Konan sem sýgur í sig lífið – gleði- og sáttarsaga

…eða sogar lífið sig svona inn í konu? Af hverju er kona alltaf á fullu og elskar hverju sekúndu af aksjóni? Og af hverju fæ ég sífellt æði og innilega ástríðu fyrir einhverju nýju sem lætur mig fljúga hærra en ég ætlaði? Nei, þetta er ekki saga um konu sem klessir á vegg heldur frekar um mjúka, virka, klára og kreatífa konu sem elskar klessuna og býr hana stöðugt til, með orku og góðum genum (greiningu?). Hún er nú sín eigin frú í starfi og leik og er loks búin að fatta eitthvað smá um eigin hegðun og tilveru og koma auga á möguleikana í því. Konu, sem var að sjá að hún skipti nýlega um gír og karríer af nauðsyn og er að taka brestina sem og ofurkraftana í betri sátt.

Ég er í sjálfsgreiningu. Ekki sjálfsvinnu beint, en ég spyr mig nú að nálgast miðaldurinn hver ég nú sé og af hverju. Það er gaman að pæla aðeins í sér og spyrja spurninga, líka núna þegar allir eru að tala um adhd fullorðinna. Ég er langt frá því að vita mikið um adhd en ég veit að ég er ein af þeim, ógreind og lyfjalaus. Mér líður vel. Þetta eru persónulegar pælingar sem ég deili með lesendum, ég er þessi opna bók, vil vera hvatning og fyrirmynd og jafnvel opna nýjar dyr og skilning.

Hreyfiglöð og hvatvís

Fortíðin er alls konar og ég hef alveg fundið fyrir draugunum í bakpokanum við og við. Ég er mannleg tilfinningavera, jafnvel viðkvæmt blóm, samt alltaf síblómstrandi og helst skærbleik. Ég hef alltaf elskað lífið mitt og fílað sjálfa mig og ég er alltaf svo þakklát fyrir það hvað ég er þakklát. Takk! Sjálfstraustið hefur ekki skort þrátt fyrir alls kyns ókosti og samfélagsónorm, en ég hef alltaf fundið og verið meðvituð um að ég er ekki alveg ósköp venjuleg, hvernig sem venjulegt nú skilgreinist. Mér hefur ekki beint fundist ég synda á móti straumnum, en alla vega á ská og helst fundið þörfina að búa til nýja spennandi leið á meðan og stokkið á alla skemmtilegu bátana. Svona „it´s the journey…“ týpa alla leið. Það er grínlaust mikið stuð að vera hvatvís og hafa trú á eigin ferðalagi. Fyrir flesta er lífið er nú sjaldnast beinn og breiður vegur, ég hef kannski verið óhræddari en margir að fylgja eigin hjarta og eðlisávísun og fara nýjar og jafnvel ótroðnar fjallaleiðir.

Aðeins um þennan margbrotna karakter sem ég er. Ég sé núna hvað hann tikkar í mörg (skemmtileg) adhd box. Mér gekk alltaf vel í skóla og ég næ að halda vel utan um hversdagslífið, þótt það hafi vissulega orðið eilítið flóknara eftir að ég flutti í hús á þremur hæðum. Ég týni hlutum auðveldlega og allt er á vitlausum stað. Ég hef alltaf verið orkumikil og viljað gleypa lífið í einum bita. Ég elska hraða og vil gera allt hratt. Ég er mjög virk í útihreyfingu, helst á fjallahjólinu mínu þar sem ég bruna eins hratt og ég get niður fjöll. Sumir segja þetta spennusýki eða adrenalínfíkn. Tímapressa virkar vel fyrir mig og löng ládeyða er erfið, því þá er svo leiðinlegt. Karakter, gen eða adhd? Uppeldisaðstæður og umhverfi? Amma var virk og sterk. Þegar ég var yngri sá ég ekki tilganginn í því að ganga svo ég hljóp allt sem ég þurfi að fara.

Á tímabili sem fullorðin varð ég meðvitaðri um „galla“  mína ákvað að reyna að vera meira „almennileg“ og æfa mig sérstaklega og meðvitað í þolinmæði, að tala hægar og í þýðum tóni, hreyfa mig fallega og hægja á mér. Ég veit ekki hvort það tókst, en ég hef alltaf átt mjög auðvelt með að setja mig í karakter þegar ég þarf. Að bíta í tunguna á málglaðri skoðanaglaðri háværri konu sem elskar að greina hluti í spað og fæddist með flæðandi forvitni fyrir mönnum og málefnum, getur verið frekar trikkí. Það sér held ég enginn nema ég að í dag er ég loks aðeins farin að róast, ráða betur við þetta, læra og slípa, en samt ekki breytast.

Spread your wings and fly

Tilfinningarnar eru alltaf stórar og æðislegar, ég elska endalaust fast, verð fyrir gríðarlegum geðshræringum, himneskum hughrifum, vandræðalega miklum vonbrigðum, grenja alltaf í leikhúsi (meira að segja á Línu langsokk) og gleðst stórkostlega yfir smæstu sigrum, annarra líka. Tilfinningar tikka líka tryllt inn bara við (ósköp venjulegar?) skýjamyndir, lykt af blautum mosa, ískaldan vind í eyrum, bleiku birtuna á Esjunni. Þetta steypir sér beint inn í kerfið og forritast þar og verður samstundis hluti af mér, framkallar jafnvel titring og tár, áður en ég held áfram, enn fyllri af orku og tilfinningagreind en áður. TAKK!

Ég er stöðugt í gegnum lífið að æfa mig í tilfinningastjórn. Ég var „frekur“ krakki, „hávær“ unglingur með „attitude“ og er fullorðið „hörkutól“ sem gustar af (er mér sagt). „Normal is boring“ var lengi vel mottóið mitt þegar ég var yngri, þar til ég skipti fyrir nokkrum árum yfir í „Spread your wings and fly“. Að nota vængina sína, að fljúga á eigin forsendum. Að gera og vera alls konar, fljúga langt og hratt, eða svífa og njóta, á óskilgreindu flugi.

Virk eða ofvirk?

Ég gerði mér lífslista þegar ég var 16 ára, hálfgerðan bucket list með ferðalögum og hugtökum sem heilluðu mig. Ég gæti fullyrt hér og nú að þetta með að gleypa lífið hafi jafnvel á vissan hátt tekist hjá mér. Sumir hafa kallað mig ofvirka, öra og jafnvel súperkonu, ofurkonu og orkubolta. Ég er almennt frekar ýkt og eirðarlaus þarna inni. Ég sætti mig við það, þetta er jú allt líklega alveg rétt þegar ég skoða ferilinn minn. Að vera ofvirkur hefur þó einhvern veginn öðlast frekar neikvæða merkingu, eins og það sé slæmt, en hei, hver vill ekki hafa mikla orku? Ég hef samt valið að segja að ég sé bara virk.

Æðin, áhugamálafíknin og ástríðan

Ég sé nú að ég hef sett súperáhugann, orkuna og ástríðuna í alls konar skemmtileg verkefni og ég var bara nýlega að uppgötva þessi æðimörgu tímabil í lífi mínu þar sem ég hef fengið „æði“ fyrir einhverju, eða súperáhuga og orku til að sinna. Þá hef ég massað það tímabil í tætlur, með gleði, þrautseigju og jafnvel góðri innkomu, alveg þar til ég fæ skyndilega mesta ógeð á því og hætti, eða breyti eins og ég vil orða það. Það má alltaf breyta. Ég verð reglulega að breyta.

Tímabilin og dæmin eru þó nokkuð mörg og margvísleg og svolítið fyndið að líta yfir farinn fjölbreyttan veg.

Einu sinni perlaði ég geggjað hálsmen fyrir vinkonu í afmælisgjöf. Það varð á ógnarhraða að hálsmenatímabilnu mikla sem stóð yfir í nokkur ár. Ég bæði perlaði og heklaði hundruðir hálsmena sem ég kallaði Frjálsmen, og seldi í flottum hönnunarbúðum en endaði grenjandi á aðfangadag eftir að hafa unnið upp langan pöntunarlista. Prjónabókatímabilið var ljómandi skemmtilegt og fyllti á listrænar þarfir mínar og verkefnastjórahæfileika, en ég gaf sjálf út tvær prjónabækur tvö ár í röð og lentu þær báðar á metsölulista við hlið bóka Arnalds um jólin. Þetta var fyrir 14 árum og ég fæ enn símtöl frá prjónakonum í uppsveitum að spyrja út í ákveðin atriði í uppskriftunum, sem ég get að sjálfsögðu engan veginn svarað. Crossfitttímabilið var crazy kúl. Ég endaði á að keppa á Íslandsmóti einstaklinga og liða. Hver einasti dagur í þrjú ár á æfingu var keppni og árangur og ég sippaði double unders með þykkasta dömubindið til að pissa ekki í mig af áreynslu, þar til ég fékk brjósklos og hætti á toppnum og fór aldrei aftur. Ég æfði sund þegar ég var yngri og var í unglingalandsliðinu en fór svo ekki í sund í mörg ár eftir að ég hætti, ég gat ekki fundið klórlyktina.

Svo hef ég auðvitað tekið fjallgöngutímabilið þar sem fjallgöngurnar dæmdust út frá því hvað flatkakan var orðin þurr, skemmtinefndatímabilið á öllum vinnustöðunum (planeraður partýpinni par exellans!), en ég hef sagt upp á fleiri vinnustöðum heldur en flestir. Vegantímabilið var geggjuð tvö ár og kenndi mér svo fjölmargt og ekki má gleyma hásskólatímabilunum: Þrjár geggjaðar gráður hérlendis og erlendis þar sem ég nýtti í þaula súperfókusinn og flæðið sem ég kemst í. Auk einkaþjálfarasprófs og alls kyns online kúrsa, ég er alltaf jafn þyrst í þekkingu og mikið er þetta gaman og þroskandi, en ég get ekki sagt að ég hafi nokkuð náð að nota þessi prýðisgóðu próf mér til frama.

Frelsandi fjallahjólreiðar
Það var lukka mín og lán að byrja að hjóla. Ég varð á skömmum tíma margfaldur Íslandsmeistari í alls kyns hjólreiðum, en ég æfði jú mjög mikið og skemmti mér svo vel við það. Áhuginn var sannarlega til staðar, áreynslan er dópamín og keppnisskapið var matað af árangri og fjörugum félagsskap.

Ég hef nú stundað hjólreiðar í 10 ár og er enn að elska það, (sjúkket) þótt ég keppi ekki lengur. Með fjallahjólreiðaáhugann og náttúruástina að vopni stofnaði ég hjólaskóla fyrir sex árum þar sem ég kenni börnum og byrjendum að fjallahjóla og fæ mikið út úr þeirri vinnu. Auk þess skipuleggur Hjólaskólinn reglulega frábærar fjallahjólaferðir til útlanda og þá hef ég náð mér í tvær alþjóðlegar þjálfaragráður í fjallahjólreiðum. Takk fyrir það! Glænýjasta græjan er rafmagnsfjallahjól af bestu gerð og með því er ég að opna nýjar dyr að algjörlega nýju sporti og nýjum ævintýrum. Endurnýjuð ástríðaaaahhhhh… Nýtt líf. Takk!

Ég hef oft skilgreint mig sem áhugamálafíkil en er að sjá betur og betur hvernig taugarnar eru víraðar á þennan hátt. Ég finn og er nú loks orðin sáttari við að vera ekki eitthvað eitt og afmarkað, heldur margt og alls konar. Ég hef áhuga á svo mörgu og þá kikkar súperorkan og ástríðan inn. Ég hef valið og mér finnst það svo gott.

Leiðsögukona og giftingastjóri

Ég skellti mér á síðasta ári í meiraprófið og starfa nú sem ökuleiðsögukona með erlenda ferðamenn bæði í hóp- og einkaferðum. Ég fæ að vera á útopnu þar og puðra út jákvæðri Íslandsorku til útlendinganna. Hver dagur er lærdómur og ég fæ að vera úti og hreyfa mig. Ég festi svo nýlega kaup á töffarajeppanum fyrir prívatbissnessinn sem ég stefni á að gera ríkulegan og skemmtilegan. Fleiri nýjar dyr, ævintýrin bíða. Takk!

Í dag starfa ég einnig sem athafnastjóri við að gifta fólk, Íslendinga sem og aðra hvaðanæva úr heiminum, mest úti í íslenskri náttúru. Í því starfi fæ ég tilfinningalega útrás og hjartatengingu með einlægni, ást og gleði. Ég tek viðtöl við hjónaefnin um lífið og ástina og útbý þeirra persónulegu athöfn. Yndislegt og gefandi. Þetta hægir á mér, nærir mig og gefur mér tækifæri til að kjarna mig í það sem ég er líka, skipulögð og pennafær, mannfræðingur með sérlegan áhuga á menningu og mannlífi. Þetta er vafalaust skemmtilegasta starf í heimi. Ég er laus fyrir gleðilegar giftingarathafnir!

Ég hef oft haft samviskubit yfir því og reynt að hanga í einhverju sem ég hef ekki lengur áhuga á en ég kafna hreinlega andlega og líkamlega úr leiðindum. Reyni að láta mig hafa það en dofna og fölna hratt. Ferilskráin mín er litríkari en regnboginn og hvert eitt og einasta verkefni hefur verið lífsstækkandi og geggjuð reynsla fyrir mig. En það hefur líka oft verið flókið og óskiljanlegt að missa áhugann og vilja stöðugt nýtt challenge. Ég átta mig á því að þessi regnbogi er almennt ekkert sérlega aðlaðandi fyrir vinnuveitendur. Ég hef stundum öfundað sumar vinkonur af því að haldast í sömu vinnunni í áraraðir. Stabílar og flottar og ánægðar þannig. En ég þarf að kjósa annað til að vera ég og til að vera frjáls í eigin skinni. Ég gat ekki lengur setið kyrr við tölvu og verkefnastýrt úr sætinu mínu, annars frekar fjörugum markaðsmálum.

Mitt frelsi

Í dag ræð ég dagatalinu mínu sjálf og hef aldrei verið eins frjáls, þarna inni aðallega. Líka sérstaklega nýlega eftir að ég uppgötaði að þetta er allt ok. Orkan mín er alls konar og stundum hverfur hún alveg og þá þarf ég eins og allir að endurhlaða og þá bý ég til gat í dagatalinu mínu, prjóna, fer í markmiðslausa labbitúra, ligg óhóflega lengi í pottinum úti í garði þar sem ég verð eitt með stjörnunum, skrifa ljóð og hendi mér jafnvel í sófann (það er nýtt!).

Orkan er ég, ég er hún, áhugamálin og ástríðan klessa sér enn stöðugt við mig, líf mitt, störf og áhugamál eru marglitað excelskjal og ég fíla það. Það er mitt frelsi og undirstaða hamingjunnar, hvaða greining sem það nú kallast. Loksins skil ég þetta aðeins betur og loksins get ég verið sátt við þetta. Það er hægt að vera stoltur og líða vel með sjálfan sig og lífið þrátt fyrir adhd.

Ég vil nota tækifærið og hvetja öll til að virkja orkuna sína með þeirri ástríðu sem er til staðar og að nota vængina sína í nákvæmlega það sem gefur gleði og auðgar lífið. Þótt það sé tímabundið og þótt það sé út fyrir normið. Búið til ykkar eigið partý og breytið í spaða ykkur í hag. Fljúgið hátt og fljúgið frjálst á ykkar eigin flugi í þessu geggjaða lífi.

– Erla Sigurlaug.

Erla Sigurlaug er 47 ára móðir og mannfræðingur, margbrotin og mega forvitin um það sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er kát og kankvís, frjó og fljót, opin, ýkt og innileg og tekur lífið í törnum. Hún er ástríðufullur áhugamálafíkill sem elskar fjallahjólreiðar og nýja heita pottinn sinn. Hún starfar nú við að stækka stærsta iðnað landins með því að leiðsegja erlendum ferðamönnum um upppáhalds Ísland, ásamt því að stýra húmansíkum, persónulegum og skemmtilegum giftingum, fermingum og nafnagjöfum sem athafnastjóri hjá Siðmennt. Hægt er að fylgjast með ævintýrum hennar á instagram.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is