Setti sér markmið að draga inn meiri skemmtun og gleði í lífið

Hvernig myndir þú lýsa þér?
Mjög yfirveguð en samt hugrökk. Bóngóð og velviljuð. Þykir mjög skemmtilegt að læra eitthvað nýtt. Hef alltaf haft mörg járn í eldinum og mörg áhugamál.

Getur þú lýst því sem þú ert að gera í dag og hvaða hlutverki það gegnir?
Aðalstarfið mitt er að reka jógastöðina mína, Yoga & Heilsu í Síðumúla 15. Þetta er frekar nýr rekstur og dæmigert að ég geri flesta hluti sjálf. Ég skipulegg stundaskrána, námskeiðin, kennsluna, fer út með ruslið, vökva blómin o.þ.h. Við erum átta jógakennarar sem sjáum um kennsluna og ég er virkilega heppin með kennara.

Auk jógalífsins þá er ég stjórnarformaður og einn af eigendum og stofnendum Sinnum heimaþjónustu og þar sé ég líka um bókhaldið og reikningagerðina. Sem stjórnarformaður er ég í reglulegum samskiptum við framkvæmdastjóra fyrirtækisins, endurskoðanda ofl.

Til viðbótar þessu sit ég í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands. Þar eru mánaðarlegir fundir þar sem nefndin tekur ákvarðanir m.a. um starfsleyfi, sektir ofl. á fjármálamarkaði.

Mjög svo ólík verkefni en ég hef alltaf verið með mörg ólík verkefni á minni könnu og þótt frekar hressandi að vera ekki alltaf í því sama alla daga. Ég viðurkenni þó að eftir því sem ég eldist (núna 54 ára) þá verður þetta aðeins erfiðara og ekki alltaf jafn auðvelt að skipta hratt á milli verkefna.

Hvað var til þess að þú fetaðir þessa braut?
Ekki nema von að spurt sé því þetta virkar allt óskylt. Ég er hagfræðingur að mennt og vann hjá fjármálaeftirlitinu í 11 ár eftir háskólanám og þannig enda ég svo í fjármálaeftirlitsnefndinni mörgum árum síðar. Fyrir 17 árum síðan byrjuðum við Ásdís Halla Bragadóttir að bralla við að búa til fyrirtæki á félags- og heilbrigðismarkaði. Við höfðum báðar reynslu af því í gegnum vinnu fyrir sveitarfélög hversu erfið málin eru þegar fólk þarf aðstoð heim.

Fyrsta fyrirtækið sem við stofnuðum var því Sinnum heimaþjónusta og hef ég fylgt því fyrirtæki í mismunandi hlutverkum síðan. Sinnum gengur vel og hefur aðstoðað fólk á öllu höfuðborgarsvæðinu og í nokkrum sveitarfélögum utan þess. Það er mjög gefandi að geta aðstoðað fólk sem þarf aðstoð við sínar daglegu athafnir vegna sjúkdóma, fötlunar eða öldrunar.

Jógað kom til mín fyrst þegar ég var 10 eða 11 ára og fór þá í fyrsta jógatímann minn. Í tímanum voru ýmsar æfingar og svo slökun í lokin og það var dásamleg upplifun. Þessi slökun var greinilega eitthvað sem ég þurfti. Á unglingsárunum fékk ég hins vegar fyrsta brjósklosið og síðan hef ég fengið þau nokkur. Það var því alltaf smá bras að vera í reglulegri líkamsrækt sem hentaði og af og til prófaði ég jóga en fór of geyst og bakið hrökk í lás. Þegar ég loksins fann kennara sem passaði upp á mig en ýtti mér samt hæfilega í að styrkja og liðka þá var ekki aftur snúið.

Jóga er svo magnað þegar maður nær að vinna með bæði líkamann og hugann. Slökun í lok jógatíma er ótrúlega gefandi og þó hún sé stundum ekki nema nokkrar mínútur þá er það alveg magnað hvað maður nær mikilli endurheimt í líkamanum og skýrleika í hugann. Ég ætlaði mér ekkert að verða jógakennari þegar ég fór í jógakennaranámið heldur eingöngu að dýpka þekkinguna og kynnast betur fræðunum.

Svo fór það þannig að strax eftir jógakennaranámið var ég fengin til að kenna og hef ekki stoppað síðan. Þegar ég var svo spurð fyrir 3 árum síðan hvort ég vildi koma inn í reksturinn á jógastöðinni þá sló ég til.

Ásta og Gunnar Viðar eiginmaður hennar á Þorrablóti

Settir þú þér markmið fyrir árið 2024?
Já, ég gerði það reyndar í þetta sinn og það var að draga inn meiri skemmtun og gleði í lífið. Mér fannst ég greinilega þurfa að minna mig á að fara og finna skemmtun oftar ef hún kæmi ekki til mín.

Ef þú ættir að lýsa einum vinnudegi hvernig myndi hann líta út?
Hahaha. Enginn dagur eins. Yfirleitt er ég samt heima að vinna í tölvunni fyrir hádegi en að öðru leyti eru dagarnir mjög mismunandi. Það hentar mér vel að fara rólega inn í daginn, drekka kaffibollann og lesa fréttir og helst gera eina hugleiðslu áður en ég sest við skrifborðið. Á föstudagsmorgnum er ég reyndar mætt á golfæfingu kl 8. Golf og jóga fer einstaklega vel saman og ég mæli heilshugar með þeirri samsetningu.

Fyrir utan vinnuna er ég í kór eða reyndar tveimur kórum, nokkrum saumaklúbbum með vinkonum úr grunnskóla og framhaldsskóla, bókaklúbbi og listaklúbbi og svo eigum við fjölskyldan tvo ketti og einn hund. Reyndar er alveg spurning hvort við eigum kettina eða hvort þeir eigi okkur.

Ásta undirbýr sig fyrir jógakennaranám

Hverjar eru helstu áskoranir þínar í dag?
Mín helsta áskorun þessa dagana er að undirbúa mig undir jógakennaranám sem ég ætla að sækja næstu vikurnar. Þá sest ég aftur á skólabekk/jógadýnu og læri örugglega eitthvað nýtt í jógakennslu. Eitt það besta við jóga fyrir manneskju eins og mig er að það er endalaust hægt að auka við þekkinguna í jóga. Svo samtvinnast það auðvitað þessari eilífu leit að hamingjunni sem kemur með sjálfsþekkingu og þar með núvitund.

Helsta áskorunin í rekstri jógastöðvar er sú að halda í sýnina um metnaðarfulla kennslu á einstaklingsmiðaðan hátt og í góðum anda en þurfa á sama tíma að vera nógu almenn stöð til að fá nógu miklar tekjur til að geta greitt leigu og laun. Hjá Yoga&Heilsu höfum við sérhæft okkur í því að kenna jóga þannig að allir geti stundað jóga, líka þeir sem eru að fást við meiðsli, sjúkdóma, ofþyngd eða hvaðeina annað og teljum okkur hafa náð að gera það alveg þokkalega.

Hér höfum við upplifað smáa sem stóra sigra fólks sem hafði takmarkaða trú á sér í hreyfingu eða ró. Við erum með mjög vandað jóga, bæði slökunar- og hreyfijóga og höfum lagt mikið á okkur til að halda hlýlegu umhverfi og góðu samfélagi iðkenda. Húsnæðið okkar í Síðumúlanum hýsti eina af fyrstu jógastöðvum í Reykjavík og það er alveg einstaklega góður andi í salnum sem við erum mjög heppnar með að fá að njóta.

Hver er framtíðarsýn þín?
Að halda alltaf áfram að læra meira og meira og vera að eilífu forvitin um hluti sem eru út fyrir mitt box.

Byggða á þinni reynslu hvaða ráð myndir þú vilja gefa öðrum konum?
Að finna og vinna með eigin styrkleika og vera óhræddar að sækja sér aðstoð við hitt.

– Ásta Þórarinsdóttir

Heim – Yoga & Heilsa (yogaogheilsa.is)

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is