Tískustraumar í innanhússhönnun 2024

Sem arkitekt sem vinnur meðal annars mikið við það að hanna vinnustaði og heimili fólks þá finnst mér mikilvægt að fylgjast vel með tískustraumum, en um leið að reyna að aðgreina tískubylgjur frá því sem er komið til að vera. Sem betur fer fara klassísk húsgögn og vönduð efniskennd seint úr tísku en ég reyni alltaf að hafa það í huga. Svo verður líka að taka fram að er ekkert heilagt í þessum efnum og að það er ekkert skemmtilegra en að brjóta reglurnar þegar það á við. 

Það skemmtilega við trendin í innanhússhönnun þessa dagana er að áherslan er á að fólki líði sem best í daglegu lífi. Það felst í ýmsu en sem dæmi má nefna að við erum að hverfa frá þessum drungalegu litum sem einkenndu fyrir nokkrum árum tískuna og virðast enn vera landlæg hér á landi. Dökkir litir í gráum tónum eiga auðvitað heldur ekkert erindi hér á landi, sérstaklega í skammdeginu. Nú hættum við að mála öll húsgögn svört og hvað þá heilu sumarbústaðina, við hættum líka að lækka lofthæðina með því að mála loft í dökkum litum en ef þú ert ekki með aukna lofthæð hjá þér þá er það nánast alltaf slæm hugmynd að mála loftin þín í dökkum litum. Leyfum líka gluggapóstum og kistum að vera hvítum, mundu það að ef þú málar gluggakistur svartar þá endurkastast birtan ekki af þeim en góð dagsbirtuskilyrði eru okkur eins mikilvæg og öðrum lífverum. Það er nefnilega að birta til í innanhússhönnun sem eru góðar fréttir.

Með ljósari litum og bjartari rýmum þá fær persónleikinn líka að njóta sín, nú skiptir öllu að rými verði persónuleg og einstök. Heima fyrir viljum við að persónleiki heimilisfólks endurspeglist í listinni á veggnum, í ættargripum og litum. Á vinustöðum viljum við sjá gildi vinnustaðarins endurspeglast í hönnuninni.

Aukin meðvitund um innivist og eiturefnalaus efni er komin til að vera og við veljum sérstaklega málningu sem er vottuð, mottur og húsgögn sem hafa fengið meðmæli astmasamtaka og fleira í þeim dúr. Það er gaman að segja frá því að náttúruleg efni eins og viður, korkur og plöntur hafa líka jákvæð áhrif á líðan og vinnuframleiðni, en flest vinnum við betur þegar okkur líður vel. Það er kallað Biophilic design og er eitthvað sem allir betri hönnuðir hafa í huga í dag.

Umhverfisvitund og sjálfbærnihugsun hefur líka mikil áhrif á trendin en húsgögn úr endurunnum efnum og notuð húsgögn með sögu verða vinsælla en nokkru sinni fyrr. Munum það líka að vönduð og falleg klassísk húsgögn fá yfirleitt að búa hjá okkur mun lengur en mikil tískuhúsgögn, auk þess sem þau eignast mun frekar framhaldslíf.

Sem dæmi má taka eru eldhús sem við erum að vinna með núna gjarna með flísum í handgerðu útliti, í ljósum litum í bland við fallega eik með fallegum ljósum stein og jafnvel með hellum sem eru byggðar undir steininn og sjást ekki alla jafna. Gólfefni eru náttúruleg í hlýlegum litum.

Það sem ég myndi forðast núna eru:

  • Grá gólf, hvort sem það er grátt parket eða gráar flísar, farið frekar í náttúrulega hlýja liti.
  •  Of dökka liti á veggi, og hvað þá á loft og glugga en í staðinn skulum halda okkur við ljósa og hvíta liti en að eru til ótal afbrigði af hvítum lit. 
  • Sömu stóru flísarnar á bæði veggi og gólf inni á baði en í staðinn nota minni flísar í fallegum litum, gjarna með handgerðu útliti á veggina. Svo eru baðherbergi sjaldnast nógu stór til þess að 60×60 cm flísar eigi rétt á sér.
  • Að kaupa nýja fjöldaframleidda skrautmuni, förum frekar í góða hirðinn eða kíkjum á Facebook market place eða jafnvel bara í geymsluna og finnum gamla gleymda ættargripi sem eru áhugaverðari en skálin á fæti sem allir aðrir eiga. 
  • Húsgögn úr undraefnum sen eiga að þola allt, það er ástæða til þess að staldra við og skoða úr hverju þessi efni eru og hvort þau séu nokkuð húðuð með eiturefnum. Veldu þá frekar áklæði sem hægt er að þvo eða sættu þig við það að það sjái á þeim með tíð og tíma.

En munum líka að vera ekki að hlusta of mikið á arkitekta úti í bæ og gerum eins og okkur langar til, ef þig dauðlangar í tískuskálina fáðu þér hana þá bara.

Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur. Hún er meðeigandi og stofnandi arkitektastofunnar Stúdíó Jæja og stendur nú í uppgerð á litlu miðborgarhóteli, ásamt því að halda úti instagram reikningnum www.instagram.com/hvasso_heima þar sem hún deilir ýmsu varðandi hönnun, arkitektúr og heimili. 

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

  • All Post
  • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is