Berrassað NEI er heil setning

NEI því miður get ég það ekki.

Sagði manneskjan sem er læknuð af manneskjugeðjun.

Án útskýringa. Án réttlætinga. Án afsakana.


Að ofurútskýra af hverju við getum ekki gert eitthvað fyrir náungann er bjargráð sem við þróum úr barnæsku sem viðbragð við að vera smánuð, skömmuð, beitt þagnarbindindi eða fýlustjórnun fyrir að voga okkur að setja eigin þarfir framar öðrum.

Þegar við ofurútskýrum bætum við inn alltof mörgum smáatriðum sem skipta engu máli í þessu samhengi. Allskonar er dregið inn sem ástæða fyrir að segja NEI. Fjölskylda. Veikindi. Bilaður bíll. Að við séum rosa sorrý. Lofum gulli og grænum skógum að segja JÁ næst. Vonandi sé enginn fúll. Að við séum ekki að rústa deginum fyrir viðkomandi.

Við tökum eftir að við erum byrjuð að svitna á rasskinnunum í öllum þessum orðaflaumi og verðum enn meira kvíðin og stressuð.

Handarkrikarnir eru löðrandi en við höldum áfram að ræpa út afsökunum.

Eftirá skömmumst við okkar fyrir að blaðra svona mikið.
En það var bara litla barnið í okkur að vernda okkur fyrir að vera ekki skömmuð fyrir að setja mörk.
En fullorðið fólk getur sett skýr mörk.
NEI getur alveg staðið berrassað.

Nei er heil setning. Þú skuldar engum útskýringar eða afsakanir á þínu „NEI-i“

Þú þakkar fyrir kurteisislega og dúndrar svo inn NEI-inu.

“Takk fyrir að bjóða mér en ég kemst því miður ekki.”
“Nei það hentar mér ekki akkúrat núna.”
“Það hljómar mjög vel, en ég get það því miður ekki á þessum tímapunkti.”
“Takk fyrir að hugsa til mín, en ég ætla að taka því rólega í kvöld.”
“Þessi kaka lítur mjög vel út, en ég ætla að afþakka sneið núna.”

NEI getur alveg staðið berrassað í setningu.

Æfðu þig að segja fyrst berrassað NEI án afsakana í auðveldum samböndum.
Til dæmis í tölvupósti í vinnunni við vinnufélaga.
Fikraðu þig síðan smám saman upp í að segja berrassað NEI án útskýringa maður á mann í erfiðum samböndum.

Númer eitt tvö og átján.
Þú berð ekki ábyrgð á tilfinningum annarra.
Þú berð ekki ábyrgð á hvernig aðrir bregðast við þínum mörkum.

Oftar en ekki ofmetum við tilfinningaviðbrögð annarra. Svekkelsi húsfreyju yfir óétinni kökusneið varir yfirleitt afar stutt. Siggi frændi finnur annan til að flytja sófann með sér. Gulli nágranni fær pössun fyrir hundinn annars staðar.

Prentaðu inn í harðadrifið öll tilfellin þar sem þú sagðir NEI og fékkst ekki hurðina í smettið.

Hvert einasta JÁ er NEI við allskonar fyrir þig, makann, börnin.

Hvert einasta NEI er JÁ við meiri tíma, orku og athygli fyrir þína nánustu.

Því þú segir „JÁ“ á hátíðni við að baka hundrað múffur fyrir fjáröflun í íþróttafélaginu.
En á sama tíma fara börnin og makinn í sund eða á skíði á meðan þú stendur heima og hrærir í helvítis deigi og löðrar röndóttu smjörkremi í sprautupoka.
Þú átt rétt á að segja NEI án þess að því fylgi afsökun eða löng og flókin útskýring.

Þú þarft líka að hunsa röddina sem reynir að tala þig útúr samviskubitinu yfir að segja NEI. Þessi rödd er þóknunarhneigðin þín að garga á þig. Rétt eins og leiðinlegt lag í útvarpinu þá geturðu lækkað, slökkt, eða bara leyft því að flæða í bakgrunninum.

Þú færð ekki hæðnisbréf þó þú segir NEI.

Yfirleitt þýðir þitt NEI ekki lok vinasambands eða útskúfun úr samfélagi mannanna.
Þú færð ekki hæðnisbréf frá ríkisstjórninni.

Strippaðu NEI-ið þitt niður í berrassað og einmana eins oft og þú getur.

Það er stórt skref í átt að öflugra sjálfstrausti, og þannig sífellt minni meðvirkni.
Það dýpkar og styrkir samböndin þín og minni streitu og kvíða.

Að setja öðrum mörk verndar orkuna þína. minna stress. meira sjálfstraust og betri sjálfsmynd.

– Ragga Nagli

Sálfræðiaðstoð: ragganagli79@gmail.com
Facebook: RaggaNagli
Instagram: @ragganagli 

Ragga er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði, og einnig lærður einkaþjálfari. Hennar sérsvið eru vandamál tengdum ofáti, lotuofátsröskun og ofþyngd. Svart-hvítar hugsanir tengdar mataræði og vítahringur sektarkenndar, ofáts, stífrar megrunar og óánægju með ytra útlit.

Ragga verður með námskeið í sjálfseflingu og að setja mörk 20. og 21. október. kl 13-16 ásamt Helga Ómars. Skráning raggaoghelgi@gmail.com



AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is