Ég hef margsinnis gleymt sjálfri mér

,,Kannski er það höfuðeinkenni hjá farsælu fólki að það stuðlar að hamingju annarra.“ Páll Skúlason, heimspekingur lét þessi merku orð falla og þau bera með sér fallegan boðskap. Þessa dagana finnum við lyktina af haustinu. Gusturinn úr kápu þess er farinn að berast, kinnarnar verða blautar í göngutúrum og rútínan veldur því að við skoðum veðurspána sjaldnar.  Þá liggur beinast við að huga að því sem skiptir mestu máli, innra byrðinu okkar. Öll erum við að leita að hamingju en hver er þessi gimsteinn sem við reynum að viðhalda og skapa í senn? 

Hvert og eitt okkar er misjafnlega sett saman og við sinnum mörgum hlutverkum í lífinu. Ég er sjálf þannig gerð að ég hika ekki við að fara aukakrók, gera það sem þarf að gera svo öðrum líði vel. Sá eiginleiki er mér einfaldlega í blóð borinn og ef til vill er hann einnig minn helsti löstur því ég hef margsinnis fundið mig seka um að gleyma því mikilvægasta, sjálfri mér. Ég man eftir að kaupa allt sem aðra kann að langa í en hugsa ekki út í hvað ég myndi vilja borða sjálf. Það hefur gerst að ég hafi verið fallega minnt á það sem mestu máli skiptir þar sem ég lá í fósturstellingu að næturþeli í útilegu á meðan regnið buldi á tjaldinu. Dagurinn hafði farið í að halda gleðinni á lofti hjá ungviði fjölskyldunnar og sópa að alls kyns lostæti sem ólíka munna kynni að langa í. Helst af öllu hefði ég átt að kaupa marmelaði en það féll í skuggann af því sem aðrir þráðu og næsta morgun vaknaði ég kaffilaus og hugsaði ekki um neitt annað en glitrandi apríkósumauk á rjúkandi ostsneið. Ég gleymdi mér í að stuðla að hamingju annarra og mínar langanir fuku í  burtu eins og sjókorn í stormi.

Í flugferðum erum við rækilega minnt á það sem er þó greipt í minni allra ferðalanga: súrefnisgríman á fyrst að fara á okkur sjálf og svo á aðra. Við þurfum öll að finna taktinn í hjartanu okkar. Ég er eins og ég er og ég get bara alls ekki verið neitt annað, þótt ég reyndi. Sem betur fer er ég umkringd fólki sem hjálpar mér að vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum degi og ég leitast við að vera í návist þess. Það gefur mér súrefni á lífsins göngu.

 Ég kann að hlusta, vera til staðar fyrir þau sem eru mér kær og taka aukakrók, þó hann sé stundum torfær. Ég kann að taka við því sem er farið að valda þyngslum í bakpokum annarra og bera það nokkra metra til að einfalda yfirferð þeirra á ferðalaginu sem þetta dásamlega líf er. En það er ekki nóg. Áskorunin mín er að ég sé sjálf fyrir mig það sem ég get verið öðrum. Ég þarf að finna augnablik til að kortleggja tilfinningar mínar, vinna úr þeim, draga fram það jákvæða í mínu eigin hjarta og næra það á þann hátt sem ég ein get gert. Það má vera að það sé höfuðeinkenni hjá farsælu fólki að stuðla að hamingju annarra en til þess þarf ég að stuðla að minni eigin hamingju. Á henni ber ég ein ábyrgð.

Hvert og eitt okkar er aðeins örþunnur strengur í þessari krefjandi tónsmíð sem lífið er; strengur sem keppist samt við að uppfylla allskonar á meðan heimurinn hringsnýst. Við finnum samhljóm í ólíkum hlutverkum og með allskonar fólki. Ég get verið móðir kennari, samstarfskona, eiginkona, vinkona, systir, dóttir eða söngkona. Ég get sinnt ótal hlutverkum en samt er ég einungis einn örþunnur strengur í hljómsveitinni. Fyrst og síðast er ég þó ég sjálf og fyrir mig eina. Ef ég gleymi að sinna mér, hlusta og uppfylla mínar þarfir og muna fyrir hvað ég vil standa í þessu tónverki sem lífið er, þá er næsta víst að ég gleymi því sem skiptir mestu máli og fer að koma inn á kolröngum stöðum, næ ekki að spila í takti eða fylgja styrkleikabreytingunum. Ef ég hins vegar man eftir því að sinna sjálfri mér og gef mér tíma til að anda og hugsa þá finn ég hljóminn minn. Gleymum okkur ekki í amstri dagsins. Förum í göngutúra, hugleiðum, hlaupum, skrifum, syngjum…. gerum það sem við þurfum til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum á meðan haustið gengur í garð með hvaða sveiflum sem kápa þess kann að valda. Hlustum á hjartað og uppfyllum þarfirnar sem það hrópar á því ef við hljómum ekki ein og sér er næsta víst að við ná ekki samhljómi með neinum öðrum.

– Hulda Proppe.

Hulda Proppé er kennari, söngkona, eiginkona og móðir. Hún starfar í grunnskóla en einnig á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Auk þess starfar hún sem söngkona og hefur meðal annars sungið í uppfærslum Íslensku óperunnar frá árinu 2001. Seigla og kærleikur eru hennar uppáhalds orð; seiglan vegna þess að hún er drifkrafturinn sem hjálpar hjólunum að halda áfram að snúast og kærleikurinn því hann gerir allt fallegt og manneskjulegt. 

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG