Brennur fyrir hjartahlýrra samfélagi

Getur þú lýst því sem þú ert að gera í dag og hvaða hlutverki það gegnir?
Ég starfa í hlutastarfi sem tengslaráðgjafi á fjölskyldusviði Skagafjarðar og svo er ég með eigið fyrirtæki sem heitir Ég er unik, þar sem ég starfa sem fyrirlesari, meðferðaraðili (þerapisti) og ráðgjafi fyrir foreldra og skóla. Ég býð sem sagt uppá heildarlausn allt frá vitundarvakningu til þjálfunar og meðhöldunar til þess að skilja tilfinningaviðbrögð, bæði barnanna okkar sem og okkar sjálfra.

Hvað varð til þess að þú fórst að gera það sem þú ert að gera í dag?
Ég var lengi vel að starfa við stjórnun og markaðsmál en líf mitt snérist á hvolf þegar dóttir mín fékk einhverfugreiningu fyrir 12 árum síðan. Þá fór allur minn fókus í að skilja og eftir það var ekki aftur snúið. Ég brenn fyrir hjartahlýrra samfélagi þar sem er pláss fyrir fjölbreytileika, samkennd og samstöðu. Ég upplifi það svo sterkt í gegnum börnin mín tvö sem ekki hafa átt auðvelda tíma í skólakerfinu.

Segðu mér aðeins frá nýja fyrirlestrinum þínum. Hver var kveikjan að honum?
Kveikjan að honum kom þegar ég var á erfiðum stað í mömmuhlutverkinu og stóð frammi fyrir erfiðri hegðun barnsins míns. Ég upplifði að ég gengi á eggjaskurnum og vissi ekki hvernig ég gæti aðstoðað barnið í tilfinningaviðbrögðum sínum og oftar en ekki gerði ég illt verra með skömmum og refsingum. Tengslin okkar voru komin í þrot. Ég hafði í langan tíma haldið fyrirlestra um að horfa framhjá hegðun og aðstoða barnið með rót vandans, en þarna náði ég ekki að framfylgja því, vegna þess að ég triggeraðist svo mikið sjálf.

Ég fór á þessum tíma í nám hjá EQ Institute í Osló (EQ =tilfinningagreind) og í þessi þrjú ár sem ég stundaði nám mitt, var ég meirihluta tímans sjálf í þerapíu og náði smám saman að skilja hvaðan triggerarnir mínir komu úr minni eigin barnæsku og það sem mikilvægara er – að mæta þeim og meðhöndla.

Ég lagðist svo í enn frekari rannsóknarvinnu við að skilja líffræðina á bak við okkar tilfinningaviðbrögð, bæði barnsins og mín eigin. Samlegðaráhrif þessa skilnings ásamt samkennd í eigin garð urðu til þess að líf okkar breyttist. Þessum áhrifum langar mig til þess að deila út í samfélaginu.

Hvaða vanda erum við að glíma við og hver er rótin?
Mín skoðun er sú að við erum að einblína of mikið á að ná stjórn á hegðun í stað þess að skilja að hegðun er einkenni – einkenni fyrir undirliggjandi vanda sem liggur í einhvers konar óuppfylltri, tilfinningalegri grunnþörf;  Líkar einhverjum við mig?  Skilur mig einhver?  Er ég elskaður/elskuð?  Ég líki því stundum við að pirra á sig á pípandi reykskynjaranum á meðan húsið brennur.

Við tölum hátt um hegðun í fjölmiðlum og viljum ýmsar aðgerðir til þess að stöðva og stýra hegðuninni, en upplifum á sama tíma að refsingar og verðlaunakerfi virka afar illa. Það er vegna þess að með slíkum stjórntækjum erum við ekki að leysa grunnvanda barnsins. Það er að eiga sér stað hugarfarsbreyting í heiminum um hvernig við hugsum um hegðun og hún er byggð á vísindum taugalíffræðinnar og heilaþroska.

Í stuttu máli fjallar hugarfarsbreytingin um að börn (og fullorðnir) eru alltaf að gera sitt besta. Þegar barn „hegðar sér illa“, þá er alltaf ástæða. Það er okkar ábyrgð sem fullorðin erum að hjálpa barninu að komast að því hver raunverulegur vandinn er.

Hverjar telur þú að helstu áskoranir okkar sem foreldra séu?
Ég held að í fyrsta lagi skortir okkur flest þekkingu á áhrifum uppeldisáfalla og heilaþroska til þess að skilja á hvað liggur á bak við hegðun barnsins. Í annan stað, fyrir þá sem hafa öðlast skilning og þekkingu, þá geta eigin triggerar hamlað því að við náum að mæta barninu á virðingafullan hátt eða að við náum ekki að jafnvægisstilla (co-regulate) taugakerfi barnsins með okkar. Þessi jafnvægisstilling er grunnurinn að heilbrigðum heilaþroska barns og stuðlar að því að byggja upp jákvæða sjálfsmynd til frambúðar.

En sem samfélag í heild sinni?
Sömu áskoranir gilda fyrir samfélagið í heild, sérstaklega fyrir stofnanir sem koma að börnum. Ég vildi óska þess að þekking á uppeldisáföllum og taugakerfi væri grunnþekking í kennaranámi, inná heilsugæslustöðvum og í löggæslukerfinu okkar. Við þurfum að tala meira um tilfinningarnar okkar, hafa samkennd með næsta manni og standa meira saman.

Að tilheyra er manneskjunnar sterkasta grunnþörf. Að vera hafnað er manneskjunnar stærsti grunnótti. Við erum á villigötum ef við höldum að menntastofnanir sinni ekki uppeldi. Þar inni eru börn sem flest hver eru ekki hálfnuð með sinni heilaþroska, þau verða fyrir áhrifum frá fullorðnum hverja sekúndu og hvernig talað er við þau og komið er fram við þau hefur gríðarleg áhrif á sjálfsmynd þeirra og liðan. Með því er ég á engan hátt að fría foreldra undan sömu ábyrgð. Ég vil bara að við séum öll saman í liði – þetta á ekki að vera kennarar vs. foreldrar.

Ég hef alltaf talað fyrir árangursríku samstarfi heimilis og skóla, að það sé lykillinn að velferð barns. Stundum er staðan sú að foreldrar eru ekki færir um að sinna tilfinningalegum þörfum barns og þá hefur skólastarfsfólk tækifæri á að vera til staðar og öfugt. Stundum er nóg fyrir barn að hafa einn aðila í sínu lífi sem sér, hlustar og skilur – það getur bjargað lífi barns. Mig dreymir því um að við hættum þessari deilu um hver sinnir hverju, hættum að benda á hvort annað og áttum okkur á að velferð barns hefst alltaf þegar því er mætt í sínum tilfinningalegum grunnþörfum, þegar því líður vel. Þá getur barn lært, leikið, eiginast vini og „hagað sér vel“.

Hvernig getum við bætt líðan og öryggi barna?
Með því að við sem fullorðin erum kynnum okkur vísindin á bak við hegðun barna og þjálfum okkur í þeirri hugsun að barn er alltaf að gera sitt besta. Með því að við öxlum þá ábyrgð að þeirra vellíðan er okkar sameiginlega ábyrgð og með því að við höfum hugrekki til þess að horfa á spegilinn og velta fyrir okkur; Hvernig er ég í samskiptum við barnið? Hvað segi ég? Hvað geri ég? Og það sem mikilvægast er; Hvernig læt ég barninu líða?

Þetta er ekki auðvelt, trúið mér! Ég hef staðið sjálf í þessu verkefni og það er ekki gott að finna fyrir tilfinningum eins og skömm og ótta við að mistakast eftir að hafa runnið á rassgatið í samskiptum mínum við börnin mín. En á sama hátt sem þetta er ótrúlega krefjandi – að axla þessa ábyrgð og virklega vera undrandi yfir hvað liggur að baki hegðuninni – að virkilega sjá barnið, hlusta á það og umfram allt virða þeirra tilfinningar, þarfir og mörk. Þá er þessi vinna einnig mjög valdeflandi. Það er mögnuð tilfinning að finna hversu mikil áhrif ég get haft á tilfinningalif barnsins míns með því að bæta mína eigin tilfinningafærni. Velferð barna hefst með velferð fullorðna fólksins.

Hver er framtíðarsýn þín?
Mín framtíðarsýn er kærleiksríkt samfélag þar sem við trúum því að allir séu að gera sitt besta – alltaf! Að við fullorðna fólkið hefjum þá vegferð að skoða okkar triggera, horfum í spegilinn með auðmýkt, undrun og sjálfsmildi. Styðjum hvort annað. Verðum góð við hvort annað og bjóðum fram hjálp. Hættum að segja „ég er fínn“ þegar einhver spyr þig hvernig þú hafir það, verum hreinskilin um okkar tilfinningar, þarfir og mörk. Ég er nokkuð viss um að þetta mun smita niður á börnin okkar.

Bækur/hlaðvörp sem hafa haft jákvæð áhrif á þig og þitt líf?
Ég mæli með öllu fagfólki og vísindafólki sem fer fremst í flokki þessarar nýju hugarfarsbreytingu. Bækur og hlaðvörp með dr. Gabor Maté eru þar fremst í flokki. Önnur nöfn sem ég vil nefna og hægt er að googla eru td: dr. Mona Delahooke (Beyond Behavior), Dr. Ross Greene (The Explosive Child), Bessel Van der Kolk, dr. Becky Kennedy, Kristín Marella (respectful mom), Dr. Russel Kennedy (the Anxiety MD) ofl.

Nýr lærdómur eða aha móment?
Minn stærsti lærdómur var nám mitt í EQ-terapi hjá EQ Institute í Osló. En þessi stofnun var stofnuð af íslenskum mæðgum, þeim Herdísi Pálsdóttur og Dóru Þórhallsdóttur. Klárlega mest krefjandi nám sem ég hef farið í og það sem ég er mest stolt af í lífi mínu.

Byggða á þinni reynslu hvaða ráð myndir þú vilja gefa öðrum?
Stundaðu sjálfELSKU. Þín tilfinningalega velferð er dýrmætasta gjöfin sem þú gefur barninu þínu eða barninu sem þú vinnur með.

.

Aðalheiður Sigurðardóttir er menntaður Tilfinningaráðgjafi frá EQ Institute í Osló. Hún býður upp á vitundarvakningu um hvað liggur á bak við tilfinningaviðbrögð okkar í formi fyrirlestra og námskeiða.

Fyrir alla sem vilja byrja að skilja, þá er hún með opinn netfyrirlestur þann 8.sept um hvað liggur á bak við erfiða hegðun: Ég er unik | Fyrirlestur um erfiða hegðun (egerunik.is). Tveimur vikum síðar er hún með framhaldsfyrirlestur um hvað liggur á bak við okkar eigin triggera fyrir alla sem vilja hefja þá vegferð að skilja sínar eigin tilfinningar: Ég er unik | Fyrirlestur um tilfinningagreind (egerunik.is)

Þar að auki heldur hún reglulega fyrirlestra og námskeið fyrir foreldra, skóla-og leikskólafólk. Einnig er með á teikniborðinu lengra námskeið sem ber keim af þeirri menntun sem ég hlaut hjá EQ Institute. Ef þú vilt fylgjast með, þá hvet ég þig til þess að skrá þig á póstlistann minn á vefsíðunni www.egerunik.is

Instagram: Egerunik

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is