Draumastarfið – hvað gerir okkur ánægð í starfi?

Oft eru börn spurð að því hvað þau ætli að verða þegar þau verða stór. Eftir því sem við eldumst verður þessi spurning um draumastarfið áleitnari og þegar við verðum fullorðin getur það jafnvel orðið streituvaldur að vita ekki hvert eina rétta svarið við þessari spurningu er. Hvernig finnum við draumastarfið og hvernig vitum við hvaða starf er það rétta? Hér ætla ég að gefa mér að draumastarf hvers og eins okkar sé það starf þar sem við upplifum ánægju.

Starfsánægja hefur talsvert verið rannsökuð og sýna þær rannsóknir fram á skýra fylgni starfsánægju við lífsgæði, vellíðan og almenna ánægju í lífinu. Einnig hefur verið sýnt fram á tengsl starfsánægju við bæði andlega og líkamlega heilsu og sjálfstraust. Þessi miklu áhrif starfsánægju á almenna vellíðan eru ekki skrítin í ljósi þess hve miklum tíma við verjum mörg í vinnunni og hve stór þáttur af lífinu og jafnvel sjálfsmynd okkar starfið er. Það skiptir því heilmiklu að upplifa ánægju í starfi. Þegar við köfum ofan í þær fjölmörgu rannsóknir sem gerðar hafa verið á starfsánægju má segja að það skipti hvað minnstu máli nákvæmlega hvert starfið er eða hvað þú gerir í því en meira máli með hverjum þú vinnur, fyrir hverja og hvers vegna.

Það sem við höldum að einkenni draumastarfið

Heilt yfir erum við sem manneskjur frekar slök í því að spá fyrir um hvað færir okkur hamingju. Einhver gætu talið að draumastarfið væri hæfilega auðvelt, þægileg innivinna,eins og maðurinn sagði. Góð laun eru annar þáttur sem margir telja mikilvægan eða að starfinu fylgi einhvers konar virðing og að öðrum þyki mikið til þess koma. Þegar draumastarfið ber á góma er einnig algengt að hugsa til þessa að skapa sér starfsvettvang út frá ástríðu eða áhugamálum.

En þegar kemur að starfsánægju eru þessir þættir aukaatriði. Of auðvelt starf verður fljótt leiðinlegt og við finnum ekki fyrir því að við séum að ná árangri eða að við höfum staðið okkur vel í starfi sem ekki reynir á okkur. Laun skipta máli en þegar ákveðnum þröskuldi er náð verða áhrif launa á starfsánægju nánast engin. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að hafa áhuga á því sem við gerum og það er alveg ljóst að áhugi hefur jákvæð áhrif á starfsánægju. Staðreyndin er hins vegar sú að þau áhrif eru frekar lítil. Ef eini kosturinn við starf er að það er áhugavert eru líkurnar á að finna ánægju í því afar litlar. Hin hliðin á peningnum er svo sú að ef aðrir þættir sem stuðla að starfsánægju eru til staðar getur orðið til áhugi á starfinu sem ef til vill var þar ekki áður.

Hvað einkennir þá draumastarfið?

Ef við höldum áfram að ganga út frá því að draumastarfið sé það starf sem veitir okkur ánægju er ekkert eitt einfalt svar til. Góðu fréttirnar eru þó að við höfum ýmsar vísbendingar um hvað það er sem skapar starfsánægju. Fyrst mætti nefna einstaklingsbundna þætti. Kyn og aldur skipta máli en almennt eru konur ánægðari í starfi og starfsánægja eykst með aldrinum. Einnig er fylgni á milli vissra persónueiginleika, t.d. að vera opinn persónuleiki, samviskusöm og viðkunnanleg manneskja. Einnig leiddu rannsóknir á eineggja tvíburum það í ljós að gen hafa töluvert um það að segja hvort við upplifum starfsánægju eða ekki. Þessum þáttum getum við þó ekki stjórnað og því er það til lítils gagns að dvelja lengi við þá.

Ýmsir þættir sem tengjast sjálfu starfinu eða vinnustaðnum hafa mikil áhrif á. Þessa þætti getum við sjálf haft í huga við val á starfi eða vinnustað, vinnustaðir geta lagt sig fram við að huga að þessum þáttum og við getum í mörgum tilvikum haft áhrif á þessa þætti sjálf í okkar starfi. Það eru einkum sjö starfstengdir þættir sem koma ítrekað upp sem þeir þættir sem mest áhrif hafa á starfsánægju:

 1. Að verkefnin séu fjölbreytt.
 2. Góð tengsl við samstarfsfólk og að upplifa sig sem hluta af liðsheild.
 3. Vinnuaðstæður, bæði vinnuumhverfi en líka félagslegar vinnuaðstæður og menning.
 4. Vinnuálag, sérstaklega hefur það neikvæð áhrif ef álag er of mikið.
 5. Sjálfræði, að bera ábyrgð á sínum verkefnum og geta ákveðið hvað skuli gera hvenær og hvernig.
 6. Tækifæri til að læra og þróast í starfi.
 7. Að finna tilgang og merkingu með starfinu og að sjá jákvæð áhrif þess.  

Eins og sjá má á þessum lista eru þetta ekki atriði sem auðvelt er að mæla á skýran og einfaldan máta heldur byggja þeir meira á einstaklingum og persónulegri upplifun. Hvern einasta þessara þátta má uppfylla á mismunandi hátt hjá mismunandi persónum og þarna, eins og í öllu sem skiptir máli í lífinu, þarf að klæðskerasníða svarið að hverjum og einum. Annars væru allir nokkurn veginn jafn ánægðir í sama starfi á sama vinnustað, en það er víst ekki raunin.

Samræmi á milli starfs og persónuleikans okkar skiptir líka máli í víðara samhengi en persónulegri upplifun starfstengdra þátta. Hér að framan nefndi ég ástríðu og áhuga, sem vissulega skiptir máli en þó minna máli en mörg halda. Samræmi á milli starfs og styrkleika, gilda og persónuleika eru önnur mikilvæg atriði. Ef við nýtum styrkleika okkar í starfi eru mestar líkur á að við skilum góðu verki og við það að standa okkur vel eykst sjálfstraust, gleði og eldmóður. Góð frammistaða styður líka við starfstengdu þættina hér að framan. Það er til að mynda auðveldara að auka sjálfræði í starfi eða fjölbreytni verkefna ef þú hefur sýnt fram á færni þína. Gildin þín, þ.e.a.s. það sem þér finnst mikilvægt og rétt, þurfa líka að falla að starfinu. Ef starfið gengur gegn þínum gildum er það ávísun á togstreitu og vanlíðan. Persónueiginleikar, eins og það hvernig við kjósum helst að eiga samskipti, leysa vandamál og taka ákvarðanir svo dæmi séu nefnd, hafa mikil áhrif á líðan okkar. Íhugull einstaklingur sem vill kafa djúpt og hafa alla þætti máls á hreinu þrífst illa í starfi sem krefst mikils hraða og yfirborðskenndari nálgunar.

Það að finna sína fjöl í lífinu getur gerst fyrir tilviljun en oftast nær veltur það á því að þekkja sig, eigin styrkleika, gildi og persónuleika og taka ákvarðanir út frá því. Það er svo misjafnt hversu meðvituð við erum um þessa þekkingu okkar. En þegar við erum meðvituð um það hver við erum, hvað skiptir okkur máli og hvað við viljum og hvað ekki, erum við betur í stakk búin til að taka þær ákvarðanir sem eru farsælar fyrir okkur, bæði í starfi og leik.

– Ragnheiður Björgvinsdóttir

Vefsíða: https://www.loacoaching.is/
IG: https://www.instagram.com/loamarkthjalfun/

Ragnheiður Björgvinsdóttir er markþjálfi og sérfræðingur í mannauðsmálum. Ástríða hennar liggur í því að nýta saman markþjálfun og reynsluna af mannauðsstjórnun, ráðningum og starfsþróun. Það gerir hún með markþjálfun sem hjálpar fólki að finna leið í gegnum áskoranir í starfi, hvort sem þær snúa að árangri, hvatningu, breytingum, samskiptum eða öðru. Einnig nýtir hún aðferðir markþjálfunar við að leiða fólk að draumastarfinu.

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG