Mér finnst ég ávallt vera bænheyrð

Þegar maður nálgast fimmtugt eins og óð fluga er ýmislegt sem maður telur sig hafa lært. Við breytumst í áranna rás. Kannski ekki kjarninn í okkur en hugsun, orð og gjörðir breytast í takt við reynslu og aukna visku. Það er gott. Eini leiðinlegi fylgifiskurinn er sá að mér finnst ég núna minna æst yfir öllu. Það er gott en líka stundum hundleiðinlegt.

Í dag reyni ég að velja mikið betur viðbrögð mín við öllu mögulegu og deili ekki með hverjum sem er tilfinningum mínum og líðan. Ég geymi slík samtöl fyrir þá sem eru mér næstir og ég treysti best. 

Ég vel ennfremur orðin mín betur en ég gerði. Ég reyni að vanda mig, svo ég skaði hvorki sjálfa mig né aðra með orðum mínum, né valdi misskilningi. 

Í dag veit ég betur að það er eðlilegt að vera stundum leiður eða út á hlið. Það líður hjá. Algjör óþarfi ‘panikka’ yfir því.

Ég bið fyrir því sem ég hef áhyggjur af eða þarf hjálp með. Og ég þakka fyrir það sem ég er þakklát fyrir. Ég bið um leiðsögn um alla skapaða hluti. Oft geri ég þetta í gönguferðum. Mér finnst ég ávallt vera bænheyrð. 

Enginn veit hvers óska ber. Ég treysti því betur í dag að allt sé eins og það eigi að vera. Og reyni að sjá blessunina í því erfiða. Auðvitað bregst mér stundum bogalistin, en ég reyni að treysta því og trúa, að svo sé. Og bið um hjálp við það. Þetta gerir allt auðveldara. 

Ég veit ekki hvað er öðrum fyrir bestu. Ég veit ekki einu sinni alltaf hvað er mér fyrir bestu. Þess vegna reyni ég að treysta því að aðrir fái leiðsögn og hjálp eins og ég. Að það liggi ekki hjá mér einni að bjarga öllu og öllum. Ég bið iðulega fyrir fólki, sem ég get ekki hjálpað. 

Ég veit núna að þó mér líki ekki allt sem einhver segir, þá gæti sá hinn sami sagt eitthvað sem mér líkar mjög vel seinna og öfugt. Fólk er ekki svart eða hvítt. 

Oft skilur maður ekki sjálfan sig. Það á við um alla held ég.

Ég reyni að hugsa jákvætt af því það er auðveldara. Ég er búin að læra að hamfara hugsanarháttur kemur mér ekki neitt. Nema þá norður og niður.

Ég trúi því oftast nær að það verði fundin farsæl lausn á öllu. Af því þannig er það oftast.

Ég forðast meðlíðan með öðrum. Ég finn fyrir samhygð og sýni samhygð og samhug. En ég reyni ekki lengur að fara inn í vanlíðan annarra. Það hjálpar þeim sem líður illa ekki neitt.

Ég reyni að hafa hversdaginn skemmtilegan og ljúfan. Ég reyni að búa ekki til vesen úr engu. 

Þegar mér finnst allir vera fífl og fávitar reyni ég að líta í eigin barm. Þá er eitthvað í gangi í sálinni sem þarf að skoða. Oft ekkert merkilegt, geta líka verið hormónar eða einhver óánægja eða þreyta, fullt tungl jafnvel. Það skiptir ekki öllu máli. En það er gott að muna að líklega eru ekki allir fífl og fávitar heldur er ég sjálf í einhverju ójafnvægi. Það mun líða hjá.

Ég læt þá sem standa mér næstir vita ef ég er mjög öfugsnúin og segi þeim að það sé ekki þeim að kenna. Svo enginn misskilningur verði. 

Ég reyni að gæta þess flesta daga að láta allt sem er mér dýrmætast vera í forgangi hjá mér. Af því þar liggur mín hamingja og hugarró. 

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur komið víða við. Hún hefur gefið út bækur um heilsusamlegt mataræði fyrir börn og alla fjölskylduna ásamt því að halda námskeið og fyrirlestra. Einnig hefur hún haldið fræðslufyrirlestra varðandi hvernig má minnka matarsóun á heimilinu. Þá hefur hún stýrt matreiðsluþáttum í sjónvarpi, leikið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, lesið fyrir StoryTel og eins og hún segir sjálf, séð um barnauppeldi, eldamennsku og önnur húsmóðurstörf.

AÐRAR GREINAR

  • All Post
  • Ferðalög
  • Fjármál
  • Heilsa
  • Lífstíll
  • Matur
  • Samskipti
  • Vinsælt
    •   Back
    • Fjölskyldan
    • Sambönd
    •   Back
    • Það sem ég hef lært
    • Óskalistinn
    • Fyrirmynd
    •   Back
    • Uppskriftir
Heildstætt kerfi fyrir betri heilsu

16. apríl, 2024

Ayurveda lífsvísindin – Að fylgja lögmálum náttúrunnar í lífsstíl og fæðu Þessi elstu heilbrigðisvísindi mannkyns, sem…

Um Salina.is

Markmiðið með salina.is er að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni.
Að fræða, efla og gleða með kærleikann að leiðarljósi.

Vinsælar færslur

  • All Post
  • Vinsælt

Lífstíll

© 2023 Vefsíðugerð webdew.is