Lærði að endurforrita heilann

Birna Dröfn Birgisdóttir, stofnandi Bulby, er sérfræðingur í skapandi og lausnamiðaðri hugsun.
/Ljósmynd: Hulda Margrét

Hvernig myndir þú lýsa þér?
Ég myndi segja að ég væri einstaklega forvitin því ég veit fátt skemmtilegra en að læra.

Getur þú lýst því sem þú ert að gera í dag og hvaða hlutverki það gegnir?
Ég er sérfræðingur í skapandi og lausnamiðaðri hugsun og hef verið að halda fyrirlestra um það og veita ráðgjöf. Einnig er ég stofnandi Bulby sem er tól sem auðveldar skapandi hugsun.

Settir þú þér markmið fyrir árið 2024?
Já ég elska að setja mér markmið því að hluti af heilanum okkar virkar eins og okkar persónulegi ritari sem ákveður hvaða upplýsingar í umhverfinu okkar við verðum meðvituð um. Með því að setja okkur markmið er líklegra að ritarinn okkar geri okkur meðvituð um tækifæri til að ná þeim.

Ég setti mér til dæmis markmið að fara enn oftar í göngutúr og var búin að sinna því ágætlega en svo sá ég póst á Facebook þar sem ein öflug kona hafði hreyft sig í hálftíma á dag í fjögur ár og það byrjaði hjá henni með 100 daga áskorun. Þegar ég sá póstinn voru akkúrat 100 dagar þar til að ég átti afmæli og þá var sko ekki aftur snúið og ég fer núna daglega í göngutúrinn minn.

Birna Dröfn ásamt eiginmanni sínum Hannesi Agnarssyni Johnson

Hvað er það mest krefjandi sem þú hefur þurft að takast á við?
Ölvaður ökumaður keyrði inn í bílhurðina sem ég sat við og eftir slysið gat ég ekki unnið. Eftir um fjögur ár af allskonar tilraunum til þess að komast aftur á vinnumarkað þá sagði endurhæfingarlæknirinn minn við mig að hann mælti með því að ég myndi hætta að reyna svona mikið að laga mig og frekar að sætta mig við stöðuna, sækja um örorkubætur og aðlaga lífið mitt að núverandi aðstæðum. 

Sem betur fer elska ég að læra og get verið þrjósk því ég hélt áfram að safna að mér upplýsingum og gera tilraunir. Ég trúði því að ég gæti lagast meira og persónulegi ritarinn minn var mjög meðvitaður um að ég vildi vera meðvituð um tækifæri til að lagast. 

Ég lærði að endurforrita heilann til að minnka króníska verki, naprapati triggeraði reglulega heilann til þess að hann myndi koma líkamanum í betra jafnvægi og ýmsar aðrar tilraunir urðu til þess að í dag get ég unnið og fylgt draumunum mínum.  Þetta var auðvitað erfitt ferðalag en ég sit eftir með mikla þekkingu á heilavirkni sem hjálpar mér að efla skapandi og lausnamiðaða hugsun fólks enn betur.

Ég hef mjög gaman af því að læra um heilann og skemmtileg staðreynd er að ef þú endurraðar stöfunum í nafninu mínu má breyta Birna í Brain.

Vinnudagarnir hjá Birnu eru fjölbreyttir

Ef þú ættir að lýsa einum vinnudegi hvernig myndi hann líta út?
Ég elska að hafa lífið mjög fjölbreytt þannig að ég á ekki lýsingu á einum vinnudegi. En það eru nokkrir fastir punktar eins og til dæmis þá byrja ég daginn á því að vakna á undan öðrum í fjölskyldunni, set airPod í eyrun og vel mér skemmtilega tónlist til að dansa við á meðan ég undirbý mig fyrir daginn og bý til morgunmatinn.

Hverjar eru helstu áskoranir þínar í dag?
Áskoranir eru frábært tækifæri fyrir okkur að efla skapandi hugsun. Þessa dagana er ég að einbeita mér að því að koma hugarflugstólinu Bulby á markað og því fylgja ýmsar áskoranir sem ég hlakka til að leysa með tilraunum.

Hver er framtíðarsýn þín?
Ég er svo spennt að fá að upplifa framtíðina því breytingar eru orðnar svo hraðar og tækniframfarir miklar og mér finnst svo gaman að upplifa eitthvað nýtt.

Ég sé fyrir mér að vera með einn besta vinnustað í heimi. Svokölluð Calm Companies eru fyrirtæki sem búa til vöru sem bæta líf fólks og fyrirtækið bætir líka líf starfsfólks með því að vera frábær vinnustaður. Það er þannig fyrirtæki sem mig langar að reka. 

Ég hef mikinn áhuga á þjónandi forystu þar sem eitt af markmiðum leiðtogans er að skapa umhverfi þar sem starfsfólk getur vaxið í bæði einkalífinu sínu og sem starfskraftur.

Spakmæli (quote) sem veita þér innblástur?
Fuck it, ship it! 😄 Það er engin vissa nema með framkvæmd þannig að ég er mjög hlynnt því að ofhugsa hlutina ekki og gera tilraunir til þess að læra.

Birna Dröfn mælir með The mom test

Bækur/hlaðvörp sem hafa haft jákvæð áhrif á þig og þitt líf?
Ég elska að lesa og hlusta á bækur og listinn er því langur. En nýlega hlustaði ég á bókina The Mom Test eftir Rob Fitzpatrick og ég mæli með að allir frumkvöðlar hlusti á eða lesi þessa bók. Hún fjallar um aðferðafræði sem er notuð til þess að finna vandamál sem fólk vill raunverulega leysa en vantar góða lausn á. Höfundurinn talar um að fólk vill ekki særa þig og sýnir hugmyndinni þinni áhuga og hrósar henni en myndi síðan aldrei kaupa hana. Þetta er auðvitað vel meint en getur leitt frumkvöðla á rangar slóðir í þróun og sölu á vörunni.

Nýr lærdómur eða aha móment?
Ég er daglega að læra eitthvað nýtt og nýlega hlustaði ég á hlaðvarp þar sem Jessie Inchauspé (The Glucose Goddess) var að tala um fjórar reglur til þess að halda blóðsykrinum jafnari. Reglurnar eru að borða alltaf savory mat á morgnana, ég veit ekki hvaða íslenska orð við getum notað fyrir savory en bragðmikið er tillaga Google Translate. Svo mælir hún með því að drekka vatnsglas með eplaediki fyrir eina máltíð á dag, hreyfa sig í 10 mín. eftir máltíð og borða grænmeti fyrir matinn. Ég er að elska það að fylgja þessum ráðum og uppskriftabókin hennar er komin á afmælisóskalistann minn.

Kona sem þú lítur upp til?
Ég á svo mikið af framúrskarandi vinkonum og hver þeirra er frábær fyrirmynd sem kennir mér eitthvað nýtt.

Byggða á þinni reynslu hvaða ráð myndir þú vilja gefa öðrum konum?
Að dansa á morgnanna 😄

Annað að lokum?
Mín helsta ástríða í lífinu er skapandi og lausnamiðuð hugsun og við erum öll skapandi en svo er svo frábært að við getum öll orðið meira skapandi. Mörg okkar eru vön að þjálfa okkur í ákveðnum þáttum fyrir vinnuna eða fyrir áhugamálið eins og til dæmis með því að fara á golf námskeið en fæst okkar eru að þjálfa okkur í lausnamiðaðri hugsun. Hvernig við hugsum hefur svo gífurleg áhrif á hvernig lífi við lifum þannig að ég mæli að við þjálfum okkur í því.

.

Ég skrifa reglulega pósta um skapandi og lausnamiðaða hugsun á LinkedIn og áhugasamir geta fylgt mér þar og það má endilega senda mér spurningar þar – https://www.linkedin.com/in/birnadb

🧠 https://www.skopunargledi.is/ – Fyrir meira skapandi og lausnamiðaða hugsun 
💡 https://www.bulby.com/ – Fyrir betri hugarflugsfundi
🙂 https://www.linkedin.com/in/birnadb – Fyrir pósta um skapandi hugsun  

Birna Dröfn Birgisdóttir er sérfræðingur í skapandi og lausnamiðaðri hugsun. Hún er stofnandi Bulby (https://www.bulby.com/) sem þróar tól sem eflir sköpunargleðina og auðveldar hugarflugsfundi. Hún hefur rannsakað hvernig efla má skapandi hugsun á meðal starfsmanna í doktorsnámi sínu við Háskólann í Reykjavík og hefur talað um það í TEDx erindi sínu. Hún veit fátt skemmtilegra en að miðla með öðrum hvernig við getum náð meiri árangri og hefur þjálfað hundruðir einstaklinga og fyrirtæki í skapandi hugsun víða um heim (https://www.skopunargledi.is/).

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is