að sólarvörninni sem er lang mikilvægust af þessari heilagri þrenningu! Ef þú notar retinól er það enn mikilvægara að bera á sig sólarvörn á hverjum morgni þar sem þessi efni auka ljósnæmi húðarinnar. Notaðu sólarvörn með SPF 30 að lágmarki.

Andoxunarefni- verndar og fyrirbyggir

Með því að nota andoxunarefni á morgnana þá eflum við enn frekar varnir húðarinnar og bætum áhrif sólarvarnarinnar. Á hverjum degi verður húðin fyrir stöðugri geislun, hvort sem það er af völdum sólargeisla eða til dæmis snjalltækja.

Umhverfismengun, á borð við útblástur ökutækja, myndar einnig sindurefni, sem leggjast á húð okkar. Okkar eigin líkami hlutleysir þessi sindurefni í húðinni en ef það verður mikil myndun þessa sindurefna, eins og frá sólinni, þá náum við ekki að hlutleysa þau og þau valda skaða í húðfrumunum. Þessi skaði kemur svo hægt og rólega, en örugglega, fram sem fínar línur, aukinn slappleiki og ójöfn áferð.

Til þess að efla varnir okkar gegn þessum sindurefnum getum við eflt þetta kerfi með því að bera andoxunarefni á húðina. 

Ýmis vítamín, á borð við C- og E-vítamín, hafa góð andoxandi áhrif og finna má þau í ávöxtum og grænmeti. Það hefur þó færst í aukana að nota andoxunarefni í staðbundnum meðferðum og hafa húðvörur, sem innihalda andoxunarefni, notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Algengustu andoxunarefnin í húðvörum eru C- og E-vítamín, níasín og resveratról.

Það getur tekið svolítinn tíma að finna besta andoxunarefnið fyrir þig þar sem þau vinna öll á ólíkan hátt og mismunandi hvað hentar svo þinni húðgerð. C vítamín er þekktasta andoxunarefnið og mikil rannsóknarvinna liggur að baki þess. Það örvar kollagen- og elastínframleiðslu húðarinnar, svo hún verður þéttari, fyrirbyggir framkomu öldrunarmerkja á húðinni og vinnur sérlega vel gegn litamisfellum.  E vítamín er oft notað með C vítamíni þar sem það vinnur vel með því og nær aðeins dýpra í húðina.

Undanfarið hefur níasín, eða B3-vítamín, notið mikilla vinsælda í húðvörum. Það bætir áferð húðarinnar og húðtón en einnig hefur það róandi og bólgueyðandi áhrif á húðina. Níasín hefur því gjarnan verið notað af fólki með rósroða eða bólur.

Annað andoxunarefni vert að nefna er svo Resveratról, sem er aðal andoxunarefnið í rauðvíni, en það er borið á húðina á kvöldin þar sem það örvar viðgerðarferli húðarinnar yfir nóttina.

Hvernig notarðu svo þessa heilugu þrenningu saman?

Flest andoxunarefni vinna vel saman og má nota þau daglega. Á morgnana er tilvalið að nota C-vítamín eða níasín en þú berð formúluna á hreina húðina. E-vítamín má nota kvölds og morgna en því er gjarnan blandað við C-vítamín til að auka stöðugleika þess síðarnefnda. Þar á eftir notarðu andlitskrem og svo sólarvörn.

Á kvöldin er resveratról góður valkostur, þar sem það hefur róandi áhrif á húðina og hjálpar viðgerðarferli hennar. Retínóíða skal nota eftir því sem húðin þolir, en ágætt er að byrja á að nota það eitt kvöld í viku og auka notkunina hægt á tveggja vikna fresti. Þó andoxunarefni auki vissulega varnir húðarinnar gegn sólargeislum að einhverju leiti koma þau ekki í stað sólarvarnar og er því ávallt mælt með notkun sólarvarnar, að lágmarki SPF 30, daglega.

Hvar finnurðu svo vörur sem innihalda þessi efni?

Það eru fjöldi vörumerkja sem innihalda bæði andoxunarefni og retinól. Gæði varanna er mismunandi en um að gera að prófa sig áfram og sjá hvað hentar þinni húð. SkinCeuticals er t.d. mjög fínt vörumerki sem er góðan grunn undir retinólið sem ertir þá lítið húðina. Önnur vörumerki sem kosta minna eru t.d. La Roche Posay og Neostrata og svo eru enn ódýrari vörumerki eins og Pharmaceris og The Ordinary.

– Jenna Huld

Dr.Jenna Huld Eysteinsdóttir húðsjúkdómalæknir er einn af eigendum Húðlæknastöðvarinnar þar sem hún starfar. Hún lauk embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands árið 2005 og hélt síðan til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem hún lauk sérnámi sínu í húð- og kynsjúkdómalækningum við Sahlgrenska sjúkrasúið árið 2014. Jenna Huld varði síðan doktorsverkefni sitt við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2017 en hún rannsakaði áhrif Bláa Lónsins á sjúklinga með psoriasis. Hún hóf störf á Húðlæknastöðinni Smáratorgi árið 2015 þar sem hún starfar við almennar húðlækningar en einnig fegrunarlækningar. 

Jenna Huld hefur mikinn áhuga á öllu sem viðkemur heilbrigði húðar og hefur því síðustu ár sérhæft sig enn meira í fegrunarlækningum sem er þá meðhöndlun húðarinnar með t.d. virkum húðvörum, lasermeðferðum og sprautumeðferðum. Hún skrifar reglulega pistla um málefni tengt húðinni og svarar spurningum lesenda á mbl.is um mismunandi húðvandamál. Einnig heldur hún úti hlaðvarpinu Húðkastið ásamt Rögnu Hlín og Örnu Björk húðlæknum þar sem þær ræða hina algengustu húðsjúkdóma og meðferðir þeirra. Nú nýlega stofnaði hún ásamt tveimur öðrum Húðvaktina sem er fjarlækningar lausn á sviðum húðlækninga en ætlun þess er að stytta biðtímann til húðsjúkdómalækna og auðvelda aðgengi landsbyggðarfólks að sérfræðiþjónustu. 

Fyrir utan vinnuna er hún mikil sveitastelpa inn við beinið og nýtur allrar útivistar en þá helst hestamennsku sem hún hefur stundað síðan hún var krakki. 

hudlaeknastodin á facebook

hudlaeknastodin á Intagram

hudvaktin.is

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG