Sorg og sjálfsmildi yfir hátíðarnar

Nú styttist í aðventuna og jólahátíðina, margir hlakka til en sumir upplifa blendnar tilfinningar tengdar missi og minningum. 

Á aðfangadag í ár eru 24 ár liðin frá því að faðir minn lést úr sjálfsvígi. Hann var þá 46 ára og ég 22 ára. Í september síðastliðin varð ég 46 ára. Í sumar voru níu ár síðan mamma féll frá vegna arfgengs krabbameins.

Fyrstu árin eftir sjálfsvíg pabba þá fékk ég alltaf mikinn þunga í sálina þegar leið að jólum. Sérstaklega fannst mér nóvember oft erfiður og erfiðari en desember. En ég ákvað strax eftir að pabbi lést að reyna eins og ég gæti að njóta jólanna enda ólst ég upp við mikla ást til jólanna; mamma hlustandi á jólalögin í útvarpinu allan daginn, amma bakandi 100 sortir (eða nálægt því) og afi að missa sig í jólaseríunum. Nú eru þau öll látin og ég á engin ömmu eða afa á lífi. En það sem ég geri er að reyna eins og ég get að skapa ljúfa jólastemmningu með minni fjölskyldu, taka upp fallegu jólahlutina sem amma og mamma föndruðu og segja sögur af fjölskyldumeðlimum sem eru farnir og minnast þeirra.

Fyrir nokkrum dögum síðan þegar ég var að ræða jólagjafir og skreytingar við yngsta son minn þá spyr hann „En elskar þú samt jólin mamma?“. Hann eins og bræður hans vita hvernig afi þeirra lést og það hefur ekki verið leyndarmál. Ég svaraði því sem satt er „Já, ég elska jólin og hef reynt að gera það sem ég get til að njóta þeirra, sérstaklega eftir að þið fæddust“. Það yljaði mér um hjartarætur þegar hann svarar þá að hans bestu æskuminningar eru tengdar jólum. Auðvitað hafa þau séð mig fella tár og það er kveikt á kerti við mynd af afa Bjarna þegar þau vakna á aðfangadag. Þegar við bjuggum á Íslandi fórum við alltaf með bróður mínum í kirkjugarðinn á Þorláksmessukvöld og kveiktum á kerti þannig það myndi loga fram á aðfangadag, en núna er hann svo yndislegur að gera það og senda systur sinni mynd af leiði mömmu og pabba og hjá ömmum og öfum. 

Það þyrmir yfir marga þegar styttist í jólin og einnig þegar fæðingar- og dánardagar fallinna ástvina nálgast. Síðan getur létt aðeins á fólki þegar dagsetningarnar eru liðnar. Stundum finnst okkur eins og aðrir eigi að skilja eða muna hvers vegna þyrmir yfir okkur á ákveðnum tímum ársins. En annað fólk les ekki hugsanir okkar og því getur stundum verið betra að segja beint út við okkar nánustu eitthvað á þessa leið: „Æ, veistu, núna þyrmdi bara yfir mig saknaðartilfinning, það er svo stutt í dánardaginn/afmælisdaginn/jólin.“ Persónulega finnst mér stundum hjálpa aðeins að kveikja á kerti fyrir þá sem ég er að minnast, setja uppáhaldstónlistina þeirra á fóninn og hugsa fallega til þeirra.

Á síðastliðnum árum hafa verkefnin sem ég hef unnið að nátengst föður- og móðurmissinum. Ég hef fundið mikla þörf fyrir að sinna sjálfboðastörfum í tengslum við arfgeng krabbamein. Sú vinna tengist minni reynslu að vera BRCA arfberi og lifa með aukinni áhættu á krabbameini og að hafa misst marga aðstandendur úr krabbameini. Minn drifkraftur í þessari vinnu hefur því verið mjög persónulegur og tengist sterkt krabbameini mömmu og því að við vissum ekki um BRCA meinvaldandi breytingu í fjölskyldunni fyrr en það var of seint fyrir nokkra nána fjölskyldumeðlimi. Á fimm mánuðum árið 2014 létust mamma, amma og frændi, öll úr krabbameini. Einnig hafa fleiri fjölskyldumeðlimir greinst með krabbamein.

En það er annað verkefni sem ég hef unnið að síðastliðin ár og það er ekki síður persónulegt. Bókin mín „Tómið eftir sjálfsvíg – Bjargráð til að lifa með sorginni“ kom út í fyrra. Í bókinni er að finna 12 frásagnir einstaklinga sem hafa misst ástvin í sjálfsvígi og ég deili minni eigin reynslu af föðurmissinum og að hafa misst vin sem tók eigið líf þegar við vorum unglingar. Með útgáfu bókarinnnar heiðra ég minningu þeirra beggja. Ég vona að bókin geti veitt öðrum styrk og von. Um daginn fékk ég skilaboð frá lesanda sem hittu mig beint í hjartastað:

„Vildi senda þér línu, var að klára bókina. Tek hatt minn ofan fyrir þér og óska þér til hamingju með þetta verk. Mér fannst nálgunin vel úthugsuð.  Þessi bók er gagnleg öllum, líka þeim sem hafa ekki misst nákominn úr sjálfsvígum.  Hún hefur mun breiðara notagildi þar sem hún leggur til góð og gild ráð hvernig við getum öll hlúð betur að okkar geðheilsu sem og annarra. Hún er þörf áminning fyrir okkur að vera til staðar fyrir aðra. Takk aftur og bestu kveðjur“ 

Eitt besta ráðið sem ég fékk frá einum viðmælenda mínum hljómar einfalt en getur oft verið flókið þegar um er að ræða þungt umræðuefni eins og sorg eftir sjálfsvíg en það er að tala, tala og tala. Gefa öðrum hlutdeild í sorg okkar og tilfinningum.

Sumir viðmælenda bókarinnar hafa leitað til fagaðila eftir missinn en aðrir ekki. Margir þeirra síðarnefndu hafa þó íhugað það á einhverjum tímapunkti eða séð eftir að hafa ekki gert það. Það er aldrei of seint. Jafnvel mörgum árum eftir andlát getur aðstoð fagaðila eða jafningja reynst þörf og gagnleg. Við getum haft ríka þörf fyrir að ræða þessi mál þegar önnur áföll dynja yfir síðar á lífsleiðinni. Slík áföll kunna að ýfa upp gömul og djúp sár. Það skiptir máli að reyna að láta sorgina ekki verða að stórum steini inni í okkur. Reyna frekar að hugsa þetta eins og stein sem minnkar og mýkist með tímanum, hann getur orðið að demanti eða litríkum steini þegar frá líður.

Sjálf fór ég til sálfræðings og hitti hana reglulega á meðan ég var að skrifa bókina. Þessi sjálfsvinna var löngu orðin tímabær og án hennar hefði ég líklega ekki verið í stöðu til að klára bókina, sinna formennsku Brakkasamtakanna og fjölskyldunni minni. Í hreinskilni sagt fór ég langt niður andlega á tímabili við skrifin og var búin að missa trúna á því að ég gæti klárað bókina og sinnt áfram þessum þungu málefnum sem tengjast sjálfsvígum og arfgengum krabbameinum. En með því að mæta mér af meira mildi, taka eitt skref í einu og byggja mig upp andlega þá komst ég á annan og betri stað. Munum að sýna sjálfum okkur mildi og hugsa fallega til okkar sjálfra. Komum fram við okkur sjálf eins og við myndum gera við okkar allra besta vin.

Ég lít tilbaka og fyllist auðmýkt og þakklæti til allra þeirra sem hafa stutt mig í skrifunum og á vegferðinni í tengslum við bókina og brakkann. Mitt markmið er að njóta samveru með mínum nánustu á aðventunni og um jólin. 

Gleðilega hátíð kæru vinir og fjölskylda nær og fjær. 

Bestu kveðjur frá Maryland, USA

– Anna Margrét

Instagram 
@annabdottir
@tomideftirsjalfsvig 

Anna Kristín Schecing tók fallegar ljósmyndir fyrir bókina. Bók Önnu Margrétar fæst meðal annars hér 

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG