Armæða

Í sumar skrifaði ég hvern armæðu pistilinn af fætur öðrum. Ef verðlaunin „svartsýnasti Íslendingurinn“ væru veitt árlega þyrfti ég án nokkurs vafa að rýma fyrir orðunni í glerskápnum mínum, sem ég reyndar á ekki. Ég birti þá aðeins á Facebook-síðunni minni, sem að barna minna sögn, er miðill sem aðeins fólk á dvalarheimilum skoðar, svo hallærislegur er hann. Er því ekki kjörið að hann komist víðar en á Hrafnistu og Grund? Þeir sem kjósa að sleppa við hrútleiðinlegan formálann og fara beint í kökuuppskriftina er bent á að skrolla niður í línu 85 héðan í frá, eða eitthvað svoleiðis. Hún, uppskriftin allt svo, verður þó þéttari sé formálinn lesinn.

Það er svo margt sem ég veit. Eitthvað af því nýtist mér, annað alls ekki. Ýmsum staðreyndum hefði verið heppilegra að glöggva sig á fyrr á lífsleiðinni og svo eru þær sem sniðugt væri að tileinka sér betur.

Nú flokkast ég líklega til kvenna „á besta aldri“, hvað sem það nú merkir. Í tilefni þess hef ég aðeins verið að kynna mér fræðin, þarna stóru bókina um breytingaskeiðið. Það er nú meiri doðranturinn, maður lifandi. Eins og gefur að skilja, þar sem um kvenheilsu ræðir, hafa efnistökin ekki átt upp á pallborðið gegnum tíðina, ekki frekar en þegar Guðrún frá Lundi gaf út bækur sínar sem þá voru sagðar ómerkileg afþreying og kerlingarbókmenntir. Sú stórmerka kona hefur blessunarlega hlotið uppfærslu og er í dag talin einn merkasti höfundur sem Ísland hefur alið. Breytingaskeiðið fetar í humátt á eftir og stefnir hátt. 

Mikið hef ég skrafað við samferðakonur mínar, stungið nefinu ofan í bókina á stöku stað og hlustað á efni á veraldarvefnum þessu tengdu. Án þess að ætla að reyna útskýra hormónakerfi kvenlíkamans, sem ég sjálf skil aðeins að litlum hluta, þá er eitt mjög skýrt og meikar fullkomin sjens, eins og níu ára sonur minn myndi segja;

Estrógenið, sem er kynhormón kvenna og stýrir meðal annars tíðahringnum, tekur að lækka hjá konum á breytingaskeiðinu og veldur það í flestum tilfellum töluverðum usla. Við það má segja að skrúfist fyrir lífskraft kvenna, í það minnsta hjá hluta þeirra. Orka, styrkur, sjálfstraust, skýr hugsun, minni, skipulagshæfni, drifkraftur og þolinmæði raskast og sumt hvert fýkur á haf út og ófyrirséð hvenær reki á land. Ekki góðar fréttir og vægast sagt óheppilegt, í það minnsta fyrir mína parta.

Náttúran, hún er svo mögnuð. Að ofangreindu, eins og ég sé það, þá er estrógenið okkar líkamsklukka á það hvenær æskilegt væri að hætta barneignum. Ég hlustaði á viðtal við breskan kvensjúkdómalækni sem sagði; „Það eina sem varnar því að við étum ekki börnin okkar er estrógenið.“

Meðan við erum ungar, uppfullar af eldmóði og hormónum erum við svo til í þetta allt saman, þar sem estrógenið hvetur þörf okkar til þess að annast aðra, þá helst börnin okkar. Þið munið, þegar allt var svo æðislegt og við ódauðlegar æðri verur í eigin augum. Kortlögðum næstu meðgöngu meðan við vorum enn að fæða fylgjuna því við áttum svo ofsalega mikið að gefa. Suðum brokkolí og frystum í litlum kubbum, allt það besta fyrir litlu heimsljósin. Réttum svo hratt upp hönd að við nánast tognuðum í upphandleggsvöðva þegar leikskólastjórinn falaðist eftir sjálfboðaliðum í foreldraráð og mættum að sjálfsögðu með heimabakað pæ á fjáröflunarfund í fimleikunum. Estrógen-sprengjurnar sem við nú vorum, með orku á við Kárahnjúkavirkjun og samanlagða umhyggju Móður Teresu og Maríu Meyjar.

Eftir hormónahrunið er öldin önnur. Já bara annað hljóð skrokknum ef mér leyfist að skipta k inn fyrir t. Estrógen-vísirinn farinn af „gefðu allt sem þú átt“ yfir á „hjálpaðu mér upp“. Svo lýsandi, gleðisprengjunni Jóni Jónssyni skipt útaf og Ný danskri inná, sem er jú töluvert þyngri og dramatískari. Líkamsklukkan segir hættu að eignast börn og farðu í spa. Við ósjálfrátt skríðum inn í skelina og reynum að átta okkur á nýjum veruleika. Skiljum í fæstum tilfellum nokkuð og þess vegna reynist þetta allt svo erfitt.

Ég er þakklát fyrir að vita að um líkamlega skýringu er að ræða, hvers vegna ég hef verið er skugginn af sjálfri mér og svo leiðinleg að blómin mín deyja nánast þegar ég geng fram hjá þeim. Einnig þegar mig langar að yfirgefa allt og panta mér one way flugmiða til Galapakoseyja, eða allavega eitthvað nógu langt í burtu til þess að enginn nái í mig nema fuglinn fljúgandi. Þar sem ég get bara verið. Bara verið ég sjálf og hugsað um sjálfa mig. Út frá mínum þörfum, hvað mig langar að gera og ekki gera. Þar sem ég þarf í raun ekki að gera neitt. Ég er þakklát fyrir að vita að ég er ekki að missa vitið, heldur sé um hormónaójafnvægi að ræða og að ég muni jafna mig, vonandi áður en ég verð amma!

Að þessu sögðu hefði vissulega verið heppilega að eiga örverpið mitt fyrr. Hugsanlega spilar það inn í að ég hef verið með ung börn í samfleytt 27 ár af minni 47 ára löngu lífsgöngu og er því farið að örla á þreytu í þjónustuhlutverkinu. Ég var 38 ára þegar ég átti hann og estrógentankar mínir líklega þá strax farnir að leka, eða í besta falli súrna. Í dag myndi ég ég í það minnsta frekar drekka klór á fastandi maga alla morgna heldur en að bjóða mig fram sem bekkjartengil eða vera liðsstjóri á fótboltamóti.

Ekki nóg með að ungmennafélagsandinn sé aðeins fortíð þá bara nenni ég engu af þessu. Ég nenni ekki að gera vikumatseðil eða fara í búð. Ég nenni ekki að elda. Ég nenni ekki að þvo allan þennan þvott eða þrífa heimilið. Ég nenni ekki að skutla og sækja. Ég að sjálfsögðu geri þetta allt en það er þyngra en áður.

En, nú að efninu eftir þennan leikandi létta formála. Það er þetta með að vita betur en fara ekki eftir því. Þegar ég segi já þegar ég veit ég á að segja nei og öfugt. Við það fer ákveðið ferli í gang í líkama mínum. Ég finn fyrir sérstakri tegund af pirringi sem samfléttast við reiði í eigin garð. Svona eins og Djúpa, með einhverju krönsi utan á og lakkrís í miðjunni. Þannig er tilfinningin. Pirringurinn er krönsið en lakkrísin reiðin.

Sólin skein. Himininn var heiður og blár. Hitinn fyrir eitthvað kraftaverk yfir tíu stigum. Já, upp var runnin enn ein menningarnóttin. Það sem ég elska allt svona tilbúð pjátur og veit hreinlega ekkert skemmtilegra en að spássera með vinkonum mínum í bænum, þar sem við látum okkur berast með  stemmningunni, sýnum okkur og sjáum aðra. En blessað barnið var í minni umsjá og hafði að eigin sögn tekið út sinn skerf af sambærilegum hátíðarhöldum í Gleðigöngunni, helgina fyrir. Hann er ekki sami partýpinni og móðir sín (á góðum dögum) og ég bara vissi að önnur fjöldasamkoma myndi ekki fullkomna okkar laugardag, auk þess sem ég hafði lofað mér í vinnu um kvöldið.

Helvítis rassgat hvað veðrið var gott. Gjóaði augunum á símann, lífæðina sem flutti mér allar stuðfréttirnar úr bænum. Ég var búin að gefa barninu morgunmat og líka popp. Og ís. Það er nú einu sinni þetta (eilífðar) sumarfrí. Spila þjóf, veiðimann og ólsen ólsen upp og niður. Setja í vél, taka úr vél, setja í vél og taka úr vél. Fylgdist inn á milli með maraþonhlaupurum og menningarvitum, sjálf bara heima á brókinni. Fómóið ágerðist. Mótefni: Hætta að skoða Instagram!

„Mig langar svo í köku“ sagði barnið eftir hádegi, „viltu plís baka?“. Ég leit á klukkuna og sá að tæpt væri að slíkt næðist með almennilegum hætti áður en hann færi í pössun fyrir kvöldið.

Nei, ég bara nennti ómögulega að baka köku. Mig langaði að vera í bænum, með kaffi latte í glasi, fyllt upp með einhyrningslitaðri menningarfroðu.

En í stað þess að standa með sjálfri mér og segja „nei elskan, ekki núna“, sagði ég; „Já, ég skal baka, kíkt þú bara í tölvuna á meðan eða eitthvað.“ Og þar með fór tilfinningin fór af stað, þessi þarna krönshúðaða lakkrís-b-o-b-a!

„En ég geri bara muffins, kaka skítfellur alltaf hjá mér og verður að einhverjum óskapnaði,“ kallaði ég eftir honum inn svefnherbergisganginn.

Slæ upp leitarorðinu; einfaldar bollakökur. Stansa við eina frá Evu Laufey. Ber okkur saman í huganum. Hún glaðværðin uppmáluð, með varó og alltaf svo lekker. Ég, jú fyrir eitthvað kraftaverk komin í hjólabuxur, en þó berbrjósta í hlýrabol og með þessar nýfengnu en jafnframt óvelkomnu hormónakrullur í hárinu. Jesús!

Litla kökuskrímslið kemur fram til þess að fylgjast með gangi mála.

„Mamma. Manstu þegar við vorum í Noregi og fórum að konungshöllinni og sáum vörðinn með byssuna.“

Ég játa því.

„Af hverju var hann með svona byssusting framan á henni. Sagðir þú að það væri til þess að hann gæti varið sig ef einhver kæmi of nálægt?“

Ég játa aftur, annars hugar.

„En er hann þá ekkert að verja kónginn, bara sjálfan sig?“

Ég: „Jú jú, kónginn. Hann er þarna til þess að einhver geti ekki skundað inn í höllina óboðinn.“

„En ef einhver myndi bara fara fram hjá honum og vörðurinn kannski ekki sjá? Hvað þá?“

Ég: „Það er ekkert þannig, hann er þarna til að vakta hurðina og það myndi enginn komast óséður fram hjá.“

„En ef, hvað gerist þá?“

Ég; „Æji, það bara gerist ekki. Viltu ekki bara aðeins fara fram og leyfa mér að lesa uppskriftina svo ég klúðri þessu ekki.“

Jæja. Áfram veginn, tikk, takk, klukkan tifar.

Renni hratt í gegnum uppskriftina, sé ég á öll hráefni til, þó það standi tæpt í einhverjum tilfellum.

Hveiti, já. Sykur, já.

Hræra saman smjöri við stofuhita og eggjum þar til verður létt og ljóst. Andskotinn, stofuhita! Ég hef bara ekki tíma til þess að bíða þar til smjörið hefur afkælt sig. Æji, læt það slæda. Ok, tvö egg og smjör, af stað!

Uppáhelt sterkt kaffi og kakó saman í skál, kælt vel áður en því er bætt við. Roger that.

Þurrefnum blandað saman, umhumm, umhumm, hveiti, sykur, lyftiduft. Komið.

Kíki í hrærivélina. Andskotinn er þetta. Eggjasmjörhræran, þessi þarna verðandi létta og ljósa lúkkar nákvæmlega eins og scrambled egg. Prófa lengur. Set á mesta hraða. Ekkert gerist. Djöfull! Skipti fjárans stofuhitinn virkilega svona miklu máli eftir allt saman!

Tek skálina bölvandi af hrærivélinni og helli gubbinu. Jæja, þar fóru 115 grömm af rammíslensku smjöri og tvö egg í vaskinn. Bókstaflega.

Þarna var ég orðin mjög pirruð. En, ekkert í stöðunni nema byrja bara aftur.

115 grömm smjör. Sneiði það niður með ostaskera og legg í eldfast mót, svo það jafni sig nú fljótt og vel. Tvö egg. Andskotinn, þau eru og verða skítköld næsta hálftímann.

Opna þurrkarann sem var að klára sitt verk í annað skipti þann daginn. Legg eggin inn á milli handklæða og fótboltasokka. Varlega, bara eins og ég ætlist til þess að þau klekist út. Brosi ánægjulega, þarna var ég nú sniðug.

Jæja. Set kakókaffið í frystinn, öll trixin í bókinni nýtt til fulls. Smjörið í sólbaði á eldhúsborðinu og eggin í þurrkaranum. Allt eins og það á að vera. Allt eðlilegt hér eins og menn segja.

Renndi aftur yfir uppskriftina. Ha? Þeytið saman smjör og SYKUR þar til létt og ljóst? Setjið eggin saman við, eitt í einu? What! Ég sver að Eva Laufey sagði bara rétt áðan að ég ætti að þeyta saman smjör og egg, allt við stofuhita. Kræst.

Ok. Bjarga eggjunum úr þurrkaranum áður en þau byrja að gagga. Brýt þau í skálina. Sykurinn, hvar var hann nú. Dem! Nú saman við hveitið auðvitað, öll þurrefnin saman og allt það. Ég get svo guðsvarið það. Þurrefnin fara sömu leið og eggjaklessan áðan.

Þarna var ég næstum farin að grenja úr gremju, mín afskorna þolinmæði alveg á þrotum. Og fyrstu maraþonhlaupararnir að detta í mark ofan á allt saman.

„En mamma, ef frænka kóngsins væri að koma í heimsókn og vörðurinn myndi ekki þekkja hana?“

Ég: „Það er ekkert þannig, allar persónulegar heimsóknir eru líklega fyrir fram skipulagðar og fara gegnum einhvern annan inngang en gæsluna.“

„En bara EF það hefði gleymst að segja frá því. Eða EF kóngurinn vissi ekki að hún væri frænka hans, hefði aldrei hitt hana og hún kæmi óboðin. Hvað þá?“

Guð minn góður barn!

Klambra öllu saman eins og á að gera. Tíminn á þrotum. Set hrærivélina á fullt. Kakóbrúnum slettunum rignir yfir mig, mest á hlýrabolinn sem gerir mig að fullkomnu hvítu rusli. Tvær góðar slettur í hárinu og ein á ristinni, hvernig sem það nú gerðist. Obbobobb! Vigdís Finnboga, sem stendur heiðursvörð fyrir aftan hrærivélina í silfurlitum ramma, hefur einnig fengið að finna fyrir því. Sorrý Vigga! Hún hins vegar haggast ekki, situr bara salíróleg í prjónakjólnum sínum og brosir, svo augljóslega komin yfir breytingaskeiðið!

Ég veit að nú brenna á ykkur ýmsar spurningar. Eins og: Lætur hún allt eftir barninu, þ.e ég, ekki Vigga? Af hverju sagði hún ekki bara nei og tók á sig smávægilega fýlu? Og lukkuðust kökurnar eftir allt saman? Svörin eru einföld. Einfaldlega af því ég nennti því ekki, frekar en öðru.

Þeir skilja sem skilja. Og þær lukkuðust ekki.

Kristborg Bóel, kennari, náms- og starfsráðgjafi, blaðamaður, dagskrárgerðarkona, rithöfundur en líklega öllu fremur móðir fjögurra barna og framkvæmdaóður hugmyndasmiður.

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG