Passaðu þig á fólki!

Ertu allra, engra, sumra, nokkurra, flestra, margra eða fáeinna?

Flestar konur, ef ekki við allar, glímum við það að fólk hefur alls kyns skoðanir á okkur. Flestar höfum við þá djúpstæðu grunnþörf að vilja vera vel liðnar, tilheyra, passa í hópinn og eiga í góðum samskiptum við samferðafólk okkar. En það er því miður ekki alltaf raunin. Það verður alltaf til fólk sem laðast að þér og dáir og það verður líka alltaf til fólk sem líkar alls ekki við þig – og allt þar á milli. Þú tengir ekki satt? Sem streituráðgjafi veit ég að slæm samskipti valda sársauka og eru einn mesti streituvaldurinn í lífi fólks. Streita er helsta heilsufarsógn 21.aldar þannig að ef þú vilt minnka streitu skaltu byrja á því að skoða samskiptin í lífi þínu. Enginn kemst hjá því að eiga í slæmum samskiptum á lífsins leið en við getum verndað okkur fyrir neikvæðum áhrifum þeirra á líðan okkar. Tilgangur þessara greinar er að deila þeim ráðum.

Hugmyndina að þessum skrifum fékk ég á félagsfundi FKA er ég hlustaði á einlæga frásögn  framakvenna í íslensku atvinnulífi. Ég hjó sérstaklega eftir sársaukanum í rödd þessara sterku kvenna er þær töluðu um skuggahliðar þess að vera áberandi og umtöluð manneskja í kjaftaklúbbum og kommentakerfum landsins. Skyldi engan undra. Ég tengdi. Lengi vel lagði ég mig fram um verða ,,allra“ með því að forðast gagnrýni og þóknast öðrum. Vitanlega hafði ég ekki alltaf árangur sem erfiði og það tók á sálina. Af brýnni nauðsyn ákvað ég að koma mér upp skotheldu kerfi til þess að passa mig á fólki og vernda tilfinningalíf mitt fyrir hvers konar neikvæðum sendingum í orðum, framkomu og orku – vernda mína félagslegu heilsu. Góð félagsleg heilsa skiptir sköpum varðandi heilbrigði okkar og getur verið undirstaða þess að við náum tökum á tilverunni.

1.Vertu þinn eigin ,,félagsmálaráðherra
Þú kannast væntanlega við það að sumir einstaklingar virðist hafa fjarstýringu á streitustig þitt og  tilfinningalíf? Þetta fólk getur angrað þig, niðurlægt, hrætt og sært, hafnað þér og reynt að gera þig meðvirka, valdið þér streitu, kvíða og vanlíðan hvers konar. Ég veit að svar þitt er já því að öðrum kosti værir þú tilfinningalaust vélmenni! Fyrsta skrefið í að taka fjarstýringuna af þeim og verða sjálf við stjórnvölinn er að taka ákvörðun akkúrat núna um að verða þinn eigin félagsmálaráðherra. Í því felst að þú berir 100% ábyrgð á sjálfri þér og þinni félagslegu heilsu – hvernig þér líður fyrir, í og eftir samskipti.

2. Það særir þig enginn nema með þínu samþykki
Ofangreind orð eru höfð eftir Buddha og ég hef gert þau að mínum. Sem þinn eigin félagsmálaráðherra er það á þína ábyrgð að tryggja ,,dyravörsluna“ á þínu tilfinningalífi. Mér finnst gott að ímynda mér að ég sé með stóra og sterka dyraverði sem standa vörð um tilfinningalíf mitt og hleypa ekki neikvæðri gagnrýni annarra inn fyrir skoðunarlaust. Fólk getur sagt ýmislegt við þig og fólk mun alltaf hafa skoðun á þér en það er þitt að muna að skoðanir annarra eru bara skoðanir en ekki heilagur sannleikur – nema þú gefir skoðunum þeirra vægi í huga þínum og hjarta. Ýttu á ,,pásutakkann“ og spurðu sjálfa þig áður en þér fer að líða illa yfir því sem fólk segir: ,,Er þetta rétt?“, ,,Er þetta sanngjarnt?“, ,,Er gagnlegt fyrir mig að trúa og lifa eftir þessu?“ Og: ,,Hvað finnst mér sjálfri?“ Fólk getur kastað í þig illyrðum en mundu að þú hefur allaf val um það hvernig þú bregst þeim og fyrir hvað þú vilt standa í samskiptum. Í Guðanna bænum kastaðu hvorki illyrðunum til baka né veltu þér upp úr þeim.

3. Það sparkar enginn í hundshræ
Þegar ég var í menntaskóla sárnaði mér eitt sinn ósannindi sem skólasystir mín bar út um mig og miður mín leitaði ég til pabba míns um ráð. Ekki stóð á svari: ,,Aldís Arna mín, það sparkar enginn í hundshræ.“ Auðvitað er þetta rökrétt því að ef það væri ekkert varið í þig – þú værir hundshræ – þá myndi enginn heilvita manneskja eyða tíma í þig. Mundu líka að meðal helstu ástæðna þess að fólki líkar ekki við þig eru: 1. Það er afbrýðisamt út í þig fyrir það sem þú ert og hefur. 2. Þú ógnar því. 3. Það vill vera þú! 4. Því líkar ekki við sig. 5. Það kemst upp með það! 5. liðurinn verður vonandi ekki lengur vandamál eftir lestur þessarar greinar því að þú verður búin að taka fjarstýringuna af þeim, ekki satt?

4. Kenndu fólki að koma fram við þig
Manstu eftir gullnu reglunni? ,,Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra?“ Hún er vel meinandi en hefur þó sínar takmarkanir þar sem hún gerir ráð fyrir að allir séu eins en svo einfalt er það ekki. Ég er ekki þú og þú ert ekki ég. Við óskum ekki endilega eftir sams konar samskiptum. Mér hugnast betur að styðjast við það sem ég hef kosið að kalla ,,Platínum regluna“ í samskiptum: ,,Komdu fram við aðra eins og þeir vilja að komið sé fram við sig, innan siðferðis- og skynsemismarka“.  Ekki gera ráð fyrir að fólk viti hvernig það á að koma fram við þig. Taktu ábyrgð og kenndu fólki það. Gefðu fólki þá endurGJÖF að segja þeim þegar þér sárnar eða það fer yfir mörkin þín. Hinn kosturinn er að verða pirruð og leyfa gremjunni að magnast sem gerir engum manni gott. Berskjöldun borgar sig, sýnir styrk þinn og minnkar streitu.

5. Taktu til í samskiptagarðinum þínum með samskiptaformúlunni
Vertu innan um fólk sem stækkar þig og hættu eða dragðu úr samskiptum við þá sem minnka þig. Dæmi. Segjum sem svo að áður en þú ferð og hittir kunningjakonu þína sértu einn heill í líðan (=1). Ef þú ferð út sem meira en einn (>1) þá sækir þú áfram í þennan félagsskap því að þetta er manneskja sem lyftir þér upp og hefur jákvæð áhrif á þína félagslegu líðan. Finndu þá sem gefa þér gleði, frið, traust, vinsemd, kærleika og hlýju og auktu samskiptin við viðkomandi.

Ef þú hins vegar ferð út úr rými lægri en (<1) er augljóst að þessi félagsskapur tekur of mikið frá þér og það er betra að draga þig í hlé eða hætta að hitta viðkomandi. Þú þarft ekki að vera þar sem þér líður ekki vel. Þú mátt og átt að vanda valið – velja gaumgæfilega hverja þú vilt umgangast og hverja ekki vegna þess að endingu berð þú ein berð ábyrgð á þinni félagslegu heilsu, frú félagsmálaráðherra.

Gerðu uppgjör við þá sem skipta þig máli svo þú upplifir að þú hafir gert allt sem þú gast til að bæta samskiptin. Tryggðu að þú gangir sátt við þig frá borði með engin ósögð orð eða ótjáðar tilfinningar. Gefðu líka hinum kost á að tjá sig í einlægni því að (allltof) oft er um misskilning að ræða sem gott er að greiða úr með hreinskilnu samtali í einlægni. Fyrirgefðu (fyrir þig) og fjarlægstu þá sem geta ekki að óbreyttu verið áfram í lífi þínu en sendu þeim samt ljós og kærleika – það eflir þinn innri styrk. Svo má líka alltaf þakka þeim sem sýna manni hvernig maður vill ekki vera!

6. Verndarhjúpur & ljósorka
Ímynda þér áður en þú ferð inn í erfiðar aðstæður að þú hafir verndarhjúp um þig alla sem ekkert slæmt kemst inn fyrir. Hjúpur sem gerir þig ónæma fyrir öllu baktali, gagnrýni, neikvæðni í orðum, orku og líkamstjáningu. Fylltu þess í stað hjarta þitt, huga, sál, líkama af heilandi orku ljóss, friðar, yfirvegunar og kærleika. Sendu líka ljós á þá sem þú ert að fara að hitta (þó þér líki ekki vel við viðkomandi) og á rýmið þar sem þið munuð hittast. Vittu til þú munt geisla af fallegri orku og gefa hana líka frá þér til hinna sem léttir andrúmsloftið. Einu sinni ráðlagði ég skjólstæðingi mínum í samskiptaráðgjöf að gera þetta áður en hún fór á fund með verðandi fyrrverandi manni sínum þar sem þau voru búin að ákveða að skilja. En þegar hún mætti augnaráði hans með þessa áru mundu þau aftur hversu heitt þau elskuðu hvort annað og hættu við að skilja!

7. Krúttlegi kettlingurinn
Vinkona mín var eitt sinn mjög stressuð yfir því að vera nálæg mági sínum sem hafði lengi gert henni lífið leitt. Hana langaði alls ekki að vera í sama rými en stundum var það þó óhjákvæmilegt. Ég ráðlagði henni að ímynda sér einfaldlega að mágurinn væri með sætan kettling á hausnum í doppóttu pilsi að dansa. Með þessu minnkaði stressið enda ekki hægt að óttast manneskju sem er með kjánalegan kettling á hausnum.

8. Sýndu SAMT manngæsku – eins og Móðir Theresa myndi gera
Eitt fallegasta ljóð sem ég hef lesið er frá mannræktarfyrirmynd minni, móður Theresu. Hún orðar það svo fallega hvernig við getum staðið með okkur sjálfum, liðið vel í samskiptum og látið gott af okkur leiða þrátt fyrir að fólk reyni á okkur:

Fólk er oft ósanngjarnt og sjálfmiðað. Fyrirgefðu þeim SAMT. 

Ef þú ert almennileg getur fólk sakað þig um yfirborðsmennsku. Vertu SAMT almennileg.

Ef þú ert heiðarleg getur fólk svindlað á þér. Vertu SAMT heiðarleg.

Ef þú ert hamingjusöm getur fólk verið afbrýðisamt út í þig. Vertu SAMT hamingjusöm.

Hið góða sem þú gerðir í dag kann að vera gleymt á morgun. Láttu SAMT gott af þér leiða.

Gefðu heiminum þitt allra besta og það mun aldrei verða nóg. Gerðu SAMT þitt allra besta.

Vegna þess að leikslokum, snýst þetta allt um þig og Guð. Þetta snerist aldrei um þig og hina.

(Mother Theresa ,,Anyway Poem’’)

9. Það er ekki þitt vandamál að fólki líki ekki við þig!
Mundu að fólk mun alltaf hafa skoðun á þér, hvernig sem þú ert og því er augljóst að þú getur aldrei verið allra. Sættu þig einfaldlega við það svo að þú eyðir ekki umfram orku í að sannfæra aðra um eigið ágæti og verða jafnvel samt fyrir vonbrigðum. Það þarf ekki öllum að líka við þig, ekki frekar en þér líkar ekki við alla. Ég tek þó fram að ég er ekki að tala um að sýna hroka eða dónaskap enda enginn yfir það hafinn að sýna lágmarks virðingu og kurteisi. En eina leiðin til þess að vera ekki gagnrýnd er að gera ekki neitt, segja ekki neitt og vera ekki neitt. En þá ertu um leið farin að vera ,,eins og fólk vill hafa þig” í stað þess að lifa lífinu á þínum eigin forsendum. Vissirðu að ein  stærsta eftirsjá í lífi fólks á grafarbakkanum er: ,,Ég vildi óskað að ég hefði lifað lífinu eins og mig langaði til en ekki eins og aðrir væntu af mér?“.  Ekki falla í sama pytt. Þetta er þitt líf og þú þarft, mátt og átt að finna þá leið sem færir þér sátt.

10. Passaðu þig á þér!
Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir ekki máli hvort þú sért allra eða engra, sumra eða margra – það sem öllu skiptir er að þú sért þín og þinna. Þinna í þeirri merkingu að líða vel og eiga í fallegum samskiptum við þá sem raunverulega skipta þig máli í lífinu. Þín í þeirri merkingu að eiga í uppbyggilegum og dásamlegum samskiptum við fallegu konuna í speglinum sem verður þér alltaf samferða. Aðrir staldra aðeins mislengi við í lífi þínu. Í lok dags er það því hvorki fjölskylda, vinnufélagar, vinir né annað samferðafólk sem gerir lokaúttektina á því hvernig manneskja þú varst og hvort þú lifðir lífinu á réttan hátt eða rangan. Þú og aðeins þú hefur dómsvaldið hvað það varðar. Þess vegna leyfir þú héðan í frá og það sem eftir er ævi þinnar ekki öðrum að hafa fjarstýringu á tilfinningalíf þitt, ekki satt?

– Aldís Arna

Aldís Arna Tryggvadóttir starfar sem PCC vottaður markþjálfi, streituráðgjafi, klínískur dáleiðari, heilari og fyrirlesari hjá Heilsuvernd.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is