Það þarf að laga umhverfið að barninu ekki barnið að umhverfinu

Þegar fólk hugsar um börn og ungmenni sem forðast skólann eða mæta illa, er fólk oft fljótt
að stimpla það sem hegðunarvanda barnsins/ungmennisins eða sem foreldravanda. Að ætla að setja þetta fram þannig að þessi börn þurfi einungis meira aðhald eða meiri aga getur valdið meiri skaða fyrir börnin. Það þarf ávallt að skoða það að vandinn er dýpri og þess vegna þarf alltaf að huga að því hver rótin sé. Ekki má líta framhjá þeirri staðreynd að skólaumhverfið eins og það er sett upp er ekki hentugt fyrir alla nemendur.

Skólaforðun er vandamál sem er raunverulegt innan grunnskóla og talað er um að
afleiðingar geti verið mjög alvarlegar. Það er rétt en mér finnst vert að snúa þessu við og tala
um skólaforðun sem alvarlega afleiðingu þess að barni líði það illa að ómeðvitað eða
meðvitað sé það farið að forðast skóla að fullu eða öllu leyti. Engu að síður er ekki hægt að
mótmæla því að skólaforðun ýtir í fleiri tilfellum en færri undir meiri vanda eins og
félagslega einangrun, að barnið dragist úr námslega og fleira.

Ég vil trúa því að börn geri vel ef þau geta, og ef þau geta ekki, skilja ekki hvað er
ætlast til af þeim eða þeim líður ekki vel, þá brýst það oftast út í hegðun
Ástæðan fyrir því er að þau kunna ekki að tjá vanlíðan sína með orðum. Það erum við
fullorðna fólkið sem þurfum að finna út úr því hvað veldur hegðuninni, þ.e.a.s rót vandans.
Rótin getur verið af ólíkum toga og það þarf þolinmæði til að vinna í því að koma auga á
hana. Það er ekki hægt að minna nógu mikið á hvað samstarf heimilis og skóla er mikilvægt í
þessu samhengi og einnig getur verið nauðsynlegt að kalla til annarra fagaðila til að meta
stöðuna. Oft er skólinn búinn að reyna að grípa til þeirra lausna sem hann hefur og í flestum
tilfellum er starfsfólk skólans allt af vilja gert að finna úrbætur og aðstoða þannig að börnum
líði vel. En því miður getur það staðið og fallið með viðhorfum þess sem vinnur með barninu
hvort vandinn sé raunverulega viðurkenndur og þá því viðhorfi að aðlaga þurfi barnið að
bekknum, náminu og skólaumhverfinu en ekki öfugt; að aðlaga þurfi allt ofantalið að
barninu.

Þegar rýnt er í það hvað gæti verið að valda ofsakvíða gagnvart mætingu í skóla og
skólaforðun eru ótal ástæður sem geta legið að baki
Þess vegna getur verið afar nauðsynlegt að fá álit fagaðila. Kennari getur ekki tekið að sér að
finna né vinna með vandann einn upp á eigin spýtur heldur er virkilega mikilvægt að hann fái
þann stuðning sem nauðsynlegur er. Það eru óraunhæfar kröfur að ætlast til þess að
manneskja menntuð á sínu sviði sem kennari sé líka sérfræðingur á mörgum öðrum sviðum.
Góð þverfagleg teymisvinna er því lykilinn að góðum árangri.
Þegar barn eða ungmenni er komið á þann stað að vilja ekki mæta í skólann er
vandinn oft orðinn mikill. Hann er samt ekki endilega óviðráðanlegur þótt staðan gæti virst
þannig og þá kannski sérstaklega fyrir foreldra. Sá hópur sem talað er um að sé líklegastur til
að eiga erfitt með skólaumhverfi og þær kröfur sem gerðar eru í skóla eru einhverf börn í
almennu skólakerfi. Þau eru talin vera sex sinnum líklegri en önnur börn til að eiga erfitt með
skólamætingu.

Það eru þó aðrar ástæður sem geta orsakað slíka forðun og hér má sjá nokkrar af þeim. Þetta er ekki tæmandi listi.

Þegar rót vandans er fundin þarf að vinna með barninu en það felur ekki í sér eina rétta leið og oft tekur tíma að finna réttu lausnirnar Samkvæmt 19. grein grunnskólalaga (nr. 91/2008) kemur fram að foreldrar beri ábyrgð á skólasókn barna sinna og þeim beri að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við barnið sjálft og skóla. Ef barn sinnir ekki mætingaskyldu í skóla án viðeigandi ástæðna skal skólastjóri í samvinnu við barn og forráðamann þess leita lausna. Ef þær lausnir bera ekki árangur ber skólastjóra að tilkynna málið til barnaverndaryfirvalda sem taka við málinu og leita lausna. Mig langar að fá að velta upp einni spurningu varðandi þessa setningu í lagagreininni: „Ef barn sinnir ekki mætingaskyldu í skóla án viðeigandi ástæðna”. Hvað er viðeigandi ástæða? Þetta er í raun frekar vítt hugtak og ekki myndu allir svara þessari spurningu á sama hátt. Ég tel að barn hætti ekki að vilja mæta í skóla nema það sé viðeigandi ástæða. Málið er bara að finna hana og að hafa í huga að ástæðuna er ekki alltaf hægt að rekja til skólans, heldur getur líkamleg eða andleg heilsa haft áhrif á mætingu. Barnið getur hafað lent í einhverju, mögulega áfalli sem bitnar á skólaskyldu þess eða vandi getur verið innan fjölskyldu o.s.frv. En ég tel það jákvætt að sé vandinn kominn á alvarlegt stig, þá stígi skólastjórnendur inn í málið og aðstoði. Ef barnavernd getur boðið upp á viðeigandi úrræði sem aðstoða barnið og fjölskyldu þess myndi ég ætla að flestum þætti það velkomið. Oft geta kennarar og foreldrar því miður upplifað sig ráðalaus og þess vegna ítreka ég mikilvægi utanaðkomandi fagaðila og líka hversu nauðsynlegt er að gott aðgengi sé að þjónustu þeirra. Foreldrar þurfa að geta leitað ráða óháð sinni fjárhagsstöðu og þó stundum sé nóg að viðtal fari fram einungis við foreldra/forráðamenn þá getur það verið afar gagnlegt að viðkomandi fagaðili komi að einum eða fleiri teymisfundum eða kennarafundum í skólanum. Oft þarf að grípa í það að gera nám einstaklingsmiðaðra og stundum þarf að aðlaga umhverfið að þörfum viðkomandi. Barnið gæti einnig þurft að mæta í reglulega tíma innan eða utan skólatíma til viðeigandi fagaðila. Það er þó þannig að það getur því miður verið bið eftir að komast inn í viðeigandi úrræði og þess vegna þurfa þeir sem vinna með barninu innan skólans að geta gert plan sem hægt er að byrja að vinna með strax. Gagnlegt getur verið að gera markmið sem eru brotin upp í mörg smærri markmið. Það getur verið nauðsynlegt að byrja á að minnka kröfur til barnsins og byrja hægt, þannig gæti barnið verið líklegra til samstarfs. Þegar barnið er farið að upplifa að það ráði betur við stöðuna þá er hægt að endurskoða málin. Það ætti alltaf að vera aðal markmiðið að fá barnið til að mæta inn í skólann og að því líði vel þar og upplifi sig öruggt. Það er grundvallaratriði svo að hægt sé að ná öðrum markmiðum. Það fer ekki mikill lærdómur fram ef barninu líður illa. Þegar það fer að finna að það ráði við að vera í skólanum og hafi tök á kröfunum eða að það sé öruggt, fær það líka aukið sjálfstraust sem ýtir undir að barnið verði meira tilbúið að fást við erfiðari verkefni.

Það að líða vel í grunnskóla ýtir undir velgengni í framtíðinni

Rannsóknir hafa sýnt að þeim börnum sem líður vel í grunnskólagöngu sinni séu líklegri til að vegna vel og verða hamingjusöm í framtíðinni. Að sjálfsögðu er það ekki eini áhrifavaldurinn og alls ekki samasem merki að ef illa gengur í grunnskóla vegni viðkomadi ekki vel. Ástæðan fyrir að ég vil setja þennan punkt með er einungis til að sýna fram á það hversu mikilvægt það er að við séum til staðar fyrir börn á þeirra menntavegi.

– Sara Rós

Höfundur greinarinnar er Sara Rós Kristinsdóttir. Hún heldur úti Instagram-síðunni Lífsstefna sem er fræðslumiðill. Einnig er Lífsstefna með fræðslu á ensku á Tik Tok undir nafninu adhdsara, en það er fræðsla um ADHD, einhverfu og geðheilsu. Sara er menntuð sem félagsliði, NLP markþjálfi, barnajógakennari og hefur lokið grunn- og framhaldsnámi í ráðgjöf. Sara á sjálf tvo einhverfa stráka sem hafa báðir glímt við skólakvíða.

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG