„Bráðum“ koma blessuð jólin – 4 góð ráð til að eiga jól án fjárhagslegrar streitu  

Eftir dásamlegt sumar er haustið mætt að nýju með tilheyrandi rökkri og notalegheitum. Tíminn líður hratt og þó það geti verið erfitt að heyra eru innan við 100 dagar til jóla! Desember er yndislegur tími uppfullur af gleði, væntumþykju og dýrmætum augnablikum með því fólki sem stendur okkur næst. Á þessum tíma sköpum við minningar og jólahefðir, allt frá því að  skreyta jólatréð yfir í að borða góðan mat og skiptast á gjöfum. Jólin færa svo sannarlega hlýju í hjörtu okkar. En á sama tíma geta jólin verið tími fjárhagslegrar streitu með tilheyrandi áhyggjum yfir komandi útgjöldum. En hvað er hægt að gera til að draga úr því?  

1. Gæðastundir þurfa ekki að kosta 
Það gleymist oft að einblína á raunverulega merkingu jólahátíðanna sem felst í gæðatíma með fjölskyldu og vinum, dreifa ást og gleði og skapa minningar. Gæðastundir þurfa ekki að krefjast mikilla fjárútláta. Skapaðu þér jólahefð með þínum nánustu sem þarf ekki að kosta mikið. Sem dæmi er hægt að pakka heitu súkkulaði, þeyttum rjóma og piparkökum í poka og halda af stað í lautarferð með vasaljós og hátalara í farteskinu. Þannig er hægt að setjast niður og eiga ljúfa stund saman með notalega jólatónlist.  Þetta er stund sem kostar ekki mikið en skilar helling í minningabankann. 

2. Sýndu væntumþykju í orðum og verki, ekki með stórum og dýrum gjöfum. 
Hinn sanni andi jólanna felst í kærleikanum sem við tjáum með orðum og athöfnum, en ekki stórum og dýrum gjöfum. Gjafir eru vissulega hluti jólanna en við megum ekki gleyma hversu falleg gjöf getur verið í orði eða verki fyrir þá sem okkur þykir vænst um. Hafðu það á bak við eyrað þegar þú velur gjafir til þinna nánustu þessi jólin. 

3. Haltu í þín fjárhagslegu markmið 
Ég þreytist ekki á að segja fólki að besta sparnaðarráðið felst í að setja sér fjárhagslegt markmið. Óþarfa jólaeyðsla getur stefnt þessum markmiðum í tvísýnu. Með því að hafa skýra sýn og áætlun yfir kostnað hátíðanna tryggir þú að þín útgjöld yfir jólin muni færa þig nær þínum fjárhagslegu markmiðum í stað þess að draga þig fjær. 

4. Sparaðu fyrir jólunum 
Það er ótrúlegt hversu mikið safnast saman yfir mánuðinn af alls kyns útgjöldum frá jólum yfir á nýja árið. Milli þess að fara á jólatónleika, fara á konfektnámskeið og kaupa jólagjafir aukast útgjöldin fljótt. Prufaðu að setja þér jólaáætlun og áætlaðu kostnaðinn við jólin, þar á meðal gjafir, skreytingar, mat og skemmtun. Þetta mun gefa þér skýra mynd um hversu mikið þú þarft að eiga fyrir kostnaði jólanna og þannig getur þú séð hversu mikið þú þarft að leggja mánaðarlega fyrir jólunum.  Ég mæli með að hafa sparnaðinn sjálfvirkan því þannig tryggir þú stöðugan sparnað allt árið án þess að þurfa að hugsa um það frekar. 

Með því að fylgja þessum ráðum hér að ofan mun það  hjálpa þér við að eiga hugljúfar gæðastundir yfir hátíðarnar án óþarfa áhyggja af fjármálum – og án þess að skemma þín fjárhagslegu markmið. Gerðu þetta að nýrri jólahefð, haltu henni til streitu og leyfðu henni að lifa lengi. 

– Dagbjört Jónsdóttir

Vefsíða: www.fundidfe.is

Námskeið: Markmiðasetning í fjármálum

Dagbjört er stofnandi og konan á bak við Fundið fé. Hún hefur tamið sér vissa aðferð og hugmyndafræði við að halda utan um fjármálin sín. Hún brennur fyrir að miðla þessari þekkingu og þeirri sýn sem hún hefur öðlast á fjármál, svo aðrir geti stuðst við sömu tól og aðferðir sem bókin og námskeiðin sem hún heldur hafa að geyma. Allt með það að markmiði að hjálpa fólki að halda utan um útgjöldin sín, setja sér fjárhagsleg markmið og finna fé sem það taldi sig ekki eiga aflögu. Dagbjört heldur úti miðlinum Fundið fé á Instragram https://www.instagram.com/fundid_fe/  

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG