Raunveruleg lífsgæði er orkan okkar

Frá 2019 hef ég starfað sem dáleiðari og heilari. Ég kenni líka ýmis námskeið um hugarfar og frelsi. Ég er með netnámskeið á netinu sem eru blanda af fræðslu, dáleiðslu og þjálfun, eins og námskeiðið mitt Frelsi frá kvíða, Frelsi frá áföllum og Vellíðan á vinnustað. Ég vinn nú í fullu starfi við að hjálpa fólki að brjótast út úr krónískum neikvæðum einkennum eins og kvíða, ofsakvíða, brotinni sjálfsmynd, depurð, þreytu, verkjum og vöðvabólgu. 

Ég nota blandaða nálgun þar sem fólk sem leitar til mín byrjar yfirleitt á að vinna daglega heima, ca. 30 mín á dag, hlustar daglega á dáleiðslur til að vinna á rótum vandans og svo fræðsla í myndbandaformi þar sem fólk fræðist um hverjar eru rætur vandans og hvað þarf til að fá frelsi frá þessu. Síðan kemur fólk í einkatíma þar sem ég kenni fólki að finna rætur vandans og fjarlægja þær. 

Við vinnum út frá þeirri staðreynd að allt er orka – hugsanir okkar eru orka, tilfinningar okkar eru orka og líkaminn er orka. Kvíði er líka orka og þess vegna er orkuvinna svo mikilvæg þegar kemur að því að fá frelsi frá kvíða. Þreyta, streita, depurð, þráhyggja, áhyggjur, álag – allt þetta er orka og ef við ætlum að fá frelsi frá þessu verðum við að vinna með orkuna okkar. 

Mitt markmið er að skjólstæðingar mínir fá fræðsluna og þjálfunina sem þarf til að þeir geti hjálpað sér sjálfir og vinni svo daglega í sínu hugarfari og sinni orku, þessi nauðsynlega sjálfsvinna sem er lykillinn að lífsfyllingu og vexti. 

Ég býð einnig upp á fyrirlestra, námskeið og hugleiðslur fyrir vinnustaði, verkefnið mitt ,,Vellíðan á vinnustað“ sem hófst í kjölfar covid þegar einstaklingar fóru að leita til mín í síauknum mæli með alvarleg kulnunar og langvarandi streitu og þreytu einkenni. Það hefur gengið ótrúlega vel og fyrirtæki og stofnanir leita til mín í síauknum mæli í þeim tilgangi að hjálpa fólkinu sínu að fá tæki og tól til að öðlast frelsi frá streitu, kvíða og álagi í vinnu sem og heima. 

Hvað varð til þess að þú valdir þennan starfsvettvang?
Ég er lögmaður að mennt og hef starfað sem slíkur frá árinu 2016. Ég var með eigin rekstur, hafði ráðið fulltrúa í starf og fyrirtækið gekk mjög vel. Hins vegar var ég farin að verða veikari og veikari, var með ofboðslegan kvíða og ofsakvíða, glímdi enn við leifar af gamalli átröskun, hafði mjög brotna sjálfsmynd sem hamlaði mér í mínu starfi, glímdi við króníska verki í baki, hálsi, herðum og öxlum og var sífellt þreytt. 

Ég vaknaði þreytt og var þreytt allan daginn. Verkirnir í líkamanum voru orðnir það slæmir að ég átti orðið erfitt með að vinna heilan vinnudag. Ég vaknaði stundum á nóttinni í ofsakvíðakasti. 

Ég var svo stressuð í vinnunni að ég var farin að fá endurteknar sýkingar, bæði þvagfærasýkingar og eyrnabólgur. 

Ég leitaði allra leiða til að fá lausn, lækna, var í sjúkraþjálfun í meira en ár, fór til osteopata, kírópraktors, nálastungur, nudd, kaldan pott, ekkert virkaði og ég varð bara veikari og verkjaðri. 

Ég skildi ekki hvers vegna ég var svona veik – ég var hætt að drekka (hafði glímt við alvarlegan fíknisjúkdóm en varð edrú í desember 2013), ég lifði reglusömu lífi, hætt að reykja, hreyfði mig daglega, fór í fjallgöngur með hundinn, borðaði hollan mat – það var ekkert í mínum ytri lífsstíl sem kallaði á eða skýrði svona alvarleg veikindi. Ég var sannfærð um að ég væri með vefjagigt og einn sjúkraþjálfarinn sem ég leitaði til sagði mig með öll einkenni þess. 

Ég var orðin mjög örvæntingarfull af heilsukvíða, var sannfærð um að ég væri með krabbamein í baki og þess vegna væri ég svona bakverkjuð, trúði því að ég væri sjúkdómsfórnarlamb og myndi enda á örorku því ég gæti ekki unnið lengur svona verkjuð og þreytt og kvíðin. 

Það var ekki fyrr en ég fór að stunda hugleiðslu, tengja mig inn á við, fór svo í dáleiðslu, sem ég fór að komast að því hvað það var sem var að valda þessum veikindum. Ég las allt sem ég gat fundið um undirmeðvitundina og mátt hugans þegar kemur að heilsufari okkar, ég vann daglega í sjálfri mér, notaði batahugleiðslu, orkuheilun og fór svo að vinna mjög alvarlega í mínu eigin hugarfari – þetta bataferðalag hófst vorið 2019 og í september, október var ég komin í verulega flottan bata, nánast orðin verkjalaus, kvíðinn miklu miklu minni og ég orðin orkumeiri. 

Þetta gerðist svo hratt eftir að ég komst loksins að því hvað olli veikindunum og ég gat unnið markvisst með það – ef við vitum ekki hvað veldur veikindunum þá erum við svo mikið að fálma okkur áfram í myrkrinu og komumst oft hvorki lönd né strönd með batann okkar. 

Ég man eftir því að ég fór erlendis til Englands með syni mínum og fjölskyldu í júní 2019. Sonur minn átti 3 ára afmæli og við fórum í risaeðlugarð af því tilefni en ég man að ég grét af kvíða yfir flugferðinni því ég átti svo erfitt með að sitja vegna bakverkja og úti á Englandi bruddi ég verkjalyf og bar hitakrem á bakið og var bara í mjög mikilli kvöl. 

Það er skrýtið að hugsa tilbaka því í dag og frá lok árs 2019 hef ég verið algjörlega frjáls frá þessum einkennum: kvíðanum, ofsakvíðanum, krónísku verkjunum, þreytunni, þessari brotnu sjálfsmynd. Ég er ótrúlega sjálfsörugg, orkumikil, mér líður mjög vel í líkamanum og ég er glöð og ánægð. Ég er frjáls frá kvíða og streitu því ég skil hvað þetta er og hvernig ég hef vald yfir þessari neikvæðu orku sem kvíði og streita er. Það var einmitt þegar ég fékk frelsið mitt sem ég fékk þessa sýn – sýn um að ég yrði að hjálpa öðru fólki sem er að glíma við þessi einkenni sem ég glímdi við. Þá fór ég og lærði dáleiðslu og síðan þá hef ég verið að hjálpa öðrum að fá frelsi frá þessu með því að gera það sem ég gerði og þess vegna bjó ég til námskeiðið Frelsi frá kvíða sem var fyrsta námskeiðið sem ég bjó til. Það námskeið er aðgengilegt hér. Eftir það hafa fleiri komið og ég sé fólk fá ná stórkostlegum árangri og frelsi í hverri viku sem er dásamlegt. 🙂

Ég tók svo endanlega ákvörðun í fyrra um að hætta í lögmennsku og snúa mér alfarið að þessu og ég sé ekki eftir því. Minn tilgangur er að vera dáleiðari og heilari og hjálpa fólki og það er ástæðan fyrir því að ég var svona veik svona lengi. Þannig get ég líka horft tilbaka á alla þessa þjáningu og hugsað til þess með þakklæti, því hver er betur til þess fallinn að hjálpa öðrum út úr eyðimörkinni en sá sem hefur sjálfur týnst þar og fundið leiðina út og svo hjálpað fjölmörgum öðrum að rata út líka?

Hverjar er helstu áskoranir skjólstæðinga þinna?
Helstu áskoranir þeirra eru þær rætur sem valda neikvæðu einkennunum. Hvort sem þetta er kvíði, depurð, ofsakvíði, þreyta, streita, verkir eða ofhugsanir, þá eru þetta alltaf sömu þrjár meginræturnar. 

Fyrsta rótin er sú að það er eitthvað óheilbrigt í sambandinu sem við eigum við okkur sjálf. Hvort sem það er sjálfshatur, sjálfshöfnun, sjálfsvantraust eða sjálfsofbeldi sem er allt of algengt (sjálfsniðurrif, sjálfsásökun, sjálfsfordæming) að leggja óhóflegar og ósanngjarnar kröfur á sig, berja sig áfram með svipu, leyfa sér ekki vera maður sjálfur, trúa því að maður sé ekki nóg, sé ekki að gera nóg, osfrv., 

Þegar við eigum svona óheilbrigt samband við okkur sjálf myndast gapandi sár og sársauki innra með okkur og þar myndast kjöraðstæður fyrir kvíða, depurð, þreytu, streitu og verki innra með okkur. 

Það fyrsta sem skjólstæðingar mínir gera að byrja að hlusta daglega á dáleiðslur sem hjálpa þeim að stíga það skref að elska sig skilyrðislaust, meðtaka sig, samþykkja og viðurkenna sig eins og maður er. Þá er stopp á neikvætt sjálfsniðurrif sem er ekkert annað en sjálfsofbeldi gríðarlega mikilvægt bataskref. Slík vinna krefst þess að tengja sig inn á við og taka ákvörðun frá hjartanu í dáleiðsluástandi. Þá nær ákvörðunin í gegn og raunveruleg breyting verður innra með okkur. 

Önnur meginrótin er þessi uppsafnaða neikvæða orka sem safnast fyrir í líkamanum okkar. Við höfum öll fengið hnút í magann, þyngsli yfir bringu og þá erum við að finna fyrir þessari neikvæðu orku. Áföll eru orka. Kvíði, gremja, reiði, streita, álag er allt orka og þegar við lendum í erfiðleikum þá myndast slík orka innra með okkur. Það er allt of algengt að við vinnum ekki úr þessu á fullnægjandi hátt og þá festist þetta innra með okkur og býr til neikvæð einkenni eins og meltingarvandamál, vöðvabólgu, verki, eftirsjá, sjálfsvorkunn. Þegar ég var veik áttaði ég mig loksins á því að líkaminn minn var yfirfullur af neikvæðri orku og áföllum fortíðar og það var að skapa króníska verki og vöðvabólgu. Þegar ég lærði heilbrigðar aðferðir við að losa þessa orku út og gera fortíðina upp fékk ég stórkostlegan bata og frelsi frá fortíðinni og þessari neikvæðu uppsöfnuðu orku. Ég bjó til netnámskeiðið Frelsi frá áföllum sem hjálpar fólki að taka inn þessa daglegu iðkun þar sem fólk tekur frá 20 mín á dag til að vinna þessa stórkostlegu vinnu. Námskeiðið er aðgengilegt hér www.frelsifrakvida.is/afollum

Þriðja rótin er svo óheilbrigt hugarfar. Hver hugsun er orka og við erum alltaf að framleiða orku innra með okkur með því hvernig við hugsum og ef að hugarfarið er mjög óheilbrigt: 

of hraðar hugsanir, og margar hugsanir, ofhugsun, þrjáhyggja, kvíðahugsanir, streituhugsanir, neikvæðar hugsanir, neikvætt sjálfsniðurrif, sjálfsásökun, osfrv. – þá ertu að framleiða mjög mikið magn af neikvæðri orku og vanlíðan innra með þér og þá líður manni mjög illa. Okkur líður eins og við hugsum dags daglega og lausnin er sú að læra að stýra hugsunum okkar og þannig stýra líðan okkar og þjálfunin í námskeiðum mínum snýst að miklu leyti um þessa umbreytingu á hugarfarinu og hugarfarsþjálfun. Ef við viljum breytast þurfum við að breyta orkunni okkar, þ.e. hugsununum okkar því það er það sem skapar okkur, okkar heilsu og líðan. 

Hverjum er þessi nálgun hjálpað?
Þetta getur hjálpað öllum sem eru að glíma við kvíða, brotna sjálfsmynd, depurð, þreytu, verki, óheilbrigt hugarfar, eirðarleysi, streitu og álagseinkenni og öllum þeim sem hafa áhuga á að læra að stýra líðan sinni því með því kemur raunverulegt frelsi. Ef við getum ekki stýrt okkar eigin hugsunum og okkar eigin líðan gerir einhver eða eitthvað annað það – eins og t.d. kvíðinn – og það er vondur staður að vera á – að vera á valdi kvíðans. 

Þegar við lærum að stýra líðan okkar fyllumst við orku eins og skilyrðislausum kærleika, friði, frelsi, gleði, hlátri, þakklæti, alsnægtum, vellíðan, fögnuði – allt þetta er orka sem við getum framleitt innra með okkur og valið að lifa í, við þurfum bara að læra það og allir geta lært þetta. En maður þarf að vera tilbúinn að leggja smá vinnu á sig daglega, lágmarkið er 30 mín á dag, en það er algerlega þess virði. Raunveruleg lífsgæði er orkan okkar – hvernig okkur líður hverju sinni. Að geta stýrt þessum lífsgæðum er stórkostlegt frelsi. 

Hver er þín framtíðarsýn?
Framtíðarsýnin er sú að ná til enn fleiri til að hjálpa enn fleirum. Þess vegna er ég mjög virk á samfélagsmiðlum og set mikið af fræðslu og dáleiðslum á netið svo fólk geti hlustað og prófað.“

Skemmtilegar sögur af vinnunni?
Skemmtilegustu sögurnar eru auðvitað batasögur skjólstæðinga minna sem fá hjartað mitt til að syngja og sumir hafa verið svo yndislegir að leyfa mér að birta batasögurnar, það er hægt að lesa þær hér. 

Áttu einhverjar uppáhalds bækur eða hlaðvörp?
Framundan er nýtt hlaðvarp sem heitir Frelsi frá kvíða og er sjálfsbreytingarhlaðvarp, blanda af fræðslu og dáleiðslum/hugleiðslum sem koma út vikulega og hjálpa þér að vinna í þér með reglulegum hætti. Það hlaðvarp fer í loftið á næstu dögum svo um að gera að fylgjast vel með því. 

Fimm ráð fyrir lesendur:

1. Byrja að stunda hugleiðslu með ásetningi að fá bata 5 mín daglega
2. Læra um undrakrafta undirmeðvitundar þinnar og hvaða áhrif hugurinn hefur á líðan okkar og heilsu
3. Byrja að hugsa hvað er ég að hugsa? Sérstaklega ef þú finnur hnút í magann eða spennu í líkamanum, staldra við og hugsa hvað er ég búin að vera að hugsa núna?
4. Hættu að beita sjálfa þig ofbeldi með niðurrifi, sjálfsásökunum eða sjálfsfordæmingu. Þú þarf að vera þín eigin besta vinkona og með sjálfri þér í liði, ekki á móti þér. 
5. Sestu niður, dragðu djúpt inn andann og lokaðu augunum. Taktu ákvörðun frá hjartanu um að fyrirgefa sjálfri þér allt frá upphafi og elska sjálfa þig skilyrðislaust. Gerðu þetta daglega í 5 daga og finndu léttinn!

Að lokum…
Ég hvet alla til að hefja sitt sjálfsbreytingarferðalag strax í dag. Þegar við glímum við einhvers konar vanlíðan þurfum við alltaf að leita inn á við eftir svörum. Vanlíðanin er innra með okkur og undirmeðvitundin veit alltaf hvað er að og hvað veldur. Þess vegna er hugleiðsla og dáleiðsla lykill að því að ná þessari tengingu inn á við og fá svör. 

Takk kærlega fyrir mig.

kv. Sara

Sara er með ókeypis grúppu á facebook sem heitir Frelsi frá kvíða ókeypis fræðsla og dáleiðslur.
Á instagram og Tiktok : Sara daleiðari og hún er einnig á youtube.

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu hennar frelsifrakvida.is og sarapalsdottir.is. Námskeiðin fyrir vinnustaði má finna á frelsifrakvida.is/vellidanavinnustad  og Frelsi frá áföllum

AÐRAR GREINAR

 • All Post
 • Ferðalög
 • Fjármál
 • Heilsa
 • Lífstíll
 • Matur
 • Samskipti
 • Vinsælt
  •   Back
  • Fjölskyldan
  • Sambönd
  •   Back
  • Það sem ég hef lært
  • Óskalistinn
  • Fyrirmynd
  •   Back
  • Uppskriftir
Fimmtug og sjóðandi HEIT

17. mars, 2024

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu og íþróttasviðs IcepharmaAllavega er mér búið að vera alveg rosalega heitt…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

 • All Post
 • Vinsælt

Lífstíll

 • All Post
 • Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is

SALINA.IS

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða hefur áhuga á að fá þína grein birta á vefsíðunni, þætti okkur virkilega gaman að heyra frá þér.

berglind@salina.is 

FLOKKAR

TÖGG