Verum ljós í lífi annarra kvenna

Harpa Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla ehf. / Ljósmynd: Silla Páls

Hvernig myndir þú lýsa þér?
Ég er drífandi og jákvæð. Tek oftast hlutunum með opnum hug og er tilbúin að skoða hvaða leiðir eru færar í aðstæðunum. Held ég sé líka lausnamiðuð og góðviljuð. Ég vona allavega að fólk sjái mig þannig og vil vera þannig.

Getur þú lýst því sem þú ert að gera í dag og hvaða hlutverki það gegnir?
Ég er framkvæmdastjóri Hoobla. Hoobla er verkvangur sem veitir vinnustöðum aðgang að yfir 600 sérfræðingum, stjórnendum og ráðgjöfum sem taka að sér tímabundin verkefni og störf í lágu starfshlutfalli (allt niður í 5% starfshlutfall). Það er nefnilega ekki alltaf þörf á að hafa sérfræðinga og stjórnendur í 100% starfshlutfalli. Einnig hefur það gagnast vinnustöðum að brúa bil með sérfræðingum frá Hoobla vegna forfalla hjá stjórnendum og sérfræðingum. Stysti tíminn sem hefur liðið frá því að verkefni kemur inn í Hoobla þar til sérfræðingurinn byrjar að vinna er 1 vika. Þannig að við getum brugðist mjög hratt við ef aðstæður á vinnustöðum kalla á að fá sérfræðing hratt inn.

Það er vöntun á sérfræðingum á mismunandi sviðum á íslenskum vinnumarkaði og með því að nýta deilihagkerfi þá hafa fleiri vinnustaðir aðgengi að þeirri þekkingu sem þörf er á hverju sinni, geta skalað hratt upp og niður eftir aðstæðum og að auki næst aukin hagræðing með því að lágmarka fastan kostnað.

Harpa ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra / Ljósmynd: Silla Páls

Hvað varð til þess að þú tókst þér þetta fyrir hendur?
Mér var sagt upp starfi mínu sem mannauðsstjóri hjá ORF Líftækni og Bioeffect í janúar 2021. Ég hafði starfað þar í 15 ár, unnið með 5 forstjórum og átt virkilega skemmtilegan tíma með fyrirtækinu á vaxtaskeiði þess. En svo verða alltaf breytingar af og til og þá er komið að tímamótum.
Þetta voru slík tímamót og ég fann að mér langaði að gera eitthvað uppbyggilegt, skemmtilegt og krefjandi í kjölfarið og helst vildi ég stofna fyrirtæki sjálf.

Eftir umhugsun, hugarflug og undirbúningsvinnu fékk ég nokkrar hugmyndir að fyrirtækjum sem ég taldi að gætu orðið að einhverju. Bar þessar hugmyndir undir fólk sem ég treysti vel og hafði reynslu af nýsköpun og rekstri fyrirtækja.

Úr varð að ég stofnaði Hoobla 17. júní 2021. Og ég er alveg 100% viss um að þetta var það besta sem ég gat tekið mér fyrir hendur. Þetta hefur verið svo gríðarlega skemmtilegt og gefandi.

Vinkonurnar fóru í myndartöku í tilefni að 50 ára afmælisári þeirra/ Ljósmynd: Silla Páls

Settir þú þér markmið fyrir árið 2024?
Já ég setti mér nokkur markmið fyrir árið 2024. Undanfarin 5 ár þá hef ég í lok hvers árs sest niður og farið yfir það sem hefur áunnist á árinu, hugleitt hvað hefði mátt betur fara og hvað ég er ánægð og þakklát fyrir. Svo set ég mér markmið fyrir nýtt ár með því að búa til draumaspjald. Á draumaspjaldinu er ég búin að setja fram mín helstu markmið og drauma fyrir árið.

Á þessu ári langaði mig t.d. að fara með foreldrum okkar og börnum í ferðalag. Svo er ég að verða 50 ára á árinu og mig langar að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni af því. Svo eru það markmið tengd heimilinu þar sem mig langar að færa garðinn í þannig horf að viðhaldið sé sem minnst. Einnig langar okkur að klára bílskúrinn okkar. Svo er ég með heilsutengd markmið sem snúa að því að hreyfa mig meira og eiga fleiri gæðastundir tengt hreyfingu, helst þar sem við erum með fjölskyldu og vinum.

Að lokum eru það svo vinnutengd markmið og þau eru flest mjög háleit og metnaðarfull og erum núþegar búin að ná nokkrum þeirra, eins og t.d. að bæta við virkniþáttum inn í hugbúnað Hoobla og við vorum einmitt að fagna því í síðustu viku. Persónulegu markmiðin eru byrjuð að skila sér. Við vinkonurnar fórum t.d. í myndatöku í tilefni af 50 ára afmælum okkar, sem var gríðarlega skemmtilegt. Svo fórum við í ferð með foreldrum mínum og foreldrum mannsins míns í febrúar. Þannig að það er gaman að sjá draumaspjaldið raungerast á árinu.

Harpa ásamt eiginmanni sínum Skúla Haraldssyni, stjórnanda hjá Landhelgisgæslunni

Hvað er það mest krefjandi sem þú hefur þurft að takast á við?
Það sem er mest krefjandi er ef eitthvað kemur upp í fjölskyldunni, t.d. veikindi. Ég hef þurft að takast á við slíkt og það reynir mest á mann. Áhyggjur af þeim sem manni þykir vænst um er alltaf erfitt. 

Það besta við að komast í gegnum veikindi og standa saman í gegnum veikindi er að maður veit þá hversu gott maður hefur það þegar góðri heilsu er náð á ný. Oft er sagt að „það sem drepur mann ekki, styrkir mann“.  Það er mín reynsla eftir að hafa komist í gegnum veikindi með ástvini er að við eigum þessa reynslu saman, við erum sterkari saman og tilfinningin er að þetta geri sambandið sterkara og einlægara.

Ef þú ættir að lýsa einum vinnudegi hvernig myndi hann líta út?
Það er erfitt að lýsa einum degi, því þeir eru svo fjölbreyttir. Ég mæti yfirleitt í vinnuna um kl. 9, eftir að hafa fengið mér léttan morgunverð heima. Elska að eiga smá rólegan tíma með sjálfri mér í byrjun dags áður en ég fer í vinnuna. Þegar ég kem í vinnuna byrja ég á að klára þau verkefni sem þurfa að klárast fyrir hádegi, t.d. fara yfir tilboð sérfræðinga sem hafa gert tilboð í verkefni og meta hæfustu sérfræðingana fyrir verkefnin.

Tek mér yfirleitt stutta pásu um kl. 10:30 og fæ mér eitthvert snarl og ræði við samstarfskonu mína um verkefnin. Ég fer yfir þau verkefni sem eru að koma inn og ræði við viðskiptavini um þau og við metum oft hvort þurfi að laga eitthvað í lýsingunni á þeim. Tek mér stutt hádegishlé þar sem við setjumst niður og finnum úrlausnir á helsta heimsins vanda… eins og gerist oft á kaffistofum. Svo fer allt á fullt aftur. Er mikið að taka fundi með fyrirtækjum og stofnunum og kynna Hoobla fyrir þeim. Segja þeim frá kostum þess að fá sérfræðinga, stjórnendur og ráðgjafa í tímabundin verkefni og hlutastörf.

Í lok dags er ég að fara yfir þá samninga sem hafa verið gerðir, aðstoða við að aðlaga verksamninga eftir þörfum viðskiptavina og undirbý svo morgundaginn. Klára það sem þarf að klára áður en ég fer heim. Ég fer að minnsta kosti 3 daga í viku í hreyfingu eftir vinnu – sem er þá yfirleitt jóga eða göngutúr.

Dagarnir eru mislangir og stundum verða þeir mjög langir og enda jafnvel með tölvuna á lærunum uppi í sófa á kvöldin. En eðli vinnunnar kallar á mikla vinnu þar sem ég er að byggja upp fyrirtæki. Svo hef ég líka alveg rosalega gaman af vinnunni minni þannig að mér finnst bara gaman að vera að grúska í vinnutengdu efni fram eftir kvöldi. Börnin mín eru orðin fullorðin þannig að þetta er allt í góðu.

Hverjar eru helstu áskoranir þínar í dag?
Helstu áskoranir mínar snúa að tímum sólarhringsins. Ég vildi stundum að þeir væru fleiri. Ég forgangsraða fjölskyldunni fyrst ef ég veit að það er eitthvað sem við erum að fara að gera saman. Svo kemur vinnan þar á eftir. En ég reyni alltaf að passa vel upp á svefninn og hreyfingu þannig að það fari ekki allt í klessu. Dagarnir mínir eru almennt mjög þéttir. En ég veit að eftir því sem ég næ að ráða inn fleiri starfsmenn þá mun álagið minnka. En þangað til þá er ég bara mjög ánægð með fyrirkomulagið.

Harpa vill njóta lífsins og eiga gæðastundir með fjölskyldunni

Hver er framtíðarsýn þín?
Ég vil trúa því að heimurinn eigi eftir að ná friði á ný og að jarðarbúar fatti að við viljum öll það sama, þ.e. frið, fæði, klæði og skjól og að vera umkringd ástvinum okkar.

Ég er með mikinn persónulegan metnað og háleit markmið fyrir Hoobla. Ég sé fyrir mér að Hoobla verði stórkostlegt fyrirtæki sem skapar fjölmörg atvinnutækifæri fyrir þá sérfræðinga sem eru í samstarfi við Hoobla og veitir góða þjónustu til þeirra fyrirtækja og stofnana sem nýta sér þjónustu Hoobla.

Einnig langar mig að skapa vinnustað þar sem fólki líður vel að vinna á. Og ég vil vinna með fólki sem hefur metnað fyrir að sjá Hoobla verða stórkostlegt fyrirtæki.

Svo á ég líka framtíðarsýn varðandi fjölskylduna mína sem ég elska mest. Að við séum öll heilsuhraust, getum notið lífsins og átt gæðastundir saman.

Spakmæli (quote) sem veita þér innblástur?
Ef þú tekur öllu persónulega, verður þú móðguð það sem eftir er af lífinu (Þýtt frá Marc og Angel Chernoff).

Ég hvet allt fólk til að læra að taka hlutunum ekki persónulega. Það hjálpar okkur svo mikið. Ég var á milli tvítugs og þrítugs þegar ég lærði þetta og þetta gerbreytir viðhorfi manns. Í stað þess að taka hlutunum persónulega og vera hörundsár getur maður tekið gagnrýni sem rýni til gagns. Og maður getur leitt hjá sér ómálefnalega gagnrýni.

Louise Hay hefur haft jákvæð áhrif á líf Hörpu

Bækur/hlaðvörp sem hafa haft jákvæð áhrif á þig og þitt líf?
„I can do it“ eftir Louise Hay, „From Good to Great“ eftir Jim Collins, „Thorsararnir“ eftir Guðmund Magnússon og svo verð ég líka að nefna Biblíuna sem er líklega sú bók sem hefur mótað menningu okkar mest og er undirstaða vestrænna gilda.

Nýr lærdómur eða aha móment?
Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, hvort sem það er af öðru fólki eða úr einhverju sem ég les eða sé. Síðasta aha móment var færsla sem ég sá á LinkedIn frá Auði Ösp Ólafsdóttur. Mér finnst þarft að við séum stundum minnt á hvað skiptir máli. Hún er að tala um hvernig við getum óvart færst frá lífsgildum okkar í lífsgæðakapphlaupi. Hún sagði í lok færslu sinnar: “ Ef þú ert kona sem færð ótrúlega mikið út úr því að vera vel til höfð, í réttu starfi, í ofurmaraþonum og kampavínsboðum þá fagna ég þér og megir þú gera það sem lengst og oftast. Þú ert geggjuð týpa.
En ef þú ert kona sem langar bara að leggja þig, lesa góða bók eða kannski baka með börnunum þínum – þá má það líka. Þú ert líka geggjuð týpa.“

Kona sem þú lítur upp til?
Ég hef alltaf litið upp til móður minnar og formæðra minna. Endalaus dugnaður, aðlögunarhæfni og ósérhlífni sem hefur gengið áfram frá móður til barna sinna, frá kynslóð til kynslóðar. Hér er ég að tala um skapgerð sem gefst aldrei upp. Alveg sama hvað.

Svo er dóttir mín alltaf að kenna mér eitthvað nýtt, t.d. bara að sleppa tökum og vera ekki of stjórnsöm. Ég lít upp til hennar. Það er gleðilegt að fylgjast með börnum sínum verða að góðu ungu fólki sem ég er stolt af.  

Byggða á þinni reynslu hvaða ráð myndir þú vilja gefa öðrum konum?
Lífið er stutt. Látum það því vera uppbyggilegt og til gagns. Ég veiktist alvarlega árið 2017 og áttaði mig þá á að maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Áttaði mig þá á að mér langar að skilja við heiminn aðeins betri en ég kom í hann. Það þýðir ekki endilega að ég ætli að gera einhver stórvirki. En ég ætla svo sannarlega að gera það besta við hvern dag á þeim vettvangi sem ég er á og hef áhuga á að vera á. Það getur þýtt heimilið mitt og fjölskylda, það getur þýtt félagasamtök sem ég tek ábyrgðarstöðu í, það getur þýtt starfið sem ég sinni, það getur þýtt áhugamálin mín eða eitthvað annað. Maður getur alltaf skilið eftir jákvæð fótspor þar sem maður kemur.

Ég segi líka „Verum ljós í lífi annarra kvenna“. Ég hef fengið hjálp frá öðrum konum. Aðrar konur og fyrri kynslóðir kvenna hafa rutt brautina á undan mér á ýmsum sviðum. Konur hafa veitt mér góð ráð þegar ég þurfti á að halda, konur hafa peppað mig áfram og kynnt mig fyrir fólki sem hefur getað hjálpað mér þegar ég þurfti á því að halda. Verum slík ljós fyrir hvora aðra.

– Harpa Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is