Fólk í óvígðri sambúð getur ekki gert kaupmála

Elín Sigrún Jónsdóttir, lögmaður, er stofnandi fyrirtækisins BÚUM VEL, sem er sérhæfð lögfræðiþjónusta er veitir ráðgjöf á sviði erfða-, fjármála, og fasteignaviðskipta.

Þá veitir hún viðskiptavinum stuðning og ráðgjöf við einkaskipti dánarbúa og ýmsa löggerninga á sviði erfða- og hjúskaparéttar. Fyrirtækið veitir nýja tegund þjónustu á íslenskum fasteignamarkaði, það er ekki fasteingasala, heldur sérhæfð lögmanns- og fjármálaþjónusta. Viðskiptavinir njóta aukinnar þjónustu við fasteignasölu, en greiða ekki aukalega fyrir þá þjónustu.

Hvað varð til þess að þú valdir þennan starfsvettvang?

Fyrir þremur árum síðan, þegar ég var að nálgast sextugt, stóð ég á tímamótum. Ég varð að hætta í vinnunni sem ég var mjög ánægð í vegna áhrifa myglu á vinnustaðnum á heilsu mína. Ég hugleiddi þá hvað kann ég best, hver er reynsla mín og hvar liggur ástríðan? Svarið var að það væri ráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta, fjármála heimilanna og erfðaréttur. Ég hef starfað sem lögfræðingur, lögmaður, markþjálfi og framkvæmdastjóri, bráðum í fjóra áratugi, fyrir fjölmörg fyrirtæki og stofnanir og á að baki fjölbreyttan feril, m.a.starfaði ég fyrir Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, Eignamiðlun, Byko, félagsmálaráðuneytið, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, var framkvændastjóri dómstólaráðs og starfaði sem framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna og rak þar m.a. lögfræðideild. Það má því segja að þjónusta fyrirtækisins sameini þekkingu, reynslu, hæfileika og ástríðu mína og það er mikið þakkarefni að fá að sinna slíkum verkefnum og að vera treyst fyrir þeim.

Hverjar eru helstu áskoranir viðskiptavina þinna?

Flestir viðskiptavina minna eru giftir eða í sambúð og eru á miðjum aldri. Þeir eiga það gjarnan sameiginlegt að huga að öryggi sínu ef annar aðilinn fellur frá eða ef til skilnaðar kemur. Þau vilja því fá fræðslu um möguleika sína til að undirrita erfðaskrá og eða kaupmála. Sum eru að undirbúa að ganga í hjónaband og eiga töluverða eignir og vija gjarnan gera um þær kaupmála, ef til skilnaðar kemur.  Aðrir vilja tryggja rétt sinn eða maka síns til setu í óskiptu búi. Ef hjón eiga börn frá fyrri samböndum og vilja tryggja rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi, þá þarf viðkomandi að skrá þann vilja með erfðaskrá, til að þurfa ekki að eiga heimildina undir stjúpbörnum. Þá er algengt að fólk sem hefur búið lengi í sinni eign, sé óöruggt með að fara út á fasteignamarkaðinn, það þarfnast aukins stuðnings, hefur e.t.v. ekki selt né keypt fasteign í áratugi. Þá eru fjölmargir sem vilja tryggja það að arfur barnanna verði þeirra séreign í hjónabandi. Loks aðstoða ég mikið af fólki sem þarfnast aðstoðar við skipti dánarbúa. 

Hvað ráðleggur þú fólki sem er að hefja sína fyrstu sambúð og jafnvel
kaupa sína fyrstu sameign?

Ég ráðlegg þeim að þinglýsa eigninni í þeim hlutföllum sem sýnir raunverulegt framlag til fjárfestingarinnar. Ungt fólk er oft upptekið af því að eignin sé þinglýst 50% á nafn hvors um sig. En í mörgum tilvikum hefur annað kannski fengið fyrirframgreiddan arf frá foreldrum eða átt umtalsvert meira eigið fé en hitt og þá getur verið mikilvægt að þinglýsingin varpi ljósi á raunverulegt framlag, ef til sambúðarslita kemur.

En þeim sem eru að hefja sambúð seinna í lífinu með börn og eignir og er mikinn munur á þessum tveimur hópum?

Já, reynslan segir til sín. Fólk sem hefur gengið í gegn um skilnað vill sannarlega ekki gera sömu mistökin tvisvar. Það er algengt að sá hópur vilji tryggja sig með gerð kaupmála, tryggja rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi og einnig að tryggja arf barna sinna.

Hvaða hluti er fólk ekki að ræða sem mikilvægt er að ræða?

Þá kemur staða fólks í sambúð fyrst upp í huga minn. Margir halda að erfðaréttur skapist milli sambúðaraðila eftir tiltekinn árafjölda.  Svo er ekki, það skapast enginn erfðaréttur þó svo að sambúð vari í þrjá áratugi eða lengur. Það getur hins vegar skapast réttur til bóta eftir tiltekinn tíma í skráðri sambúð hjá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum og oft ruglar folk þessu tvennu saman. Fólk í óvígðri sambúð getur ekki gert kaupmála og það hefur ekki rétt til setu í óskiptu búi. Sambúðarfólk getur hinsvegar arfleitt hvort annað og samið um skiptayfirlýsingu ef til sambúðarslita kemur. Þá er réttarstaða fólks við andlát sambúðarmaka oft snúin hvað varðar aðkomu að útfararundirbúningi, þar sem ekki er um erfðarétt að ræða.

Hvaða fimm ráð vilt þú gefa lesendum salina.is?

Ég er oft spurð um þetta, hvað er það sem allir ættu að gera? Ég svara þessari spurningu jafnan með annarri spurningu: Hver ertu? Hver er þín hjúskaparstaða? Ert þú í hjónabandi eða í sambúð? Átt þú börn og eða stjúpbörn? Ert þú ekkja/ekkill? Og hvernig vilt þú að fari um eigur þínar ef til skilnaðar kemur eða hverjir vilt þú að erfi þig eftir þinn dag? Ég legg mikla áherslu á fræðsluþáttinn. Ég legg áherslu á að heyra hverjar eru óskir fólks og væntingar. Það er mikilvægt að fólk viti hvernig löggjafinn reiknar með að fólk vilji að skiptin verði ef til skilnaðar eða andláts komi og jafnframt hvaða möguleikar eru í stöðunni. Að fólk þekki rétt sinn, að það viti hverju hægt sé að breyta.

Annað sem þú telur mikilvægt.

Ég vil minna þau sem eru að fá arf frá foreldrum eða öðrum ástvinum, sem er háður þeirri kvöð samkvæmt erfðaskrá að arfurinn skuli vera séreign í hjúskap, að virða þá kvöð. Þeim sem hafa sett slíkt ákvæði í erfðaskrá sína er mikilvægt að svo sé. Ef barn foreldra sem hafa sett slíka kvöð á arfinn skilur t.d. eftir 5 árum eftir að það fékk arfinn, þá getur verið örðugt að sanna það hvað gert var við arfinn til að tryggja að hann standi utan skipta eins og vilji arfleiðanda var, nema hugað hafi verið sérstaklega að því að halda þeirri eign aðskildri. Það getur erfinginn t.d. gert með kaupmála við sinn maka eða haldi eigninni aðgreindri með öðrum sannarlegum hætti.



Sjá nánar. www.buumvel.is

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is