Möguleikar á jákvæðri notkun samfélagsmiðla

Ég sá gamalt myndband um daginn með fréttaskýringu þar sem spurningunni hvort
internetið væri bóla var upp. Þessi frasi var oft endurtekin og virtist vera þónokkur efi í fólki
þegar kom að veraldarvefnum. Efinn stafaði líklega af þekkingarleysi og fólk efaðist um
notagildi netsins sem og afleiðingar þess.
Spólum fram í tímann, en svo virðist vera sem að nokkuð algengt sé að fólk horfi á
samfélagsmiðla á þennan hátt. Eru samfélagsmiðlar bara bóla? Eitt sársaukafullt graftakýli
sem veldur okkur óþægindum, springur og kannski hverfur. Þeir hafa verið ásakaðir um að
auka neiðkvæðni og óöryggi og halda uppi óraunsæjum gildum.
Með því að velta upp hvort samfélagsmiðlar séu bara bóla eins og litið var á veraldarvefinn á
sínum tíma, gæti verið að við séum þá þegar búin að gera upp hug okkar og koma þannig í
veg fyrir að við sjáum þá góðu möguleika sem samfélagsmiðlar hafa upp á að bjóða?
Gæti verið að möguleikar samfélagsmiðla séu jafnmiklir og veraldarvefsins? Erum við að
horfa framhjá möguleikanum að þeir geti lyft okkur upp, nýst okkur á ýmsa vegu og veitt
okkur andagift? Eru samfélagsmiðlar ekki frekar tækifæri, eins og veraldarvefurinn hefur
verið?
Mín notkun og upplifun af samfélagsmiðlum er sú að ég get stýrt sjálf neyslu minni. Ég nota
þá mest til að tengjast öðrum, til að fræðast, lyfta öðrum upp og helst af öllu lyfta sjálfri mér
upp! Mín fyrsta upplifun af samfélagsmiðli var myspace og ég man að á þeim tíma var
voðalega lítið sem ýtti undir neiðkvæðni eða óöryggi nema þá mögulega að hver notandi
mátti velja sér sína átta (fyrst voru það fimm) uppáhalds vini og setja þá á síðuna sína. Það
olli því að fólk valdi þá í vinahópnum sem þóttu mest töff á þeim tíma til að sýna þeim
stuðning og fá vinsældarstig og þar af leiðandi var líklegt að fólk upplifði og sæi svart á hvítu
hvenær maður var í uppáhaldi eða nógu töff og hvenær ekki. Í dag man ég ekki hvort ég hafi
upplifað höfnun en ég man eftir að hafa kynnst skemmtilegu fólki og talað við það í gegnum
skilaboð. Facebook tók við og í dag man ég ekki eftir að hafa upplifað eitthvað neikvætt fyrir
utan örfá rifrildi við ókunnugt fólk í kommentakerfinu. Það truflar mig þó ekki í mínu daglega
lífi og ég hef sjálf forðast kommentakerfin eins og hvað annað sem lætur mér líða illa. Í dag
er facebookið mitt í lítilli notkun en þar get ég fylgst með frænkum og frændum og vinum
sem ég hef ekki hitt lengi sem og notað hópana góðu þar sem hægt að kynnast fólki sem hafa
svipuð áhugamál eða fræðst um ýmislegt og lært af öðrum.
Instagram er sá samfélagsmiðill sem hefur rutt þessum miðlum algerlega til hliðar og með
tilkomu „Youtubers“ höfum við fengið fram á sjónarsviðið fólk sem er þekkt fyrir sitt efni,
hvort sem er á instagram, Vine, YouTube eða TikTok. Reyndar kom snapchat inn þarna í
millitíðinni og ég fylgdi áhrifavöldum þaðan inn á instagram sem þótti fallegri miðill.
Á meðan áhrifavaldar unnu við að gera fagurfræðilega gott efni á instagram var ég nokkuð
sein að stökkva á vagninn en notaði instagram sem æfingadagbók sem mér þótti afar
heppilegt. Ég uppskar fyrir vikið ágætis vini í gegnum miðilinn sem áttu það sameiginlegt
með mér að lyfta þungum lóðum. Samhliða því var ég dugleg að setja inn myndir af því sem
ég var að elda eða baka og uppskar þónokkrar vinsældir meðal til dæmis vegan-fólks.

Notkun mín á samfélagsmiðlum hefur svo breyst með tímanum nákvæmlega eins og notkun
mín hefur breyst á veraldrarvefnum. Áður fyrr voru það bloggsíður, fréttasíður, tölvupóstur
og svo leitaði ég að upplýsingum á Yahoo. Við stjórnum því nefnilega sjálf hvernig við högum
okkar neyslu og þó svo að aðgengið sé ekki fullkomið og við búum ekki í siðferðislega
bólstruðum heimi ættum við þó að geta ferðast um götur samfélagsmiðlanna án þess að vilja
plokka úr okkur augun og vera í stöðugu sjálfsniðurrifi. Við getum varla með allri þeirri
þekkingu sem við höfum í dag talað um samfélagsmiðla sem bólu og afneitað notagildi
þeirra, heldur þurfum við, eins og með veraldarvefinn, að samþykkja og fagna komu þeirra
sem og læra nota þá á fallega og uppbyggilegan hátt.
Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu að fylgja mér á instagram, eftir það eru allir vegir færir eða þar
um bil. Mig langar þó að setja fram mjög stuttan og hnitmiðaðan leiðarvísi um hvernig þú
getur fundið ástina á sjálfu þér á samfélagsmiðlum.

  • Í fyrsta lagi en nokkuð mikilvægt að hafa stjórn á notkun þinni á öllum þeim
    samfélagsmiðlum sem þú ert að nota. Það er ágætt af hafa í huga hversu miklum tíma
    þú verð í að fletta sem og að vera meðvitað um tilfinningar þínar á meðan.
  • Hafðu í huga að þú velur sjálft efnið sem þú neytir. Fylltu miðilinn þinn af fólki sem er
    jákvætt, uppbyggjandi, fræðandi, hefur góð áhrif á þig og fyllir þig af andagift í hinu
    daglega lífi eða í áhugamálum þínum.
  • Hættu öllum samanburði. Það er engin eins og engin ástæða til að halda að líf þitt eigi
    að vera eins og líf annarra. Þitt líf er einstakt það er jafn fullkomið og ófullkomið og
    hjá öðrum, bara öðruvísi.
  • Sýndu þér mildi! Þú mátt misstíga þig og gera mistök eins og aðrir á sömu vegferð.
  • Vertu þú sjálft á samfélagsmiðlum, það getur tekið sinn toll að vera með stöðugt
    leikrit og hagræða lífinu þannig að það líti sem best út.
  • Settu skýr mörk! Það þurfa ekki öll að hafa aðgengi að þér og það þurfa ekki öll að
    vita allt um þig sama hversu miklu þú deilir frá þér og þínu lífi. Mundu á sama hátt að
    virða mörk annarra.
  • Fagnaðu öllum þínum sigrum, stórum og smáum og ALDREI draga úr sigrum þínum né
    virði þínu.
  • Vertu jákvætt og hvetjandi og skildu eftir fallegar athugasemdir. Lyftu öðrum upp og
    vertu hvatning fyrir aðra til að gera slíkt hið sama.
  • Ekki taka þátt í neikvæðni!
  • Ef þú vilt skapa efni fyrir aðra að sjá, einblíndu þá á það sem að þér þykir skemmtilegt
    og gerðu efni sem þú ert nokkuð viss um að lyfti öðrum upp og gleðji aðra en fyrst og
    fremst sem GLEÐUR ÞIG!
  • Virði þitt ekki ekki metið í fjölda hjarta sem þú færð eða fjölda athugasemda,
    klappaðu sjálfu þér á bakið fyrir það sem þú sendir frá þér sem þér þykir skemmtilegt
    í stað þess að bíða eftir að einhver annar geri það. Þú mátt líka minna fólk á að þér
    þyki gaman að fá hrós, fiskar sá sem rær (ég geri þetta við manninn minn ef hann
    gleymir því haha).
  • Taktu stundum hlé, við erum ekki allan daginn að googla hluti eða lesa fréttir á öllum
    fréttamiðlunum (eða ég vona ekki). Eins og mörg taka hlé frá því að horfa á fréttir
    taktu þér frí frá samfélagsmiðlum og njóttu annarra hluta sem láta þér líða vel.
  • Ekkert efni er fullkomið, hafðu það í huga og þegar þú flettir og þegar þú skapar.
  • Minntu þig reglulega á virði þitt, talaðu fallega til þín og um þig.
  • Settu tengsl þín við vini þína og fjölskyldu í forgang og njóttu þess að gera
    skemmtilega hluti með þeim og upplifa heiminn en upplifa heiminn í gegnum
    snjalltækið. Farðu út að leika!

– Hulda B. Waage
www.instagram.com/huldabwaage

Hulda B. Waage er móðir, matráður, rafvirkjanemi, smáhrifavaldur og margfaldur Íslands og bikarmeistari í kraftlyftingum.  

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is